Hvað kostar að framleiða olíu?

Grein/Linkur: Trillion dollars!

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Trillion dollars!

Enn einu sinni! Enn einu sinni ætlar Orkubloggið að minna á þá skoðun sína, að olíutunna undir 150 USD er bara skítbilleg. Þetta er reyndar mikið öfugmæli þegar litið er til þess, hvað það kostar miklu, miklu minna að framleiða olíuna sem er í tunnuræflinum.

Orkubloggið hefur áður sagt frá því að olíufélögin dæla svarta gullinu upp fyrir allt frá 5 dollurum pr. tunnu. Þá er allur kostnaður við vinnsluna innifalinn – líka kostnaður við að leita og finna olíuna! Af einhverjum ástæðum geta þau svo selt olíuna örlítið dýrari. Af því ekkert skárra er í boði.

Auðvitað kostar sumstaðar talsvert meira en 5 dollara að finna svarta gumsið og dæla því upp á yfirborðið. T.d. er meðaltalskostnaðurinn í þessum bransa víða um heim í kringum 10-15 dollara pr. tunnu. Svo kostar ca. 5 dollara í viðbót að hreinsa sullið, svo það verði nothæft. Þannig að algengur framleiðslukostnaður á olíutunnunni er ca. 15-20 USD. Líklega um 30 USD hjá Sádunum, sem eru þeir stærstu í bransanum. En það er nú allt og sumt.

Carton_oil_excusesÍ kvöld var lokaverðið á NYMEX 124,07 USD. Þó svo verðmunurinn þarna segi ekki alla söguna, er þetta í reynd prýðileg vísbending um það af hverju olíufyrirtækin eru að græða talsvert þessa dagana.

Hafa ber í huga að það er talsvert mikið dýrara að vinna t.d. Norðursjávarolíuna. En þetta er engu að síður mjög algengur kostnaður í olíuvinnslu víða um heim; 15-20 USD pr. tunnu. Stundum aðeins meira og stundum jafnvel aðeins minna. Það kostar sem sagt svona ca. 1.200-1.600 íslenskar krónur víðast hvar fyrir olíufélögin að framleiða ca. 160 lítra af olíu (ein olíutunna inniheldur nákvæmlega 158,9873 lítra).

Ef við miðum við hærri töluna (1.600 kr) er algengur framleiðslukostnaður pr. líter af olíu ca. tíkall. Tíu íslenskar krónur fyrir að framleiða einn lítra af olíu. Ég verð að segja alveg eins og er – þetta er náttttlega barrrrast hræbillegt stöff.

Stóra spurningin er hvort sætir og grænir orkugjafar eins og sól, gufa eða vindur geti keppt við olíusullið af einhverju viti? Hverjum dettur í hug að setja milljarða í t.d. vindorkuver, þegar Sádarnir geta kaffært mann í einni svipan. Með því að lækka verðið hjá sér í svona ca. 40 USD tunnuna. Og græða samt vel á framleiðslunni.

Al Gore og fleiri góðir spámenn tala nú um að það þurfi að stórauka rafmagnsframleiðslu frá endurnýjanlegum orkulindum. Þær góðu lindir þurfa ekki aðeins að keppa við olíuna í verði. Heldur líka keppa við gas. Og kol. Og kjarnorku.

Endurnýjanleg orka verður því aðeins samkeppnisfær, að þannig sé búið um hnútana af pólitíkusunum. Eins og við þekkjum, hefur t.d. bensínverð á Íslandi ekkert með raunverulegt framleiðsluverð að gera. Það stjórnast fyrst og fremst af skattlagningu ríkisins. Eina leiðin til að eitthvað komi í stað olíu á næstu áratugum, er að skattkerfinu eða kvótum verði beitt til að gera það hagkvæmt að nota aðra tegund orku.

WindRainbow

WindRainbow

Forstjóri vindtúrbínufyrirtækisins Vestas, hér í Danmörku, hefur sagt að vindtúrbínurnar geti keppt við olíuna svo lengi sem verðið á henni sé yfir 50 USD.

En áhættan af því að fjárfesta í endurnýjanlegri orkuframleiðslu er veruleg. Fari olíuverðið niður í 50 dollara er hætt við að fjörið verði snarlega búið hjá fyrirtækjum eins og Vestas. Í bili.

Fyrirsögn færslunnar (Trillion dollars) vísar til þeirrar upphæðar sem Bandaríkjamen munu líklega eyða á þessu ári í að kaupa og flytja inn oliu frá útlöndum. Þetta eru 1.000 milljarðar dollara. Sem Bandaríkin borga til olíu-sheikanna í Mið-Austurlöndum og fleiri olíuríkja.

Hvað seljendurnir gera við þennan pening er önnur saga. En þeir hafa m.a. notað aurana til að kaupa upp mörg af ábatasömustu fyrirtækjum Bandaríkjanna. Þar að auki er stór hluti af olíukaupum Bandaríkjanna fjármagnaður með lánum – ekki síst frá Kína. Þess vegna hrannast upp skuldir Bandaríkjanna við útlönd. Loks stefnir flest í, að þar á bæ ætli menn að stöðva hrunið á húsnæðismarkaðnum með því að ríkið komi bönkunum til bjargar. Sem þýðir líklega ekkert annað en ennþá meiri dollaraprentun, meiri verðbólgu og enn frekari lækkun dollars. Og af því að nánast öll olía heimsins er seld í dollurum, mun verðið á henni varla lækka í bili. Ekki ef dollarinn lækkar enn meira. Þetta eru ekki beint bestu ár Bandaríkjanna. En Orkubloggið geislar af hamingju, enda allt að gerast á orkumarkaðnum.

Hvað um það. Það er reyndar vel þess virði að hlusta á Al Gore lýsa framtíðarsýn sinni. Um það að innan tíu ára komi öll rafmagnsnotkun í Bandaríkjunum frá endurnýjanlegum orkulindum (þetta er stytt „best-of“ útgáfa af ræðunni):

Fleira áhugavert: