Orkuverð, sagan – Álver, leyndarmál?

Heimild:

.

Mars 2010

Leyndarmálið um raforkuverð til álvera á Íslandi

Ketill Sigurjónsson

Spennan jókst dag frá degi ..sagan.

Í apríl n.k. (april 2010- verður haldinn aðalfundur Landsvirkjunar. Og þar verður gefið upp hvað fyrirtækið selur raforkuna á til einstakra atvinnugreina. Þá fær þjóðin væntanlega loksins aðgang að einhverju mesta leyndarmáli Íslandssögunnar. Nefnilega því hvað stóriðjan og þ.m.t. áliðnaðurinn á Íslandi borgar fyrir raforkuna.

Hvers megum við vænta? Ef allt hefur verið með eðlilegum hætti í starfsemi og ákvarðanatöku hjá íslensku orkufyrirtækjunum, ættu álverin að vera að greiða a.m.k. 40 mills pr. kWh fyrir raforkuna. Og nýjasta álverið – álver Alcoa á Reyðarfirði – ætti að vera að greiða a.m.k. 50 mills fyrir nýjasta græna rafmagnið frá Kárahnjúkavirkjun.

nordural-loftmynd.jpg

nordural-loftmynd

EF  Rio Tinto AlcanAlcoa og Century Aluminum eru a greiða lægra verð fyrir íslensku raforkuna, þá er það einfaldlega úr öllum takti við veruleika áliðnaðarins í veröldinni. EF orkuverðið er lægra, þá eru íslensku orkufyrirtækin að undirverðleggja raforkuna m.v. það sem gerist á hinum alþjóðlega álbræðslumarkaði. Og þá er almenningur á Íslandi í reynd að niðurgreiða rekstrarkostnað álveranna með óeðlilegum hætti. EF.

Enn sem komið er er raforkuverðið til álveranna á Íslandi hulið þoku leyndarinnar En því miður er ýmislegt sem bendir til þess að orkuverðið til álveranna á Íslandi sé mun lægra en umrædd 40-50 mills. Skoðum þetta aðeins nánar. Menn hafa reynt að nota bókhald bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur til að reikna út hvað raforkuverðið til álveranna sé. Nýjasta álitið er líklega það sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti á liðnu ári (2009).

katrn_juliusdottir_3.jpg

katrn_juliusdottir_

Þetta leiðir hugann að glænýju útspili iðnaðarráðherra, sem í nýliðinni viku færði okkur þau tíðindi að orkuverðið til álveranna á Íslandi sé sambærilegt við meðalverð til álvera í heiminum. Um þetta vísar ráðherrann einmitt til fyrrnefndar niðurstöðu Hagfræðistofnunar. Í umræddri skýrslu Hagfræðistofnunnar sagði orðrétt (leturbreyting er Orkubloggarans):

„Raforkuverð til álvera á Íslandi er bundið í langtímasamningum og er það verð ekki gert opinbert. Út frá ársreikningum Landsvirkjunar má þó ætla að það hafi hin síðustu ár verið á bilinu 25-28 US mill á kWst. Til samanburðar má nefna að samkvæmt World Bureau of Metal Statistics var meðalverð í heiminum árið 2007 27 US mill á kWst. Verð hér virðist því vera á sama bili og annars staðar að jafnaði.“

Orkubloggarinn er reyndar á því að „mill“ í fleirtölu eigi að skrifa „mills“ (eitt mill er sama og 1/1000 USD). Bloggaranum þykir þó litlu skipta hvernig menn skrifa þessa ágætu einingu. Verra er að sjá að í reynd leita höfundar skýrslunnar ekki heimilda hjá World Bureau of Metal Statistics, heldur vitna þeir til tiltekinnar greinar sem aftur vitnar til WBMS. Sem sagt ekki farið í frumheimildina, heldur beitt aðferðum sem minna á menntskæling sem vitnar til Wikipediu í skólaritgerð. Svona vinnubrögð eru kannski réttlætanleg í menntó eða á Hagfræðiblogginu (ef það væri til), en þetta geta tæplega talist boðleg vinnubrögð hjá stofnun innan Háskóla Íslands.

hi_logo_blue.gifÞar að auki er þetta EINA heimildin sem höfundar umræddrar skýrslu Hagfræðistofnunar vísa í, um að meðal-raforkuverðið í heiminum hafi verið 27 mills á umræddum tíma. Þar er um er að ræða grein á vefnum www.alunet.net, sem er skrifuð af Svartfellingi nokkrum að nafni Goran Djukanovic.

Djukanovic þessi mun vera sérfræðingur í álmörkuðum. Engu að síður er erfitt að átta sig á því af hverju höfundarnir að skýrslu Hagfræðistofnunar skoðuðu ekki frumheimildina. Að auki hefðu þeir auðvitað líka átt að leita fleiri heimilda – og upplýsinga um það hvert meðalverðið var 2008. Loks er hálf glatað að sjá að þeir telji umræddan Goran Djukanovic vera að tala um meðalverðið 2007 – af því í reynd var grein Djukanovic's skrifuð snemma árs 2006! Þetta er m.ö.o. ekkert annað en fúsk hjá Hagfræðistofnun og afleitt að iðnaðarráðherra byggi yfirlýsingar sínar á svona vinnubrögðum.

En hvað um það. Samkvæmt þessari skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, sem kom út um mitt ár 2009, var meðalverð á raforku til álvera árið 2007 2006 (sic) 27 mills pr. kWh og verðið til íslensku álveranna „síðustu ár“ var talið vera á bilinu 25-28 mills. Þetta var af hálfu Hagfræðistofnunar talið benda til þess að fylgni sé milli meðalverðs í heiminum og verðsins á Íslandi.

tinni-eldflaugastodin.jpg

tinni-eldflaugastodin

Gott og vel. Kannski er það rétt að svo sé. En þá vaknar auðvitað spurningin, hvað er meðalverðið í heiminum í dag á raforku til álvera? Sökum þess að umrætt álit Hagfræðistofnunar er byggt á grein eftir áðurnefndan Goran Djukanovic hafði Orkubloggarinn einfaldlega samband við Goran nú undir kvöldið, þar sem hann sat við skrifborðið sitt í borginni Podgorica í Svartfjallalandi. Podgorica er einmitt höfuðborg þessu bráðunga lýðveldis, ef einhver skyldi ekki vita það, og gott ef þetta er ekki á slóðum Eldflaugastöðvarinnar hans Tinna!

Goran Djukanovic reyndist hinn mesti ljúflingur og upplýsti bloggarann án málalenginga um að hann telji að meðalverð á raforku til álvera árið 2008 hafi verið um 40 mills pr. kWh. Og að flest álver í Vestur-Evrópu borgi nú á bilinu 30-40 mills (kreppan og lækkandi álverð hafa lækkað raforkukostnaðinn). Goran bætti því einnig við að hæsta raforkuverðið til álvera sem hann hafi heyrt um sé 90 mills í Brasilíu. En að hann hafi ekki staðfestingu um að það sé rétt.

Orkubloggarinn er þakklátur fyrir hversu skjótt Svartfellingurinn Goran Djukanovic brást við fyrirvaralausum spurningum bloggarans. Og við skulum líka gefa Hagfræðistofnun HÍ séns. Jafnvel þó svo menn þar á bæ hefðu kafað djúpt ofaní fleiri heimildir og reynt að gæta þess að styðjast ekki við úreltar tölur, er alltaf erfitt að koma með hina einu réttu niðurstöðu um hvert meðalverð á raforku til álbræðslna er. Raforkuverð til álvera er gjarnan tengt álverði á heimsmarkaði og þess vegna er meðalverðið á raforkunni síbreytilegt, rétt eins og álverð. Það breytist fyrirvaralaust, rétt eins og veðrið hér á Klakanum góða, og getur lækkað jafnt sem hækkað. Trendið síðustu árin hefur verið hækkandi raforkuverð, en nú í kreppunni hefur orðið breyting þar á.

ruv_logo.jpgTilefni áðurnefndra orða iðnaðarráðherra um raforkuverð til álvera á Íslandi, var önnur skýrsla. Skýrsla sem fréttamenn RÚV komust yfir frá Hatch Consulting, sem er stórt ráðgjafa- og verkfræðifyrirtæki. Skv. þeirri skýrslu má, að sögn fréttastofu RÚV, draga þá ályktun að Norðurál greiði um 25% lægra raforkuverð en álver í heiminum að meðaltali. Sé svo er líka freistandi að álykta ennþá meira – og segja sem svo að þetta eigi við um öll álverin á Íslandi. Að þau séu öll að greiða 25% minna en meðalverðið. Í dag mynda það þýða að raforkuverð til álveranna á Íslandi sé núna á ca. 23-26 mills (miðað við að meðalorkuverð til álvera í heiminum í dag sé 30-35 mills, eins og nánar er vikið að hér síðar í færslunni; Orkubloggarinn vill fara varlega í skaflinn og fellst ekki að svo búnu alveg á rök Goran Djukanovic um að meðalverðið sé 30-40 mills).

Iðnaðarráðherra segir þetta ekki vera rétt; að það sé ekki rétt að raforkuverðið til álveranna á Íslandi sé lægra en meðalverðið. Heldur að verðið hér sé einmitt sama eins og  meðalverðið i heiminum. En af orðum ráðherrans virðist tvennt nokkuð augljóst: Annars vegar virðist hún ekki vita að meðalverð á raforku til álvera í heiminum er talsvert hærra en Hagfræðistofnun taldi vera, af því stofnunin mislas aldur hinna fábrotnu upplýsinga sem hún studdist viðOg hins vegar gerir ráðherrann sér ekki grein fyrir því að það væri algjör skandall ef raforkuverðið til álveranna á Íslandi er einungis sem nemur meðalverði til allra álvera í heiminum öllum. Í eftirfarandi hripi mun Orkubloggarinn leitast við að skýra þetta. Þó svo augnlokin séu aðeins farin að þyngjast hér undir miðnættið, að kvöldi þessa yndislega vordags hér í Fossvogsdalnum.

aluminum_power_tariffs_2004.jpg

aluminum_power_tariffs_2004

Það er vissulega erfitt að fullyrða nákvæmlega hvert meðalraforkuverð til álvera í heiminum er í dag. Vitað er að það var um 25 mills fyrir um 5 árum (sökum þess að þetta er blogg en ekki keypt sérfræðiálit hyggst Orkubloggarinn ekki gefa nánar upp heimildir sínar hér, en iðnaðarráðherra er að sjálfsögðu velkomið að gera Orkubloggaranum tilboð um ráðgjafarstörf!). Og meðalverðið var komið í a.m.k. 35 mills og jafnvel í 40 mills árið 2008 meðan allt lék í lyndi í efnahagslífinu. En vegna kreppunnar og lækkandi álverðs hefur raforkuverðið til álveranna lækkað talvert aftur – og mun vart hækka aftur á næstunni nema álverð hækki almennilega á ný. Orkubloggarinn veðjar á að spár þess efnis að meðalverð 2010 upp á ca. 30-35 mills séu líklegar til að ganga eftir. Það gæti þó jafnvel orðið ennþá lægra ef álverðið hikstar enn meira. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. 

En hvort sem meðalverðið í dag er 30 mills, 35 mills eða eitthvað allt annað, þá er hreinlega ömurlegt ef það er rétt hjá iðnaðarráðherra að álverin á íslandi séu einungis að borga meðalverð. Meðalverð á raforku til álvera í heiminum er nefnilega sífellt togað niður í djúpið, af hinni köldu hendi gamalla  raforkusamninga. Samninga sem voru gerðir þegar raforkuverð í heiminum var miklu lægra en nú er og eru margir hverjir ekki tengdir álverði. Það eru þessir gömlu raforkusamningar sem toga meðalverðið niður. Álver sem risið hafa í efnahagsuppganginum síðan 2003, hafa aftur á móti langflest mátt þola mun „óhagstæðari“ raforkusamninga. Samninga þar sem verðið er langt fyrir ofan umrætt „meðalverð“.

Ástæðan fyrir því að nýrri álverin hafa almennt þurft að greiða raforkuverð sem er mun hærra en meðalverðið, er tiltölulega einföld: Það er einfaldlega svo að nánast hvergi í heiminum er lengur unnt að virkja svo ódýrt, að raforkuverð upp á 27 eða jafnvel 30 mills standi undir kostnaði og eðlilegri arðsemi af nýrri virkjun. Ef álver borgar „meðalverð“ eða þaðan af minna, bendir það til þess að álverið hafi verið reist fyrir mörgum árum, þegar raforkuverð var mun lægra.

Raforkusamningar til álvera eru oftast til langs tíma og gömlu samningarnir oft ekki  tengdir álverði. Þess vegna eru t.d. til gömul álver í Kanada og Rússlandi, sem eru sum hver einungis að borga 5-6 mills/kWh! Álver af þessu tagi draga meðalverðið hreinlega ofaní svaðið. Hækkandi raforkuverð hefur valdið því að það eru nýlegu álverin sem toga meðalverðið eilítið upp; nýju álverin borga flest mun meira en meðalverðið. Á sama hátt toga gömlu álverin meðalverðið niður. Sem dæmi má nefna álver sem Alcoa rak til skamms tíma suður í Álfunni Svörtu:

ghana_home_banner.jpg

ghana_home_banner.

Í Ghana hafa stjórnvöld lengi staðið í stappi við Alcoa, sem aðeins greiddi 11 mills fyrir kílóvattstundina þegar síðast fréttist (2008). Það orkuverð er dæmigert fyrir gömul álver í þriðja heiminum, sem reist voru í tengslum við virkjanaframkvæmdir þróunarríkjanna með lánsfé frá Alþjóðabankanum. Oft voru orkusölusamningarnir með einhverjum hætti tengdir annarri auðlindanýtingu og í tilviki Ghana voru það auðvitað hinar geggjuðu báxít-námur sem álfyrirtækin voru að tryggja sé. Með einu nettu álveri í leiðinni við hafnarborgina Tema þarna á gömlu Þrælaströndinni.

Þegar uppgangurinn mikli varð í byrjun 21. aldarinnar var Ghanamönnum nóg boðið. Þeir vildu semja upp á nýtt og fá 30 mills fyrir kílóvattstundina. En það reyndist ekki auðvelt fyrir Ghanamenn að sannfæra Alcoa um réttmæti þess að hækka raforkuverðið úr 11 mills og í 30. Enda byggir landið efnahag sinn að stóru leyti á samningum við Alcoa um báxítsölu og þarf þjóðin því að halda sambandinu við Alcoa í þokkalegri vinsemd. Ghanamenn framleiða sem sagt gríðarlega mikið af báxíti og áliðnaðurinn í landinu snýst því ekki bara um raforku. Þá er það auðvitað svo að álver Alcoa í Ghana var í sérstöku félagi – sem nefnist Volta Aluminum Company eða Valco – og í deilum sínum við stjórnvöld í Ghana lá það í loftinu að ef orkuverðið yrði hækkað í 30 mills myndi álverið einfaldlega verða sett í þrot og loka. Kannski verða flutt til Íslands?

aluminum-ingot1.jpg

aluminum-ingot

Eftir áralangar deilur um orkuverðið og ítrekaðar hótanir Alcoa um að álverinu yri lokað ef Ghanamenn létu ekki af hugmyndum sínum um hærra raforkuverð, endaði þetta með því að Ghanastjórn keypti Alcoa út úr rekstrinum. Nokkrum mánuðum síðar útnefndi tímaritið Forbes Alcoa sem aðdáunarverðasta málmafyrirtæki veraldar eða „world's most admired metals company“. Sætt.

Þetta er að mörgu leyti dæmigerð saga úr álheimi þróunarríkjanna og ætti öllum að vera augljóst hvers konar álbræðslur það eru sem toga „meðalverðið“ niður úr öllu valdi. Iðnaðarráðherrann íslenski ætti líka að átta sig á þessu.

Í landi þar sem áliðnaður hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum ætti raforkuverðið aftur á móti með réttu að vera talsvert mikið hærra en meðalverðið. Þess vegna myndi sá sem ekki vissi hvenær íslensku álverin voru reist og hefði t.d. ekki hugmynd um hversu nýtt álver Alcoa á Reyðarfirði er, en væri sagt að álverin á Íslandi greiði svipað verð fyrir rafmagnið eins og meðalraforkuverðið er í heiminum öllum, samstundis álíta sem svo að þetta væru allt fremur gömul álver sem enn nytu góðs af gömlum raforkusamningum.

Í reynd er staðan hér á Íslandi allt önnur. Hér búum við í raun að mestu við glænýjar álbræðslur. Saga áliðnaðarins á Íslandi er í grófum dráttum sú að þrátt fyrir að fyrsta álverið hafi verið byggt hér strax á 7. áratug liðinnar aldar, er stærstur hluti áliðnaðarins hér brand new. Álbræðslan í Straumsvík var lítil í upphafi en stækkaði í nokkrum skrefum og svo kom Kenneth Peterson og byggði álver í Hvalfirði. Það álver stækkaði verulega í nokkrum áföngum og svo varð sprenging í framleiðslunni árin 2007-2008 þegar álver Alcoa á Reyðarfirði tók til starfa.

Um 1995 var álframleiðslan hér á Íslandi um 100 þúsund tonn (og hafði þá verið óbreytt frá 1980), um aldamótin 2000 er framleiðslan komin í um 250 þúsund tonn, árið 2005 er álframleiðslan komin hátt í 400 þúsund tonn og 2010 er álframleiðsla á Íslandi næstum 800.000 tonn!

aluminum_primary_production_history.jpg

aluminum_primary_production_history

Vert er líka að vekja athygli á því að árið 1980 var álframleiðslan hér á Íslandi einungis um 12% af því sem hún er núna, en í alþjóðlegu samhengi er sambærilegt hlutfall um 50% (árið 1980 var heimsframleiðslan sem sagt um 50% af því sem hún er í dag). Og um aldamótin var þetta hlutfall á Íslandi um 33% en á sama tíma var þetta sama hlutfall úti í hinum stóra heimi hátt í 66% eða helmingi hærra en á Íslandi. M.ö.o. þá hefur íslenski áliðnaðurinn vaxið miklu hraðar á síðustu árum heldur en áliðnaðurinn á heimsvísu – og það sama hvort sem litið er einn eða tvo áratugi aftur í tímann.

Já – íslenski áliðnaðurinn er að megninu til mjög ungur og ætti því að vera að greiða nokkuð hátt verð fyrir raforkuna. Vegna þess að á þeim tíma sem nýju álverin voru byggð bauðst ekki sérstaklega ódýr raforka úti í hinum stóra heimi og verðsamkeppnin því ekki eins hörð eins og áður var, meðan álbræðslur áttu aðgang að skítbillegri raforku víða um heim. Hér  sitja orkufyrirtækin því ekki uppi með mikið af gömlum lágverðs-orkusamningum frá þeim dögum þegar orkuverð í heiminum var miklu lægra en nú er. Þess vegna ætti orkuverð til álvera á Íslandi tvímælalaust að vera nokkuð langt yfir meðaltalinu í heiminum. Í löndum sem eru með umfangsmikinn gamalgróinn áliðnað er aðstaðan þveröfug; þar er eðlilegt að orkuverðið sé almennt mun lægra en meðalverðið og miklu lægra heldur en í löndum með nýlegan áliðnað.

china_aluminum_production_1999-2008.gif

china_aluminum_production_1999-2008

Til að skýra þetta betur er gott að líta til ríkis (annars en Íslands) sem einnig hefur byggt upp mikinn áliðnað á allra síðustu árum. Kína er nærtækt dæmi. Þar hefur álframleiðsla rétt eins og á Íslandi margfaldast síðustu árin vegna hinnar alræmdu iðnaðaruppbygginningar þar í landi. Sem hefur m.a. falist í byggingu fjölda álvera; reyndar svo margra að sumir óttast að senn verði æpandi offramboð af áli, en það er önnur saga.

Stjórnvöld í Kína hafa fyrst og fremst notað kolaorku til að knýja þessi nýju álver, enda er vart til ódýrari leið til raforkuframleiðslu í Kína en að brenna brúnkolaskítnum sem þar er í hrönnum. Raforkuverðið til álveranna á mestu álbræðslusvæðunum í Kína er nú að meðaltali sagt vera um 55 mills pr. kWh (reyndar á bilinu 50-60 mills, sbr. m.a. glænýtt áliti frá Deutsche Bank). Í nokkrum héruðum Kína þekkist reyndar mun lægra raforkuverð til álvera og það eru jafnvel til dæmi um álver sem borga einungis 30-35 mills. En meðalverðið á raforkunni þar í Landi Drekans er sem sagt mun hærra en meðalverðið í heiminum. Og það er einmitt mjög lógískt vegna þess hversu kostnaðurinn við að reisa og reka ný raforkuver í dag er orðinn hár og slík orkuver hefur auðvitað þurft til að mæta nýjum áliðnaði.

Þegar haft er í huga að mjög stór hluti álframleiðslunnar á Íslandi á sér stað í nánast glænýju risaálveri, er satt að segja með ólíkindum ef raforkuverð til álvera á Íslandi er einungis sem jafngildir meðalverði í heiminum – eða jafnvel lægra en það! Þetta er eiginlega alveg skelfilegt ef satt reynist. En það myndi auðvitað skýra vel af hverju forstjóri Alcoa var svona duglegur að faðma austfirsk börn og kyssa blessunina hana Valgerði frá Lómatjörn í bak og fyrir, eins og sjá má í myndinni Draumalandið.

rusal-aluminum-electricity-importance.jpg

rusal-aluminum-electricity-importance

Það myndi líka skýra af hverju gljáandi nýtt Fjarðarálið reis hér á landi, en t.d. ekki í Kína. Þar hefði Alcoa sennilega þurft a borga mun hærra verð fyrir raforkuna – þ.e.a.s. ef verðið til Alcoa liggur á því bili sem Hagfræðistofnun nefndi. Raforkukaup eru gjarnan 25-40% af rekstrarkostnaði álvera og þess vegna skiptir raforkuverðið einfaldlega gríðarlegu máli fyrir álver. Næstum öllu máli því hinn stóri þátturinn er hráefnisverðið og hann er víðast hvar nokkurn veginn sá sami. Þess vegna verðskulda „lowest energy prices“ auðvitað marga kossa.

Núverandi iðnaðarráðherra þarf að átta sig á því að meðalraforkuverð í heiminum til álvera merkir sama og lágt raforkuverð þegar í hlut á land þar sem stærstur hluti áliðnaðarins er nýr. Þegar meta skal hvort raforkuverð til álvera sé á skynsamlegum og eðlilegum nótum verða menn að líta til aldurs álveranna, hvenær þau voru reist, hvar þau eru staðsett og í hvers konar efnahagsumhverfi þau eru. Ef verðið á raforkunni til nýlegra álbræðslna á Íslandi er eitthvað í nánd við meðalverðið til allra álvera heimsins er það einfaldlega skandall.

canada_quebec_power_cost_2009.jpg

canada_quebec_power_cost_2009

Í löndum sem hafa mikið af  álverum – gamlan, rótgróinn og umfangsmikinn áliðnað – er staðan önnur og raforkuverðið gjarna lágt að meðaltali. Þess vegna er t.a.m. raforkuverð til álvera í Kanada í lægri kantinum. Meðalverðið þar nær líklega varla 20 mills! Vegna þess að þar er fullt af kexgömlum álverum sem fá skítbillegt rafmagn skv. gömlum raforkusamningum.

Enda er núna uppi mikil umræða t.d. í Quebec-fylki um hversu fráleitt verð álverin séu að borga fyrir verðmætt vatnsaflið þar. Margir Kanadamenn eiga æ erfiðara með að kyngja verðinu til álveranna þar, þegar fyrir liggur að nýjar vatnsaflsvirkjanir í Quebec þurfa verð upp á 50-100 mills til að standa undir fjárfestingunni með eðlilegri arðsemi! Þetta er enda orðið mjög heitt pólitískt mál þarna hjá ljúflingunum í Montreal og nágrenni. Ekki ólíklegt að stjórnvöld þar muni senn fara í markvissar aðgerðir til að þrengja að álverunum, sem þykja vera orðin ansið hressilega niðurgreidd af kanadískum almenningi. Umræðan í Kanada núna snýst um réttmæti þess að almenningur sé í reynd að niðurgreiða þessi örfáu störf í álverunum; niðurgreiðslur sem gera þetta að einhverjum dýrustu störfum landsins. Kunnugleg umræða?

Það er sem sagt hægt að reikna út meðalverð á raforku til álvera í heiminum, sem nú um stundir gæti verið nálægt 30-35 mills pr. kWh. Og það er gjörsamlega útí hött að miða við þetta meðalverð sem ásættanlegt verð þegar verið er að reisa nýjar virkjanir. Eina gagnið sem hafa má af „meðalverðinu“ er að það má nota sem eins konar undirmálsviðmiðun; grunn þegar reiknað er hversu miklu hærra verðið frá nýju virkjuninni eigi að vera heldur en meðalraforkuverðið alræmda.

qatar_gas-flare.jpg

qatar_gas-flare.

Það er varla til nokkur staður í heiminum þar sem ný virkjun gæti staðið undir fjárfestingunni, ef selja á raforkuna á umræddu meðalverði. Nema kannski með einni eða tveimur undantekningum; t.d. kann að vera fjárhagslega réttlætanlegt að gasvirkjun hjá orkuboltunum ægilegu í Katar eða Abu Dhabi gæti þolað svo lágt verð. A.m.k. eru horfur á að verð á gasi muni ekki fara hækkandi næstu árin vegna síaukins gasframboðs. Líklega eru ríki með aðgengilegar og risastórar gaslindir hin einu sem í dag geta boðið nýjum álverum dúndrandi hagstæða langtímasamninga.

Ástæðan fyrir því að gasríkin kunna að velja þessa leið er einfaldlega sú að ella þyrftu þau að umbreyta gasinu í LNG og sigla með það langar leiðir til viðskiptavina í t.d. Japan eða S-Kóreu. Það er dýrt og þess vegna getur borgað sig fyrir gasríkin að fá til sín álver, þó svo raforkuverðið verði einungis nálægt meðalverðinu – eða jafnvel lægra.

Eins á horfurnar eru á gasmörkuðunum núna er útlit fyrir að allur orkufrekasti iðnaður heimsins muni á næstu árum sækja villt og galið í gasið sem orkugjafa. Engu að síður er líka fullt af álverum út um allan heim, sem kunna að vilja að ná meiri hagkvæmni í rekstri með stækkun. Þess vegna er kannski ennþá áhugi fyrir álversframkvæmdum á Íslandi – ekki síst ef Ísland ætlar að kyngja því að vera meðalskussi þegar kemur að verðlagningu á raforku til álvera. Meðan íslenskir pólitíkusar vilja liðka fyrir því að byggðar séu blokkir í gamalgrónum sjávarplássum – fjölbýlishús sem lánastofnanir þurfa svo að leysa til sín þegar partíið er búið – eiga ný álver á Íslandi eflaust séns.

Staðreyndin er því miður sú að allir sem koma að raforkubransanum vita vel að ef litið er til ríkja þar sem bylting eða þjóðnýting vofir ekki yfir annan hvern mánuð, þá er Ísland það land sem hefur löngum boðið stóriðjunni hagstæðasta raforkuverðið. Það skýrist ekki bara af hógværum viðsemjendum fyrir hönd Íslands, heldur endurspeglar þetta auðvitað þá staðreynd að hér er mikið af ónýttu afli, framleiðslukostnaður hógvær og við erum fjarri öllum stórum mörkuðum. Íslenska þjóðin hefur fyrir löngu fullnægt eigin raforkuþörf og hefur enn sem komið er ekki þann möguleika að selja rafmagn til annarra landa, eins og t.d. Norðmenn gera í stórum stíl. Samningsstaðan hefur verið veik og þeir sem séð hafa um samningana virðast hafa haft lítinn áhuga á arðsemissjónarmiðum (þ.e. ef við erum einungis að fá meðalverð eða þaðan af lægra verð fyrir raforkuna), en gert þeim mun meira úr byggðasjónarmiðum og von um tímabundna efnahagsþenslu. Nema að verðið til álveranna hér sé 40-50 mills; þá er þetta tómur misskilningur í Orkubloggaranum og vart hægt að kvarta yfir raforkuverðinu.

fjardaral-001.jpg

fjardaral

Því miður er líklegra að iðnaðarráðherra hafi rétt fyrir sér og að hér sé greitt meðalverð – eða jafnvel lægra en það. Og ef það reynist rétt, þá er það einfaldlega skelfilegt. Þá erum við nefnilega að tala um meðalverð sem m.a. tekur tillit til fjölda gamalla álvera hingað og þangað um heiminn sem eru að kaupa raforkuna skv. eldgömlum og oft fádæma ósanngjörnum raforkusamningum. T.d. álver í Afríku og víðar í þróunarríkjunum sem byggð eru fyrir tilstilli fjármagns frá Alþjóðabankanum og eru í fjötrum pikkfastra orkuverðssamninga við álfyrirtækin. Sú saga er ekki fögur.

Og við erum líka að tala um að áliðnaðurinn hér á landi er með einhvern þann flottasta og hagkvæmasta búnað sem hægt er að hugsa sér – a.m.k. ef marka má yfirlýsingagleði forstjóranna um hreinleika og æpandi hagkvæmni íslensku álveranna. Það er auðvitað barrrasta hið besta mál að íslensku álverin séu með nýjasta og besta búnaðinn. En það ætti að minna okkur á að þessu nokkur af nýjustu og hagkvæmustu álverum heimsins hljóta auðvitað að greiða umtalsvert hærra raforkuverð en meðaltalið er í heiminum.

electricity_prices_eu_askja_2010_969979.jpg

electricity_prices_eu_askja_2010

Þess vegna er niðurstaðan þessi: Íslensku álverin hljóta flest ef ekki öll að vera að greiða a.m.k. 40 mills fyrir hina nýju, grænu raforku. Og nýjasta álverið á Reyðarfirði hlýtur að vera að greiða u.þ.b. 50 mills. Annað væri úr öllum takti við veruleika áliðnaðarins í veröldinni. En hvað sem því líður, þá er kannski barrrasta hárrétt hjá Pétri Blöndal að það sé nóg komið af áli hér á Klakanum góða.

Að lokum vill Orkubloggarinn nefna að EF raforkuverðið til íslensku álveranna er lægra en 40-50 mills, þarf einfaldlega að vinna að því að hækka það sem allra fyrst. En til að unnt verði að hækka raforkuverð til stóriðjunnar hér umtalsvert, þá er algert lykilatriði að geta sýnt fram á samkeppni um orkuna. Það gerist sennilega ekki nema með því að leggja laufléttan háspennustreng yfir til Evrópu.

Þangað myndum við geta selt rafmagnið á „spot“; ekki á spottprís heldur beint inn á raforkukerfi Evrópu þar sem verðið er allt að 120 mills og jafnvel ennþá hærra (sbr. taflan hér til hliðar). Kostnaðurinn við slíkan rafstreng er ekki meiri en svo, að þetta myndi einfaldlega margborga sig. Er einhver ástæða til að bíða?

Fleira áhugavert: