Gömlu bárujárnshúsin – Endast vel

Grein/Linkur: Af hverju endast gömlu bárujárnshúsin svona vel?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Maí 2006

Af hverju endast gömlu bárujárnshúsin svona vel?

Þau standa enn og það er búið í þeim. Sum þeirra voru byggð fyrir einni öld en í þeim hefur fólki oft liðið vel ef á annað borð var til matur og eldiviður á köldum vetrardögum. Svo bregður við að unga kynslóðin sækir í þessi gömlu hús, vill endurbyggja þau að mestu í sinni upphaflegu mynd. Þingholtin í Reykjavík lúra á mörgum bárujárnshúsum og þangað sækja þeir ungu, en aldnir einnig. Húsin standa mörg hver fram við gangstétt og götu, nokkuð sem var fordæmt og bannað síðar meir. En þessi hús voru byggð á þeim tíma þegar Íslendingar ætluðu að byggja borgir, það varð síðar bannorð, borgir skyldu ekki byggðar heldur misjafnlega þétt strjálbýli, þanið út um öll holt.

En aftur að þessum gömlu bárujárnsklæddu timburhúsum. Hvers vegna hafa þau enst svona vel, hvers vegna vill fólk búa í þeim og hvers vegna líður fólki vel í þeim? En slík hús eru ekki aðeins í Þingholtunum, þau er til víðsvegar um landið og eiga það öll sameiginlegt að hafa staðist tímans tönn.

En er það ekki óyggjandi að allri verktækni hafi fleygt fram og þar með talin öll byggingartækni? Byggjum við ekki með betri vélum og verkfærum, höfum við ekki miklu vandaðri byggingarefni? Ekki nokkur vafi á því að það eru komin á markað ný byggingarefni sem voru óþekkt fyrir hundrað árum. Þá var ekki til hin magnaða einangrun frá Sauðárkróki, steinullin. Þá voru ekki til neins konar vörur úr plasti, ekki rör, ekki vínylflísar, ekki plastábreiður, svo nokkuð sé nefnt.

Undanfarið höfum við nokkuð dvalist í þessum pistlum við það sem á nútímamáli er kallað því fína nafni innivist og merkir einfaldlega hvernig okkur líður innandyra og hvað þarf til að líðanin sé þannig en ekki á verri veg. Rifjum örstutt upp að við þurfum hita, hreint loft, ferskt loft og raka. Allt þarf þetta að vera í réttum hlutföllum. Á undanförnum árum höfum við lagt ofuráherslu á hæfilegan og nógan hita jafnframt orkusparnaði. En ranghverfa rakans getur einnig hitt okkur fyrir ef hann er of mikill eða að loftræsingin er ekki næg. Þá getur rakinn orðið vágestur sem skemmt getur meira en hann bætir. Og þegar rakinn er kominn á það stig að hann er farinn að vera gróðrarstía fyrir myglu og aðra óværu þá er málið alvarlegt.

Mygla og fúkki geta spillt andrúmslofti og verið heilsuspillar.

Image result for bárujárnshúsEn það eru enn byggð timburhús og þó þau séu ekki með bárujárni yst eru þau annaðhvort klædd annars konar málmklæðningum eða þá timburklædd, hvorutveggja gamlar og góðar byggingaraðferðir.

En eru þau eins góð og heilsusamleg og gömlu bárujárnsklæddu timburhúsin, eða er ekki beitt nákvæmlega sömu tækni við byggingu þeirra nú og í gamla daga? Nei, ekki að öllu leyti. Á síðustu áratugum hefur verið lögð ofuráhersla á að gera hús eins þétt og mögulegt er. Ekki aðeins vatnþétt, ekki síður loftþétt. Ástæðan er sú að halda skal hitanum inni og svo loftræsa eftir þörfum, sem því miður verður oft misbrestur á vegna þess að gluggarnir er ekki hentug tæki til loftræsingar. Áður fyrr, í eldgamla daga mun einhver segja, voru kolaofnar algengir hitagjafar. Eldur er þeirrar náttúru að honum nægir ekki brennsluefni svo sem timbur eða kol eingöngu, eldurinn heimtar súrefni. Þess vegna varð að tryggja góðan loftsúg að kolaofnum eða kolaeldavélum og það vannst fleira við það, loftræsing varð betri innanhúss og allt timburvirki var hreinsað af öllum raka en hann hefði annars getað sest að og hafið sína eigin ræktun á óæskilegum myglugróðri. En það var fleira athyglisvert við þessi gömlu hús. Að utan var dragsúgur undir bárurnar á járninu sem tryggði að undirliggjandi timbur losnaði jafnharðan við raka sem þangað komst í rigningarveðrum. Og þessi dragsúgur dró til sín hárfínan andvara út í gegnum alla veggi, þessi hús voru ekki alfarið þétt, þau gátu andað.

En svo kom nútíminn með nýjungum og ekki síður nýjungagirni. Nú skyldu húsin vera eins loftþétt og mögulegt var. Þá kom plastið, einmitt það sem vantaði, þetta mjög svo fjölhæfa efni sem hefur gjörbreytt iðn okkar pípulagningamanna að langmestu leyti til góðs.

En það fóru fleiri og fleiri að nota plast. Í því mikla átaki að gera hús loftþétt þá var auðvitað plastdúkur byggingarefnið sem lengi hafði vantað. Allir útveggir timburhúsa eru í dag vandlega klæddir með plastdúk, þessir veggir skulu ekki tapa hita með ósýnilegri og lævísri öndun út í gegnum veggina.

En er það af hinu góða? Fátt er hættulegra timburverki en raki sem sest að og fer að vinna sitt eyðingarstarf. Þarf ekki aðeins að hugsa málið upp á nýtt? Talsvert hefur verið flutt inn af kanadískum timburhúsum á síðustu árum. Þau setja talsverðan svip á sitt umhverfi með sinn klassíska og íhaldssama stíl. En einhver lítill fugl var að hvísla því að Kanadamenn notuðu aldrei plastdúk í útveggi. Þeirra hefð og reynsla hefði kennt þeim að timbur þarf að anda, timburhús þurfa að anda og ekki síst útveggirnir.

Seljum þetta ekki dýrara en við keyptum það.

Fleira áhugavert: