Köld böð – Víxlböð, heilsuefling

Heimild:

.

Lea Marie Galgana í Jökulsárlóni – Mynd LEA – smella á hér til að tengjast hennar síðu

Janúar 2015

Máttur kalda vatnsins

Geir Gunnari Markússon

Við Íslendingar eigum ofgnótt af vatni bæði heitu og köldu. Allir Íslendingar þekkja það að fara í heitt bað eða sturtu og ekkert sveitarfélag á Íslandi er án upphitaðar sundlaugar og heitra potta. Það er vissulega mjög slakandi að vera í heitu baði eða sturtu en er það virkilega svo hollt og gott fyrir okkur? Við erum að gleyma hinni hliðinni á peningnum sem er  kalda vatnið, en það getur á margan hátt verið mjög gott fyrir líkama og sál og að mörgu leyti betra en heita vatnið. Þessi grein fjallar um það hvernig við getum nýtt kalda vatnið til heilsueflingar.

Kalt vatn sem meðferð til heilsueflingar var fyrst kynnt af  Sebastian Kneipp (1821-1897) þýskum presti og frumkvöðli í heilsueflingu.  Sögur hermdu að Kneipp hafi læknast af berklum (sem voru ólæknandi á þeim tíma) með því að baða sig í köldu vatni reglulega. Árið 1886 gaf Kneipp út bókina „My Water Cure“ sem varð metsölubók á þeim tíma.
Enn þann dag í dag eru Kneippböð eða víxlböð notaðar á mörgum helstu heilsustofnunum og heilsulindum um allan heim og þar á meðal  hafa þau verðið stunduð á Heilsustofnun í Hveragerði frá stofnun árið 1955.  Á myndinni hér að ofan má sjá dvalargesti á Heilsustofnun nýta sér víxlböðin.

Víxlböð ganga útá það að auka blóðflæði og efla hjarta- og æðakerfi með því að fara með fætur (einnig má baða einstaka líkamsparta eða allan líkamann) í köld og heit böð til skiptis. Kalda vatnið dregur saman æðarnar í húðinni og minnkar blóðflæði á meðan heita vatnið víkkar æðarnar og eykur blóðflæðið.
Víxlböðin eru m.a. talin góð gegn verkjum í fótum, fótapirringi og þreytu í fótum en allt þetta getur m.a. stafað af æðaþrenglsum.  Hér er lýsing á víxlbaði á fætur:
Víxlböð taka um 10-15 mínútur. Byrjað er á 3-6 mínútna heitu kálfadjúpu fótabaði (38-42°C). Að því loknu er farið í 10-30 sekúnda kalt fótabað (15-20°C). Þetta er gert þrisvar sinnum. Gott er að hreyfa fæturnar á meðan. Alltaf er endað á kalda vatninu.
Á Heilsustofnun í Hveragerði er sérhönnuð víxlböð í Baðhúsinu þar sem dvalargestir geta gengið milli kaldra og heitra baða og þannig nýtt sér heilsueflingu víxlbaða.

Kostir kalda vatnsins í heilsueflingu hafa verið staðfestar með nútíma vísindum og fjölmörgum reynslusögum. Meðferð með kalda vatninu hafa sýnt sig vinna gegn ýmsum heilsufarsvandamálum s.s.

  • Fótaóeirð og fótapirringi sem er alþekkt
  • Gegn háum blóðþrýstingi
  • Styrkja ofnæmiskerfið
  • Draga úr bólgum og verkjum
  • Bæta svefn
  • Aukið efnaskipti

Kalt vatn örvar ósjálfráða taugakerfið okkar. Ósjálfráða taugakerfið stjórnar ósjálfráðum hreyfingum eins og hjartslátt og öndun. Þetta kerfi bregst við kalda vatninu með því að hækka blóðþrýsting, auka hjartsláttartíðni og þrengir æðar. Þessi  viðbrögð styrkjast eftir því sem köldu böðin eru oftar stunduð. Sem leiðir svo til þess að stuðla að betri stöðulega á blóðþrýstingi og blóðrásinni. Einnig er talið að kalt vatn vinni gegn sársauka og bæti skap með því að valda því að líkaminn gefi frá sér vellíðunarhormónið endorfín.

Lýst hefur verið hér að ofan hvernig víxlböð fara fram en hvernig er best að byrja að nýta sér kalda vatnið til heilsueflingar? Ekki er ráðlagt að fara of geyst í að nota kalda vatnið og henda sér strax í ískaldan sjóninn eða taka ískalda sturtu. Betra er að vinna sig smátt og smátt upp og byrja t.d. í heitri sturtu og enda með því að kæla vel vatnið í lokin og einnig að nota víxböð á einstaka líkamsparta í stað þess að kæla allan líkamann. Sérfræðingar hafa ráðlagt að kælingin ætti ekki að vara lengur en 40 sekúndur til að byrja með. Semsagt byrja þægilega  og vinna sig upp. Gamalt ráð var að enda alltaf sturtuna eða baðið á snöggri kaldri gusu. Þetta er líklega eitt ódýrasta og einfaldasta form heilsueflingar því vatn úr krananum okkar kostar nánast ekki neitt.

Þó verður að gæta að því að það eru ekki allir sem þola kalda vatnið. Það getur t.d. verið hættulegt fyrir þá sem eru með ómeðhöndlaðan háan blóðþrýsting. Hins vegar segja sérfræðingar að köld böð sé óhætt að nota til að draga úr miðlungs hækkuðum blóðsþrýsting (150/100 eða neðar) eða til hækka lágan blóþrýsting.  Alltaf ætti að ráðfæra sig við lækni áður en köld böð eru notuð ef blóðþrýstingur hefur verið vandamál eða að þú telur að hann sé of hár eða lágur. Hér eru frábendingar frá því að nota köld böð:

  • Þeir sem eru stíga uppúr veikindu og eru með bráð veikindi
  • Æðakölkun
  • Veikburða einstkalingar, mjög grannir eða mjög illa á sig komnir líkamlega
  • Þeir sem þjást af raynauds sjúkdómi
  • Ofnæmi fyrir kulda (cold urticaria)

Þeir sem eru haldnir þessum kvillum ættu að halda sig frá köldum böðum allavegana til að byrja með og ef köld böð eru notuð að fara þá mjög varlega af stað.

Heimildir
http://www.nlfi.is/node/367
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1029514/
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5591
http://www.medicaldaily.com/benefits-cold-showers-7-reasons-why-taking-cool-showers-good-your-health-289524
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6750
http://undergroundhealthreporter.com/health-benefits-of-cold-water-therapy/#axzz3OKxtojqU
http://www.kyta.is/#!kld-b—ishnan/c1pgm
http://kraftur.org/?PageId=63148748-cbe8-4dd4-a748-b00dc7b8ce69

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Fleira áhugavert: