Álplaströr – Vænleg til lagna hérlendis?

Grein/Linkur:  Álplaströr virðast vænleg til lagna hérlendis

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – ang-lb.com 22.01.2021

.

Febrúar 2002

Álplaströr virðast vænleg til lagna hérlendis

Ekki er víst að allir viti hvað álplaströr eru, það er eðlilegt, þetta er yngsta barnið í rörafjölskyldunni. Álplaströrið er í raun sambland af plast- og málmröri og sameinar kosti þessara tveggja efna. Í stuttu máli er rörið þannig byggt upp að innst er plaströr, utan um það kemur rör úr áli og yst er annað rör úr plasti. Vatnið rennur því í plaströri, álrörið gefur því aukinn styrk og ysta rörið úr plasti ver álrörið gegn hverskonar tæringu.

Algengara heiti á þessari tegund röra er álpexrör eða eingöngu álpex. Það kemur til af því að fyrstu framleiðendur þessara röra notuðu pexrör sem innsta lag rörsins, en PEX er það plastefni sem algengast er sem röraefni fyrir mikinn hita og þrýsting, eða álíka og er í okkar heitu neysluvatnskerfum.

En á undanförnum árum hefur önnur tegund af polyeten-plaströrum verið að vinna meira og meira á sem mjög vænlegt efni í rör, einnig fyrir hærri hita og þrýsting. Þetta plastefni hefur sérheitið PEM og rör úr því efni eru þekkt sem snjóbræðslurör hérlendis og má þar nefna framleiðsluheitin Ísó, Kóbra, Svört Varmó og Svört Set, sérheiti þess er einnig PE-RT sem er skammstöfun á ensku heiti „Polyethylene Raised Temperature“.

Þess vegna höldum við okkur við heitið álplaströr ef við viljum ná yfir allt sviðið og vonandi verður það fast í orðasafni tæknimanna og annarra sem láta sig rétt heiti hluta einhverju skipta.

Íslenskar aðstæður eru sérstakar

Sem betur fer er farið að taka meira og meira tillit til þess að íslenskt vatn er ekki aðeins sérstakt, heldur geysilega fjölbreytt að efnasamsetningu. Þess vegna er ekki ráðlegt fyrir okkur að taka ýmsar ágætar erlendar prófanir algildar hérlendis.

Ef við lítum nánar á álplaströrin getum við vissulega tekið gildar prófanir sem sýna okkur hvert hita- og þrýstiþol röranna er, en þessi rör verður að meta eins og plaströr, því hærri þrýstingur, því lægri hiti eða öfugt.

En það er fleira að varast hérlendis og þar má benda á að jarðvarmavatn hérlendis er yfirleitt brennisteinsríkt og það er í sjálfu sér ekki hættulegt plaströrum. Hinsvegar eru plaströr ekki 100% þétt gegn ýmsum lofttegundum, sem dæmi má nefna að súrefni getur komist í vatn í plaströrum í gegnun rörið og það getur orsakað tæringu t.d. í ofnum ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir þegar plaströrið er framleitt.

Álplaströrið er öruggt gegn súrefnisupptöku vegna álrörsins, engar lofttegundir fara í gegnum það.

Hinsvegar vöknuðu áleitnar surningar um hvort hætta væri á að brennisteinsvetni í hitaveituvatni gæti komist í gegnum innra rörið því ef það gerðist myndi það skaða álrörið.

Okkur hérlendis liggur alltaf svo mikið á að það var ekkert verið að tvínóna við hlutina frekar en venjulega, álplaströr voru sett á markað og þau hafa náð mikilli útbreiðslu.

En er þessi hætta yfirvofandi, að rörin séu ekki hæf til nota fyrir hitaveituvatn?

Iðntæknistofnun og Orkuveita Reykjavíkur

Þessi tvö fyrirtæki tóku höndum saman og á þeirra vegum hafa verið prófanir í gangi í á annað ár á áhrifum hitaveituvatns á álplaströr, en slíkar prófanir taka sinn tíma. Áætlaður prófunartími er á enda kominn í vor og þá verður hægt að segja til um hvort það sé óhætt að nota álplaströrin eins og verið er nota þau nú þegar út um allt.

Sem betur fer er þegar ljóst að litlar líkur eru á að þarna sé hætta á ferðum, en samt sem áður er rétt að staldra við.

Í þessum pistlum hafa opinberar stofnanir og embættismenn oft verið gagnrýndir fyrir að leggja stein í götu nýrra lagnaefna sem hafa sannað sig að vera hæf við íslenskar aðstæður og ekki skal dregið úr þeirri gagnrýni.

Hinsvegar er það einnig hættulegt að fara of hratt. Þó að allt bendi til að notkun álplastsröra sé fyllilega örugg fyrir allt íslenskt vatn, kalt sem heitt, þá hafa menn harla lítið vitað um hvort notkun álplaströra hafi verið örugg fyrir hitaveituvatn, en notað þau samt.

Það hefði jafnvel verið nauðsynlegt að veita pípulagningamönnum betri leiðsögn við lögn röranna. Dæmi eru um að álrörið hafi brotnað eftir að það er þrykkt í tengi og rörið beygt óvarlega. Ef svo fer kemur leki ekki í ljós fyrr en löngu seinna, þegar plaströrin láta undan þrýstingi.

Þetta sannar enn einu sinni að ný lagnaefni og nýr lagnamáti þarf öruggari kynningu, í þessum efnum er ekkert meðfætt.

Fleira áhugavert: