Sumarhús, orlofshús – Slysa, brunahætta
Grein/Linkur: Eru slysagildrur í orlofshúsum?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Ágúst 1997
Eru slysagildrur í orlofshúsum?
Nægjanlegt vatn þarf að vera fáanlegt, ef kviknar í sumarbústöðum, segir Sigurður Grétar Guðmundsson . En þar skortir víða mikið á.
Margir eiga þess kost í dag að dvelja í sumarbústað á fögrum stað, helst með heitum potti og birkihríslum í nánd. Áður fyrr voru það ekki nema mektugir borgarar sem gátu veitt sér slíkan lúxus en á síðari árum hafa fleiri og fleiri félagasamtök komið sér upp bústöðum sem félagsmenn geta fengið í vikutíma eða svo gegn hóflegu gjaldi. Lengi vel voru sumarbústaðir byggðir „fyrir utan lög og rétt“ engin yfirvöld skiptu sér af slíkum byggingum, hver gerði það sem honum sýndist, engin byggingaleyfi eða nokkurt eftirlit. Nú er þetta breytt að miklu leyti og veitti ekki af, þó eru brotalamir á ýmsu í sumarhúsabyggðum og ekki síst í lagnamálum.
Sumarhús eru í dag byggð í klösum, eru í raun orðin strjált þéttbýli. Oftar en ekki er þessi byggð í viðkvæmri náttúru þar sem sérstaklega þarf að vanda til frárennslis frá salernum og öðrum tækjum, en á því er misbrestur.
Hvað um eldvarnir?
Það er ekki nóg að setja upp einn reykskynjara í sumarbústað þó vissulega sé það sjálfsagt öryggistæki, reykskynjarinn segir til ef ekki er allt með feldu en hann gerir ekki meira. Það þurfa að vera nauðsynleg slökkvitæki og annar eldvarnabúnaður á staðnum, en það nauðsynlegasta er að nægilegt vatn sé fáanlegt ef kviknar í og þar mun skorta mikið á í mörgum sumarbústöðum.
En það leynast fleiri hættur í sumarbústöðum, hættur sem margir gera sér enga grein fyrir. Borgarfjörðurinn er vinsælt sumarbústaðaland, þar eiga einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki sumarhús sem eru fullsetin frá því í maí og fram í september og ef gluggað er í dagbækur bústaðanna kemur í ljós að flestar helgar eru gestir á staðnum, jafnvel um jól og ekki síður um áramót. Sama er að segja um bústaði í uppsveitum Árnessýslu og víðs vegar um land, sumarbústaður er því ekki lengur réttnefni, orlofshús á betur við.
Sterkt fjármálafyrirtæki hefur byggt glæsileg orlofshús fyrir starfsmenn sína og þeirra fjölskyldur. Tær lækur rennur á milli bústaðnna, kjarrið grær í hraunbollum og þekkt svipmikil fjöll setja mark sitt á umhverfið.
Orlofshúsin eru með öllum búnaði, hvort sem er til matargerðar eða svefns, stofa með húsgögnum og uppbúin rúm fyrir gesti.
En það vill oft verða fjölmennt í orlofshúsum og barnmargt öllum til ánægju. Þess vegna er gripið til þess ráðs að útbúa svefnloft fyrir börnin, þar geta þau sofið í flatsæng, það er ævintýri út af fyrir sig.
Þá erum við loksins komin að kjarna málsins, að svefnloftinu.
Illur grunur staðfestur
Strax við fyrstu sýn vakti svefnloftið forvitni blandna svolitlum grunsemdum. Til að komast á svefnloftið þurfti að príla upp mjóan lóðréttan stiga og efalaust fara ungir kraftmiklir krakkar létt með það. Það aftraði hins vegar ekki einum komnum af léttasta skeiði að klifra upp til að skoða betur og ekki síður til að hrekja burt illan grun. Það var nóg að reka höfuðið upp fyrir skörina til að fá staðfestingu á gruninum illa. Ef eldur yrði laus í þessu húsi áttu þeir sem hér svæfu, í flestum tilfellum börn, sér enga undankomuleið. Á litlum kvisti voru opnanlegar gluggaborur sem enginn kæmist út um út á þakið, stærðin og rammleg gluggajárn sáu fyrir því. Í gafli var gluggi með tvöfölfu gleri en ekki opnanlegt fag og þar sást vísbending um að þeir sem á húsinu bæru ábyrgð gerðu sér einhverja grein fyrir að sú hætta, sem hér hefur verið lýst, væri ekki hugarburður.
Við hlið gluggans hékk lítill gúmmíhamar. En er trúlegt að börn sem vakna með andfælum við reyk séu fær um að nota þetta tæki og hvað tæki þá við ef heppnaðist að brjóta rúðuna? Fall niður, tvo og hálfan metra.
Þessi vettvangsskoðun leiddi í ljós ótrúlegt andvaraleysi sem gæti leitt af sér hrollvekju.
Spurningin er hvort ekki séu víða slysagildrur sem þessar í orlofshúsum, er ekki ástæða til að taka út öll orlofshús í landinu og kanna þetta?
Ef hörmulegt slys verður í slíku húsi verður það örugglega gert en er ástæða til að bíða eftir því?