Fóðrun neysluvatnslagna – Galvaniserað stál

Grein/Linkur:  Er hægt að húða skemmdar vatnslagnir að innan?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

tæring neysluvatnslagönum.

Maí 2008

fodrun vatnslagna

Á undanförnum árum hefur það aukist mjög, ekki síst í húsum yngri en tuttugu ára, að neysluvatnslagnir hafa farið að skemmast og skila lélegu og menguðu vatni. Þessi óværa á eingöngu við lagnir úr galvaniseruðu stáli, skemmdirnar eru helst í lögnum sem um rennur kalt vatn. Það er ekki beint aðlaðandi að drekka vatn úr leiðslum sem þurft hefur að hreinsa með því að láta vatnið renna í langan tíma.

Það kemur mörgum spánskt fyrir sjónir að þessara skemmda gætir síður eða alls ekki í gömlum galvaniseruðum lögnum. Það er því ekki óeðlilegt að menn beini spjótum sínum að rörunum; eru galvaniseruð rör síðustu áratuga svo miklu lélegri en þau sem framleidd voru á árum áðum. Ekki skal fullyrt um gæðin en þetta er ekki ástæðan. Þversögnin er að víðast hafa vatnsgæðin aukist, s.s. hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en þetta gæðavatn er öðruvísi saman sett en það vatn sem notað var fyrir tuttugu árum og fyrr. Ef skoðuð eru galvaniseruð rör, segjum fjörutíu ára og eldri, má sjá innan í þeim hvít/brúna húð sem sest hefur innan í þau. Þegar góða vatnið kom í þessi rör hafði myndast varnarhúð innan á rörið, varnarhúð sem ekki er í nýjum rörum. Þessi útskýring gæti verið miklu lengri, því fleiri þættir hafa eflaust þarna áhrif, en látum þetta nægja.

Skemmdar galvaniseraðar stállagnir eru staðreynd, einkum þær sem um hefur runnið kalt vatn, það er líka staðreynd að skemmdirnar eru tæring. Byrjar með því að sinkhúðin eyðist og þá ræðst súrefnisríkt vatnið á bert stálið og það fer að ryðga.

Nú er boðin lausn á þessu vandamáli hérlendis með því að blása öllum hroða úr lögnunum, þvo þær og hreinsa og að lokum að húða þær með efni sem hefur fengið viðurkenningu matvælaeftirlits í löndum Evrópusambandsins.

tæring neysluvatnÞað er engin furða þó húseigendur séu ekki að fullu sannfærðir um ágæti þessarar lausnar, það er margur „kínalífselexírinn“ í boði á síðustu tímum og skyndilausnir margar.
En eftir að þetta mál er skoðað ofan í kjölinn þá er hægt að fullyrða að þetta er þrautreynd lausn sem ekki varð til í gær þó hún sé ný á Íslandi. Það var svissneskur verkfræðingur sem þróaði þessa aðferð, hún hefur verið þrautreynd í tuttugu ár. Þessi lausn er nú notuð í mörgum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum og reynist vel þó skemmdir í lögnum séu oft mjög ólíkar frá landi til lands. Víða er vandamálið kalkútfellingar sem geta verið það miklar að rör stíflast með öllu. Þetta er óþekkt hérlendis en með þessari aðferð er nokkuð auðvelt að sigrast á okkar staðbundna vandamáli, sem er tæring og ryðmyndun.

Fram til þessa hafa verið reyndar ýmsar leiðir til að leysa þetta mikla vandamál en því miður með takmörkuðum árangri. Þar má nefna að reynt hefur verið að setja á inntak kalda vatnsins ýmiss konar tæki sem ýmist eiga að vinna á vandamálinu með kristöllum eða með því að „jóna“ vatnið. Það hafa verið fáanlegar sýrur til að hreinsa rörin og það hefur tekist vel en þá stendur stálið eftir bert og ferillinn byrjar að nýju.

Það er því ekki nema um tvennt að ræða til lausnar. Annaðhvort að leggja nýjar neysluvatnslagnir eða hreinsa þær eldri og húða.

Hvort tveggja er lausn til framtíðar.

Fleira áhugavert: