Hitakerfi – Hversu heitt á að vera

Grein/Linkur:  Ertu að fara í hárgreiðslu?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

April 1994

Ertu að fara í hárgreiðslu?

Ef áar okkar, sem fyrr á öldum lifðu í dimmum og saggafullum torfbæjum, ættu þess kost að líta inn í hýbýli eða vinnustaði nútímans, yrðu þeir efalaust undrandi. Rafmagnið sér fyrir birtu í hvert skot og jarðvarminn streymir um hitakefið. Þvílík framför.

Áarnir teldu efalaust að hér væri fullkomnun náð. Eða er ekki svo? Birta, hiti og hreint loft, þarf nokkuð meira?

Ekki er allt sem sýnist

Svo undarlegt sem það er þá virðist nútímatæknin vera að mörgu leyti ófullkomin eða öllu heldur þekking okkar. Þó kallast margir sérfræðingar, hver á sínu sviði.

Þó við höfum tekið þessi risaskref á fáum áratugum, frá torfbæjum til háreistra húsa, er sífellt að koma í ljós að nútímatæknin hefur í för með sér vandamál. Ekki er það alltaf tæknin sem þessu veldur, heldur miklu fremur þau efni sem í dag eru notuð til húsagerðar. Í atvinnuhúsnæði bætist síðan við margskonar efni sem spilla andrúmsloftinu.

Þess vegna líður nútímamanninum ekki alltaf vel í sinni hátimbruðu höll. Maðurinn fer stundum fram úr sjálfum sér. Í græðgi sinni að byggja sífellt stærra og stærra með nýjum og nýjum efnum skapar hann ný vandamál.

Hversu heitt á að vera?

Í suðlægum löndum er ekki algengt að leggja hitakerfi af neinu tagi í íbúðarhúsnæði, ekki heldur í atvinnuhúsnæði. Íslenskur lagnamaður, sem starfs síns vegna var á námskeiði í Portúgal í byrjun marsmánaðar fyrir nokkrum árum, þótti heldur kalt á vinnustað. Hitasig úti var 10 stig, þá var það að sjálfsögðu það sama innanhúss. Þetta þótti heimamönnum sjálfsagt, en hinn norræni víkingur vildi ekki verða þjóð sinni til minkunnar og þorði ekki að skjálfa.

Við höfum vanið okkur á heit hýbýli, í mörgum tilfellum alltof heit. Þetta hefur marga aukakvilla.

Í fyrsta lagi allir gestirnir. Þeir heita rykmaurar, skaðlaus grey að mestu en flestir vilja fækka þeim sem mest og helst losna við þá með öllu. Það er mjög auðvelt. Þessi litlu grey voru ekki til í gömlu torfbæjunum einfaldlega vegna þess að þeir þrífast ekki ef hitastig í hýbýli er undir 20 stigum. Svo einfalt er það.

Í öðru lagi þarf að fylgjast betur með rakastigi eftir því sem heitara er og til of mikils hita má rekja höfuðverk, kvef og ýmsa kvilla. Þarna gerist nákvæmlega það sama og hjá mörgum ungum, velmeinandi mæðrum; að dúða kvef og óáran í börn sín þó það sé örugglega ekki ætlunin.

Í þriðja lagi er ekki úr vegi að muna eftir buddunni. Hafirðu látið þér nægja 18 stiga hita í stofunni en ákveður að héðan í frá skuli hann vera 20 stig, hækkar þú hitareikninginn. Til að gefa þér viðmiðun má ætla að fyrir hvert hitastig hækki hitareikningurinn um 6%!

Hinsvegar kann að fjölga hjá þér; litlu gestirnir, rykmaurarnir, eiga nú aðveldara í sínu frumstæða ástalífi og tímgast nú sem örast.

Ætlarðu í hárgreiðslu?

Það er alltaf spennandi að koma inn í bjarta, hlýja og skínandi hreina hárgreiðslustofu, allavega fyrir konur. Karlar eru þó að verða tíðari gestir á þeim bæjum.

Spurningin er hvort ekki þurfi að taka þar til hendi og bæta þau skilyrði, sem bæði gestir og starfsmenn búa við. Lagnamenn í Danmörku hafa skorið upp herör í því skyni. Ekki vegna þess að hárgreiðslufólk sé ekki hreinlætið uppmálað, heldur vegna þess að mælingar sýndu að í raun eru allar hárgreiðslustofur þar í landi heilsuspillandi vinnustaðir, já raunar stórhættulegir.

Þetta stafar af öllum þeim ókjörum af ýmiss konar vökvum og efnum sem sífellt er verið að pumpa úr úðabrúsum; gestum til mikillar ánægju líklega.

Í Danaveldi var sýnt fram á að þó mjög margar stofur væru útbúnar fullkomnum loftræstikerfum bætti það lítið úr. Áður en tekist hefur að soga út þann úða sem ekki verður fastur í hári og klæðum hefur alltof mikið af honum lent niður í öndunarfærum viðstaddra. Viðskiptamenn fá sinn skammt – en hvað um starfsmenn? Getur það gengið að vinna við slík skilyrði jafnvel ævilangt?

Það telja Danir ekki vera. Þeir telja að sama gildi um hárgreiðslustofur og járnsmíðaverkstæði, þar sem menn vinna við rafsuðu. Óhollustuna verði að soga það fljótt og örugglega í burtu að hún komist aldrei í öndunarfæri viðstaddra. Þetta er gert með svokölluðu „punktútsogi“. Það eru hvorki fleiri né færri en 9.000 stofur sem þurfa og eru að fá slíkan búnað.

En það eru ekki aðeins á hárgreiðslustofum sem þarf aðgát í þessum efnum. Potturinn er brotinn á mörgum vinnustöðum. Hættan leynist kannski mest á þeim stöðum þar sem snyrtimennska ríkir og allt virðist skína af hreinlæti.

Þess vegna eru hárgreiðslustofur teknar hér sem dæmi.

Fleira áhugavert: