Húsráð – Ólykt, Saggi, Einangrun

Grein/Linkur:   Nokkur húsráð

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Nóvember 1994

 Nokkur húsráð

Hér fer nokkrar ástæður fyrir algengum húsnæðisvandamálum eldri húsum, víða um land, er fólk að fást við sömu vandamálin. Vandamál sem í sumum tilfellum er tiltölulega auðvelt að leysa. Oftar en ekki eru þau tengd lögnum hússins eða einangrun að ógleymdum lekum á þaki, veggjum, gluggum og meira að segja gólfi. Ákveðin vandamál fylgja oft ákveðnum tímabilum. Það er líklegt að leki sé ekki vandamál bygginga frá fyrri hluta aldar; hann kom með nýrri tísku í arkitektúr. Hann kom þegar kastað var út í ystu myrkur gömlu spakmæli; oft er gott sem gamlir kveða.

Ólykt

Í mörgum húsum, einkum fjölbýlishúsum eða húsum á fleiri en einni hæð, er við vandamálið „ólykt“ að stríða. Þetta er, í flestum tilfellum, auðvelt að bæta.

Ekki er úr vegi að skýra örlítið af hverju þetta stafar. Oftast kemur þessi óþefur úr skólplögnum vegna þess að vatnslásar við handlaugar eða baðker tæmast og ólyktin á greiða leið inn í hýbýli, öllum til angurs.

Á flest eldri hús vantar útloftunarrör á skolplögnina eða undirþrýstingsventla. Það sem gerist, sérstaklega í húsum sem eru fleiri en ein hæð, er að þegar skolað er niður úr salerni fyllist leiðslan af vatni (og fleiru). Meðan vatn kemur frá salerninu rennur allt eðlilega, en þegar það þrýtur byrjar vandamálið. Flestir hafa séð lækna sjúga úr glasi upp í sprautu. Það er sami krafturinn sem verður til í skólplögninni. Þegar hún fær ekki meira vatn myndast undirþrýstingur á eftir fallandi skólpinu. Krafturinn er oft svo mikill að það sogast úr litlum lásum eins og við handlaugar og baðker.

Ef skólplögnin væri opin upp úr þaki kæmist nóg loft inn í leiðsluna til að fylla upp í tómarúmið.

En þessu má bjarga á einfaldan hátt. Undirþrýstingsventlar eru þarfaþing. Þeir eru þeirrar gerðar að vera ætíð lokaðir nema þegar undirþrýstingur verður í skólpleiðslunni, þá hleypa þeir lofti inn á leiðsluna svo ekki sogast úr lásum.

Þessum ventlum má koma fyrir víða; undir eldhúsvaski, handlaug eða við salerni.

Ekki er algilt að óþefur stafi af tómum vatnslásum. Í kjöllurum og jarðhæðum getur skýringin verið bilaðar skólpleiðslur í grunni, á efri hæðum bilaðar leiðslur í veggjum. Þá bjarga undirþrýstingsventlar engu.

Saggi

Í kjöllurum eldri húsa verður oft vart við sagga og raka, sérstaklega á veggjum niður við gólf. Þessu kann að valda utanaðkomandi raki, en getur einnig verið bilaðar leiðslur í gólfi.

Í fjölmörgum eldri húsum eru íbúðir í kjöllurum og af fyrrnefndum orsökum voru þær oft taldar heilsuspillandi. Rakinn kemur oft að utan; jarðfylling upp á miðja veggi, í henni er mikill raki. Nokkuð langt er síðan menn gerðu sér grein fyrir þessum vanda og á síðustu áratugum eru alltaf lagðar jarðvatnslagnir utanhúss fyrir neðan neðstu plötu. Leiðslan er ekki þétt og getur þessvegna safnað í sig vatni og raka úr jarðveginum. Umhverfis hana er möl sem hleypir vatninu auðveldlega í gegn. Vatn fer alltaf auðveldustu leiðina, þessvegna reynir það ekki að brjóta sér leið inn í gegnum veggi, íbúum til ama, ef vel frágengin jarðvatnslögn er utan húss.

Að setja niður slíka lögn er oftast gerlegt við eldri hús og getur leyst mikinn vanda oft á tíðum.

Einangrun

Þegar kvartað er undan háum hitareikningum kemur stundum í ljós að ekkert er að hitakerfinu. Það skilar hlutverki sínu vel og nýtir varmann úr vatninu sómasamlega.

Í eldri húsum er ástæðan stundum léleg einangrun. Óþéttleiki með gluggum og hurðum tekur sinn toll, veggir eru með lélegri einangrun og gleymið ekki þakinu og „hanabjálkanum“. Ótrúlega víða er engin einangrun ofan á efstu plötu. Þakið að sjálfsögðu ekki einangrað og loftræsting þarna uppi ágæt, sem er mikil nauðsyn. En það krefst góðrar einangrunar ofan á efstu plötu.

Hvernig væri að kíkja upp? Það gæti borgað sig á skömmum tíma að einangra efstu plötu. Það getur líka borgað sig að einangra ris, sem er notað til íbúðar, jafnvel alla veggi íbúðar. Á markað hérlendis er þunnt einangrunarefni með álhúð til að endurkasta geislun og háu einangrunargildi, sem er auðvelt í uppsetningu og tekur lítið rými.

Já, það var minnst á leka í upphafi spjalls. Eigum við ekki að segja eins og maðurinn forðum; við höfum ekki þrek til að fjalla um þau ósköp.

Fleira áhugavert: