Hvaða ríki ráða yfir mestum olíubirgðum?

Grein/Linkur:  Olía næstu áratuga: Herðist kverkatak OPEC?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Nóvember 2009

Olía næstu áratuga: Herðist kverkatak OPEC?

Orkubloggið boðaði þá miklu og djúpu speki að farið sé að þrengja að olíuauðlindum Vesturlanda. Og að smám saman muni OPEC geta hert snöruna og gert Vestrið sér æ háðara um olíuframboð.

Þessi ábending bloggsins var gerð af því tilefni að nú er svo komið að OPEC ásamt Rússum framleiða meira en helming allrar olíu í heiminum. Eru nú með um 55% framleiðslunnar og Vestrið líklega endanlega búið að tapa getu sinni til að viðhalda hlutfalli sínu í olíuframleiðslunni. Vegna hnignandi auðlinda og hægagangs í að finna nýjar stórar lindir.

Aukið hlutfall OPEC í olíuframleiðslu framtíðarinnar verður ennþá augljósara þegar litið er til þess hvar þá olíu er að finna sem enn er í jörðu. Þá er miðað við s.k proven reserves. Sem eru olíulindir sem hafa verið staðreyndar og  fremur lítil óvissa er um hversu mikilli olíu þær munu skila. Um proven reserves gildir líka að unnt er að ná þeirri olíu upp með viðunandi tilkostnaði. Eftir því sem tækninni fleygir fram og/eða olía hækkar í verði, verður efnahagslega hagkvæmt að vinna olíu á sífellt erfiðari svæðum. Þess vegna hafa sannreyndar, vinnanlegar olíubirgðir smám saman farið hækkandi. Og það stundum í risastórum stökkum.

Skammt er síðan proven reserves höfðu vaxið hvert einasta ár í heilan áratug, þrátt fyrir sívaxandi spádóma Bölmóðanna um að Peak Oil væri brostið á. Sem dæmi má nefna, að á síðustu tveimur áratugum hefur talan um sannreyndar olíuauðlindir Saudi Arabíu haldist nánast alveg óbreytt. Allan tímann – á næstum 20 ár – hafa olíulindir Sádanna verið álitnar hafa að geyma nálægt 270 milljörðum tunna. Samt hafa Sádarnir dælt upp u.þ.b. 60 milljörðum tunna á þessu tímabili. Þannig að fyrir hverja tunnu sem hefur komið upp, telja Sádarnir sig hafa fundið aðra vinnanlega tunnu.

Árið 2008 kom loks að því að proven reserves minnkaði á milli ára. Það stafar af því að nýjar sannreyndar olíulindir náðu ekki að mæta hratt hnignandi lindum utan OPEC, þ.e. innan lögsögu Noregs, Kína og Rússlands. Sem sagt; sannreyndar olíubirgðir veraldar minnkuðu milli 2007 og 2008. En hafa ber í huga að aldrei nokkru sinni hefur jafn mikilli olíu verið dælt upp áeinu ári eins og einmitt 2008.

Í reynd veit þó enginn fyrir víst hversu mikil olía er enn í jörðu. Tölurnar byggja að mestu á upplýsingum frá ríkjunum skjálfum. Vegna mikils vægis landa eins og Saudi Arabíu og Írans, sem eru utan vakandi auga Vesturlanda, eru uppi miklar efasemdir hvort trúa eigi tölunum frá OPEC. Bölsýnismenn í olíubransanum eru margir handvissir um að það sé hreinlega ekkert að marka tölur OPEC-ríkjanna; segja OPEC hafi tilhneigingu til að ýkja tölurnar stórlega í pólitískum tilgangi. Aðrir benda á að þessi krítík standist ekki, af því skynsamara væri fyrir OPEC-ríkin að gefa upp sem allra lægstar tölur, því þá myndi olíuverð samstundis hækka og þau fá meira fyrir sinn snúð.

Í olíuveröldinni er sem sagt ekki algjör samstaða! En bandaríska olíumálaráðuneytið áætlar að proven reserves nemi nú um 1.360 milljörðum tunna af olíu. Sem er nokkru meira en öll sú olía sem hefur verið dælt upp allt til þessa dags. Þeir ljúflingarnir á þurrlegum skrifstofum EIA í Washington DC trúa sem sagt alls ekki að peak oil hafi verið náð. Nefna má að talan þeirra um vinnanlega olíu, er nokkurn veginn sama tala og OPEC ber á borð (þeir tilgreina að birgðirnar séu samtals 1.300 milljarðar tunna).

OPEC_states

OPEC_states – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

En hvar er alla þessa olíu að finna? A.m.k. ekki á Drekasvæðinu né undir hafsbotni Norðurskautsins. Sú mögulega olía er ennþá bara getgátur og hefur ekki öðlast þá virðingu að teljast sannreynd. Langt frá því. Svarið við því hvar olía næstu áratuga er, er satt að segja fremur einfalt: Olían er við Persaflóann. Öll önnur olía er bara eitthvert afgangsgums.

Flestir eru sammála um að næstum 80% af þessum 1.360 olíutunnum séu innan lögsögu OPEC-ríkjanna. Þ.á.m. eru Arabaríkin, Íran og Venesúela. Nánar tiltekið segir bandaríska orkumálaráðuneytið að sannreyndar olíubirgðir OPEC nemi 940 milljörðum tunna, en sjálf segjast OPEC-ríkin ráða yfir rúmlega 1.000 milljörðum tunna. Sem fyrr segir er þetta nálægt 80% allrar olíu heimsins, sama hvor talan er notuð. Þau 20% olíunnar sem þá eru afgangs – smotteríið – eru að hluta til innan lögsögu Vesturlanda, en einnig innan landa eins og Kína og Rússlands.

OPEC-ríkin ráða sem sagt yfir hvorki meira né minna en 80% af þeirri olíu sem sótt verður úr jörðu næstu áratugina. Yfirgnæfandi hluti af þeirri olíu er í lögsögu Persaflóaríkjanna – á mjög afmörkuðu svæði undir Flóanum sjálfum og landsvæðum þar í kring. Hátt í 75% allrar vinnanlegrar olíu sem eftir er í veröldinni er á þessu órólega svæði við Persaflóann. Þau smávægilegu 5% sem eftir standa af 80 prósentunum í lögsögu OPEC, eru innan OPEC-ríkja utan Flóans. Eins og t.d. Venesúela og Nígeríu.

Oil_Reserves_16_Saudi-Arabia

Oil_Reserves_16_Saudi-Arabia

Það er athyglisvert að þrátt fyrir að mestöll olían sé innan lögsögu OPEC-ríkjanna, kemur „einungis“ um 40% heimsframleiðslunnar frá OPEC í dag. Sé litið til olíulindanna sem eru sannreyndar í dag og ennþá er eftir að nýta, virðist augljóst að hlutfall OPEC í olíuframleiðslunni hljóti að eiga eftir að hækka verulega. OPEC er þekkt fyrir að reyna að pressa upp verðið. Það kann að verða enn auðveldara innan örfárra áratuga. Þess vegna snúast heimsmálin í reynd einungis um eitt atriði; yfirráð yfir olíuauðlindum. Að skapa mótvægi við OPEC – og þar að auki hrista Vesturlönd vopnabúr sín af og til, til að minna OPEC-ríkin á að ganga ekki of langt í að græða á olíufíkn Vesturlanda. Framboðið frá OPEC má ekki verða svo lítið að almenningur í Vestrinu ráði ekki við verðið og framboðið frá OPEC má ekki verða svo mikið að vestræni olíuiðnaðurinn skili tapi (olíuvinnsla Vesturlanda er miklu dýrari en hin hræódýra olía við Persaf´lóann).

Þarna er á ferðinni geggjaður línudans, sem hefur meiri áhrif á alþjóðastjórnmálin og efnahagslíf veraldarinnar en flesta grunar. Það skemmtilega er að æpandi skuldsetning Sádanna og fleiri OPEC-ríkja veldur því að þau þurfa helst að fá 60-70 dollara fyrir tunnuna til að lenda ekki í alvarlegum fjárlagahalla (þó svo sjálf olíuframleiðsla þeirra sé miklu ódýrari). Þetta er einmitt sama verð og hentar vestrænu olíufyrirtækjunum prýðilega og almenningur og fyrirtæki virðast þola. Þannig að í dag eru allir bara sæmilega ánægðir.

Reyndar teja margir, sem fyrr sagði, að OPEC-ríkin ofmeti birgðir sínar stórlega. Og það sé m.a. til að koma í veg fyrir að Vesturlönd setji allt á fullt í að finna orkugjafa sem geti leyst olíuna af hólmi. Sumir segja að í reynd séu sannreyndar olíubirgðir OPEC-ríkjanna einungis þriðjungur af því sem þau segja sjálf. Að mörg OPEC-ríkjanna hafi stórlega ofmetið auðlindir sínar og ekkert réttlæti massífa aukningu uppgefinna sannreyndra olíubirgða landa eins og t.d. Írans og nú síðast Venesúela.

Ef þessir efasemdarmenn hafa rétt fyrir sér, gæti það þýtt að meiriháttar olíukreppa sé á næsta leyti. En þetta eru getgátur og enginn getur fullyrt hvað sé rétt og rangt í þessu efni. Ekki einu sinni Orkubloggarinn! Sem er reyndar lítill aðdáandi samsæriskenninga. Hér verða tölurnar frá bandaríska orkumálaráðuneytinu matreiddar sem hinn ljúfi sannleikur. Þær ríma að langmestu leyti við tölur OPEC, með smávægilegum undantekningum. Listinn yfir þau ríki sem ráða yfir mestum olíubirgðum er þá sem hér segir:

1.  Saudi Arabía (aðili að OPEC).
Að sjálfsögðu eru Sádarnir í fyrsta sæti eins og allir lesendur Orkubloggsins auðvitað vita. Með birgðir upp á 267 milljarða tunna. Til samanburðar þá notaði heimurinn samtals um 31 milljarð tunna af olíu á liðnu ári (2008).

Oil_Reserves_15_Canada

Oil_Reserves_15_Canada

2.  Kanada.
Lof sé almættinu fyrir olíusanddrulluna  vestur í Alberta. Það er a.m.k. skoðun Bandaríkjamanna. Þegar olíuverð fór almennilega yfir 30 dollara varð ljóst að tímabært væri að ryðja friðsæla barrskógana norður af Calgary, skófla upp olíublönduðum jarðveginum, sulla yfir ógrynni af vatni þar yfir og kreista svo olíuna úr klístrinu með ofurhita frá gasorkuverum. Fyrir vikið rauk Kanada eins og hendi væri veifað í annað sæti yfir ríki með mestu sannreyndu, vinnanlegu olíubirgðir í heimi. Þær eru nú áætlaðar 178 milljarðar tunna. Olíusandurinn hefur stóraukið olíuframleiðslu Kanadamanna, sem nú sjá Bandaríkjunum fyrir um 20% af allri olíunni sem þessi mesti olíusvolgrari heimsins notar.

3.  Íran (aðili að OPEC).
Í þriðja sæti eru bestu vinir Orkubloggarans; Persarnir. Með 138 milljarða tunna  af þekktum vinnanlegum olíubirgðum. Í dag fá Bandaríkjamenn ekkert af þessari olíu. En eru aftur á móti búnir að tryggja sér sæmilegan aðgang að olíulindum nágrannana; Írakanna:

Oil_Reserves_14_Iran

Oil_Reserves_14_Iran

4.  Írak (aðili að OPEC).
Í dag eru olíulindir Íraks taldar nema 115 milljörðum tunna. Í reynd hefur bæði olíuiðnaðar Íraks og Íran lengi þjáðst af miklum fjármagns- og tækniskorti. Það er því ekki ólíklegt, nú þegar menn fara á ný að koma góðum skikk á olíuleit í Írak, að proven reserves þar hækki brátt umtalsvert. Bjartsýnir telja að Írak lumi jafnvel á meiri olíu en Saudi Arabía. Persaflóastríðin tvö – stríðið við Íran og innrásin í Kuwait – höfðu skelfilegar afleiðingar fyrir íraska olíuiðnaðinn. Hugsanlega verður brátt búið að staðreyna allt að 100 milljarða tunna í viðbóta af olíu í Írak. Það myndi gera Írak að næstmesta olíuveldi veraldar – og kannski finnst þar jafnvel enn meiri olía en í sjálfri Saudi Arabíu. En auðvitað hafði ákvörðun Bush um innrás í Írak ekkert með olíu að gera. Geisp.

5.  Kuwait (aðili að OPEC).
Sem kunnugt er vakti það litla hrifningu í Vestrinu þegar Saddam Hussein réðst inní Kuwait. Sannreyndar olíubirgðir Kúveita eru 104 milljarðar tunna. Say no more.

Masdar_City_01

Masdar_City_01

6.  Sameinuðu arabísku furstadæmin (UAE) (aðili að OPEC).
Sameinuðu arabísku furstadæmin eru bandalag sjö smárra furstadæma sunnan Kuwait. Þekktar olíuauðlindir þar í jörðu nema um 98 milljörðum tunna. Þar af er langmest af þessu svarta gulli UAE í furstadæminu Abu Dhabi. Sem kunnugt er ætlar Abu Dhabi ekki að láta sér nægja að vera eitt mesta olíuveldi heimsins, heldur hafa ljúflingarnir þar mikil plön á sviði endurnýjanlegrar orku. Þar er sólarorkan eðlilega mest spennandi, en Arabarnir í Abu Dhabi eru einnig mjög áhugasamir um vindorku og munu einnig eiga góða möguleika í jarðvarma. Það virðist ekki hafa farið hátt hér á landi að nú í haust var Guðmundur Þóroddsson, fyrrum forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að gera laufléttan jarðhitadíl þarna suður í eyðimörkinni ásamt félögum sínum í fyrirtækinu Reykjavík Geothermal. Og fyrr á þessu ári var ákveðið að aðalstöðvar hinna nýstofnuðu alþjóðasamtaka um endurnýjanlega orku (IRENA) verði staðsett í Abu Dhabi. Sem sagt mikið að gerast hjá furstanum í Abu Dhabi.

7.  Venesúela (aðili að OPEC).
Annar mikilvægasti olíunágranni Bandaríkjamanna er ekki alveg jafn vinsamlegur eins og Kanada. Í Venesúela eru þekktar, vinnanlegar olíulindir upp á 99 milljarða tunna. Þarna mun olíueðjan við Orinoco-fljótið  skipta öllu máli til framtíðar. Olíusandurinn þar hefur hugsanlega að geyma meira en 100 milljarða tunna í viðbót! Enn sem komið er, telst þetta ekki sannreynd auðlind, en hafa má í huga að til eru ennþá bjartsýnni spár sem hljóða upp á næstum 300 milljarða tunna af olíusandi við Orinoco. Með nútíma tækni og olíuverði dagsins í dag, verður þess vart langt að bíða, að þarna bætist miklar olíubirgðir við auðlindir Venesúela og þar með í olíubókhald OPEC-ríkjanna.

Oil_Reserves_09_ Russia

Oil_Reserves_09_ Russia

8.  Rússland.
Rússland er mesti olíuframleiðandi heims í dag. En þó aðeins í áttunda sætinu yfir þau ríki sem búa yfir mestum þekktum olíuauðlindum. Þó svo Rússland sé ekki í OPEC eru ýmsir á Vesturlöndum sem sjá Rússana ekki beint sem sína bandamenn í olíuveröldinni. Enda hefur verið til tals að Rússarnir gangi inn í OPEC. Hvort sem það rætist eður ei, þá eru sannreyndar olíulindir Rússa metnar sem nemur 60 milljörðum tunna.

9.  Líbýa (aðili að OPEC).
Gaddafi hershöfðingi ræður yfir 44 milljörðum tunna af olíu í jörðu. Þarna er á ferðinni enn ein risaolíuþjóðin, sem hefur um langt skeið nánast ekki flutt einn einasta olíudropa til Bandaríkjanna. Og það virðast helst vera evrópsk olíufélög, sem þess dagana ná að komast með puttana í líbýsku olíulindirnar. Eins og Orkubloggið greindi einmitt nýlega frá.

Oil_Reserves_07_Nigeria

Oil_Reserves_07_Nigeria

10.  Nígería (aðili að OPEC).
Þó svo Angóla sé helsti olíuspútnik Afríku þessa dagana, eru mestu þekktu olíuauðlindir álfunnar svörtu í lögsögu Nígeríu. Þær eru metnar sem 36 milljarðar tunna.

11.  Kazakhstan.
Í stærsta landlukta ríki heims ræður Nursultan nokkur Nazarbayev ríkjum. Eitthvað hefur gengið rólega hjá Nazarbayev að berjast gegn æpandi spillingu í landinu, enda erfitt við að eiga þegar 30 milljarðar olíutunna  eru annars vegar. Þ.á m. eru einhverjar mestu olíulindir veraldar; Tengiz-lindirnar á votlendissvæðum við norðausturströnd Kaspíahafsins. Sem aðdáendur George Clooney kvikmyndarinnar Syriana kannski kannast við.

12.  Bandaríkin.
Loksins, loksins. Sannreyndar olíubirgðir í lögsögu Bandaríkjanna eru metnar rúmlega 21 milljarður tunna. Það er talsvert, en stærsta vandamál Bandaríkjanna er kannski það að þar búa einungis 5% jarðarbúa en þeir nota 25% allrar olíunnar. Ellefu ríki búa yfir meiri olíubirgðum en Bandaríkin og af þessum ellefu ríkjum er einungis eitt sem getur talist almennilega trúr bandamaður Bandaríkjamanna. Þar er auðvitað átt við Kanada. Þetta þykir Bandaríkjamönnum auðvitað súrt – fíkillinn vill síður að allir dílerarnir séu óvinir hans. Þetta er tvímælalaust stærsta vandamálið sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir. Ef Orinoco-svæðið í Venesúela reynist hafa að geyma jafn mikið af vinnanlegum olíusandi, eins og sumir gæla við, er líklegt að Bandaríkjamenn horfi ekki þegjandi upp á það að Chavez hleypi Kínverjunum endalaust inn á svæðið. Kannski tímabært að endurvekja Monroe-kenninguna?

Oil_Reserves_04_China

Oil_Reserves_04_China

13.  Kína.
Kína ræður nú yfir 16 milljörðum tunna af olíu innan sinnar lögsögu, en þrátt fyrir miklar olíulindir þarf Kína að flytja inn stóran hluta af allri olíunni. Framtíð olíuiðnaðarins mun að miklu leyti ráðast af því hversu hratt eftirspurnin eykst frá Kína. Þrátt fyrir gríðarlegan efnahagsvöxt notar kínverska þjóðin enn miklu minni olíu miðað við fólksfjölda en gengur og gerist á Vesturlöndum. Ef ekki hægist á eftirspurninni frá Kína gæti olíukreppa skollið á innan fárra ára. Þ.e. að framboðið nái ekki að mæta eftirspurninni. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

14. Katar (aðili að OPEC).
Katar er kolvetnisauðugasta ríki veraldar. Það eru aðallega risastórar gaslindir sem skapa Katörum þennan mikla auð. Engu að síður er líka gríðarlega mikið af olíu í lögsögu Katar. Rúmlega 15 milljarðar tunna. Það gefur kuflklæddum íbúum leiðindaborgarinnar Doha 14. sætið yfir mestu olíulindir veraldar.

15.  Alsír (aðili að OPEC).
Bandaríska orkumálaráðuneytið setur Alsír í 15. sætið yfir þau lönd sem búa yfir mestum þekktum olíuauðlindum. Með um 12 milljarða tunna. Á þessum sömu slóðum er annað OPEC-ríki; Angóla. Svo eru bæði Brasilía og Mexíkó með svipað magn af þekktum vinnanlegum olíulindum. Mexíkó er þó á hraðri niðurleið í sinni framleiðslu. En það er a.m.k. næsta víst að öll þessi ríki eru nálægt því að búa yfir 12 milljörðum tunna af sannreyndum vinnanlegum olíulindum.

En þar með eru upptalin öll lönd sem geta talist eiga eftir að vinna meira en 10 milljarða tunna af olíu úr jörðu, m.v. þekkta tækni og líklegt olíuverð næstu árin og áratugina. Að vísu mætti rifja hér upp að norsk skotthúfa hefur sagt að það séu 10 milljarða tunna af olíu í íslenskri lögsögu – reyndar að íslenska Drekasvæðið eitt og sér geti skilað því magni. Þá eru væntanlega svona 20-30 milljarar tunna í viðbót á Keilisdjúpi og víðar undir landgrunni Íslands. Þar með yrði Drekasvæðið eitthvert mesta olíusvæði veraldarinnar og Ísland myndi sökkva undan öllum peningunum. Sniðugt.

World_Oil_Reserves_Map

World_Oil_Reserves_Map

Hér hafa verið nefnd þau 15 lönd sem ráða yfir mestu olíuauðlindum heimsins. Það er athyglisvert að ekki eitt einasta Evrópuríki kemst hér á blað (Rússland telst hér Evrasíu ríki). Samtals eru t.d. allar sannreyndar olíulindir ESB-ríkjanna samanlagt taldar vel innan við 6 milljarðar tunna. Sem er náttlega barrrasta ekki í nös á ketti. Innan ESB búa 500 milljónir manna, sem gerir bandalagið að næst fjölmennasta efnahagskerfi heimsins (á eftir Kína). Er nema von að sumir segi Evrópu dæmda til glötunar í orkuveröld framtíðarinnar?

Í Speglinum nú í kvöld var vitnað í sænskar efasemdir um að ekkert sé að marka olíuspár IEA og að spár þeirra séu alltof háar vegna pólitísks þrýstings frá Bandaríkjunum. Þar með er í raun verið að segja, að ekkert sé heldur að marka tölurnar frá bandaríska orkumálaráðuneytinu. Í huga Orkubloggarans er þetta svona álíka gáfulegt kenning eins og ruglið skemmtilega í X-files þáttunum. Af hverju í ósköpunum ættu Bandaríkjamenn eða aðrir íbúar Vesturlanda ekki að þora að horfast í augu við það, ef miklu minni olía er í jörðu en haldið hefur verið fram? Olían sem eftir er, er hvort sem er nánast öll á Persaflóasvæðinu og hjá ljúflingum eins og Pútín og Chavez. Eins og það sé eitthvað sérstaklega gott fyrir Bandaríkin að ýkja þessar tölur! Nebb.

Oil_Rig_flare_NG

Oil_Rig_flare_NG

Orkubloggið leyfir sér að endurtaka það sem sagði hér að ofan: Í reynd veit enginn fyrir víst hversu mikil olía er enn í jörðu. Og enginn veit hvernig olíuverð mun þróast. Ef það helst hátt verður hagkvæmt að vinna olíusandinn við Orinoco-fljótið. Og þá verður líka hagkvæmt fyrir Bandaríkjamenn og Kínverja að vinna olíu úr kolunum sínum, sem nóg er af. Orkugeirinn er ein allsherjar óvissa og það þarf engar samsæriskenningar til að varpa dulúð á þennan gljáandi svarta iðnað. Þar er þokan hvort eð er alls ráðandi. Málið er hlusta vel á þokulúðrana, sem óma úr öllum áttum og reyna átta sig á hver besta stefnan er. Í huga Orkubloggarans væri það hugsanlega skynsamlegasti kúrsinn fyrir okkur Íslendinga, að nota orkuna úr iðrum jarðar til að framleiða sjálf olíuna sem við þurfum. Meira um það í næstu færslu.

Fleira áhugavert: