Silfurskottur – Baðherbergi

Grein/Linkur: Af hverju eru silfurskottur í baðherberginu?

Höfundur: Lifandi Vísindi

Heimild: 

.

Silfurskottan sést oft í baðherbergjum þar sem er hlýtt og rakt

.

Maí 2023

Af hverju eru silfurskottur í baðherberginu?

Hvers vegna þrífast silfurskottur í baðherbergjum? Hvaðan koma þær og lifa þær hvergi annars staðar?

Þegar silfurskottur finnast í baðherberginu eða þvottahúsinu er það aðallega til marks um mikinn loftraka og yfirleitt fremur hátt hitastig.

Stundum er sagt að silfurskottur leggi undir sig baðherbergið ef þar er skítugt en það er aðallega mýta, þótt silfurskottur éti reyndar allt sem sterkja er í, t.d. dauðar húðflögur.

Ef baðherbergið er óhreint er sem sagt líklegt að silfurskotturnar séu fleiri en annars.

Bíta hvorki né stinga

Silfurskottur eru sjaldnast til mikilla vandræða í baðherberginu. Þær bíta ekki, stinga ekki og bera ekki sjúkdóma.

Annars staðar geta þær valdið skaða, svo sem í eldhússkápum eða í bókahillunni. Þar geta þær komist í sykurinn eða nagað í sig límið í bókakjölum. Silfurskottur hafa líka valdið tjóni á bæði málverkum og frímerkjasöfnum og þær geta líka gert óskunda í fjölskyldualbúmum.

Besta ráðið til að losna við silfurskottur er að lofta reglulega út til að draga úr loftraka.

Frumstæð skordýr

Silfurskottur eru með frumstæðustu skordýrum.

 Þær eru auðþekktar á löngum þreifurum, þremur löngum burstum á afturendanum. Þessi dýr hafa verið til í um 400 milljónir ára, að mestu óbreytt og hafa trúlega verið meðal fyrstu dýra sem gengu á land.

Á mótunartíma þeirra höfðu skordýr enn ekki þróað vængi og silfurskottur eru vængjalausar enn í dag.

Silfurskotta fullorðnast á þremur árum

Eftir langan mökunardans fellir karlinn sáðpakka á gólfið og kerlan tekur hann til sín. Síðan hefst löng þróun afkvæmanna til fullorðinsaldurs.

Kerlan losar egg sín eftir mökun

Eftir mökun kemur kvendýrið eggjum sínum fyrir í sprungum, oftast 50-60 talsins.

Fölleitir ungar úr eggjunum

Eftir 2-8 vikur klekjast eggin. Ungarnir eru eins og fölleitar vasaútgáfur foreldranna.

Skipta um húð og lit

Ungar silfurskottu skipta oft um húð og stækka örlítið í hvert sinn og fá meiri lit.

Silfurskottan er fullvaxin

Eftir þrjú ár eru ungarnir fullvaxnir. Þrátt fyrir smæðina geta silfurskottur orðið átta ára.

Silfurskottur eru háðar mönnum

Silfurskottur lifa í rakri mold en fáeinar tegundir, m.a. sú sem almennt kallast heitinu, kjósa hærra hitastig og eru nú orðnar svo háðar híbýlum manna að þær eru að heita má alveg horfnar í náttúrunni.

Fleira áhugavert: