Orkuverð, sagan – Trúnaðarskýrslan

Heimild:   Orkubloggið

.

Mars 2010

Strictly Confidential

Ketill Sigurjónsson

Það var talsvert skúbb hjá fréttastofu RÚV þegar hún komst yfir athyglisvert leyndarmál; trúnaðarskýrslu ráðgjafafyrirtækisins Hatch, sem unnin var fyrir Norðurál.

Þar á bæ þótti eðlilega fréttnæmt að hið nýlega álver Norðuráls á Grundartanga greiði sem nemur um 25-30% lægra verð fyrir raforkuna, heldur en orkuverð til álvera í heiminum er að meðaltali. Þegar gluggað er í skýrsluna og farið í gegnum röksemdir Hatch um stöðu Norðuráls, kemur í ljós að Norðurál hefur fengið afar góð kjör hjá Landsvirkjun; kjör sem leiða til þess að álver Norðuráls er í hópi arðbærustu álvera í heiminum öllum.

hatch_nordural_report_cover_2003.jpg

hatch_nordural_report_cover_2003 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ OPNA

Og eins og venjulega þegar einhver nýtur óvenju góðra kjara – sérkjara –  er einhver annar sem er hýrudreginn. Í tilviki Norðuráls er því þannig fyrir komið að fyrirtækið hefur náð að lágmarka áhættu sína betur en flest önnur álver í heiminum. En þess í stað er það Landsvirkjun – og eigendur hennar – sem taka áhættuna af sveiflum á álverði.

Orkubloggarinn fékk umrædda skýrslu Hatch senda nú í vikunni og hefur verið að dunda sér við að lesa þetta athyglisverða plagg. Og ætlar að freistast til þess að hafa þetta efni sem færslu dagsins – þó svo nú rigni eldi og brennisteini á öðrum vígstöðvum. Bloggarinn vill hér með þakka öllum þeim sem sáu tilefni til að senda honum þetta ágæta skjal!

Skýrslan er frá maí 2003; ber titilinn Technical Appraisal Report og er merkt Strictly Confidential. En þar sem Orkubloggarinn hefur aldrei veitt Norðuráli né Hatch nokkra yfirlýsingu um trúnað, er auðvitað upplagt að bloggarinn fjalli um þessa athyglisverðu skýrslu hér á Orkublogginu.

landsvirkjun_lowest_1995_2_972528.jpg

landsvirkjun_lowest_1995

Þetta plagg er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að hér er loksins komin fram raunveruleg heimild um hið eilífa deiluefni; raforkuverð til álvera á Íslandi. Sem seljandi raforkunnar hefur sjálfur kynnt sem „Lowest Energy Prices!!“ – með tveimur upphrópunarmerkjum – meðan iðnaðarráðherra lýsir raforkuverðinu til íslensku álveranna sem meðalverði.

Þess vegna er svolítið sérkennilegt hversu litla umfjöllun skýrslan hefur fengið í fjölmiðlum. A.m.k. hefur Orkubloggarinn ekki heyrt eða séð aðra en fréttastofu RÚV fjalla um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Mál sem bæði varðar grundvallaratriði í nýtingu á náttúruauðlindum Íslands og afkomu og arðsemi nokkurra mikilvægustu opinberu almannaþjónustufyrirtækja landsins; Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Og sömuleiðis Hitaveitu Suðurnesja.

Tilefni skýrslu Hatch var að Royal Bank of Scotland (RBC) og hollenski bankinn Fortis voru að spá í að endurfjármagna Norðurál til næstu 15 ára. Þess vegna var ráðist í s.k. áreiðanleikakönnun á Norðuráli eða due diligence upp á enska tungu. Hlutverk Hatch var að gefa álit sitt á því hvernig Norðurál væri í stakk búið – bæði tæknilega og fjárhagslega – til að geta staðið við nýja lánasamninga vegna endurfjármögnunar fyrirtækisins:

„For this study, Hatch was appointed byThe Royal Bank of Scotland plc (RBS) and Fortis Bank (Nederland) N.V. (Fortis) to undertake a technical and economic appraisal of existing operations at the Norðurál smelter… The scope of this current appraisal is to verify that the Norðurál smelter is capable of continuing to produce aluminium at current rates of production, and at operating cost levels that will permit the smelter owners to continue to service the debt“ (feitletrun er Orkubloggarans).

nordural_hvalfjordur.jpg

nordural_hvalfjordur

Í hnotskurn þá má upplýsa lesendur um að í skýrslunni veitir Hatch Norðuráli þessa líka fínu umsögn. Þarna er sagt á ferðinni fyrirtæki með tryggan aðgang að nægri raforku, fyrirtæki sem greiðir raforkuverð sem er rúmum fjórðungi undir meðaltali álvera, fyrirtæki sem er stýrt af hæfum stjórnendum, fyrirtæki sem er vel staðsett og með góðan aðgang að hæfu vinnuafli, fyrirtæki með góða hafnaraðstöðu, fyrirtæki sem engar náttúrógnir steðja að og fyrirtæki sem á góða möguleika á áframhaldandi starfsemi með svipaðri afkomu eins og verið hafði. Niðurstaða Hatch var einfaldlega sú að rannsóknarspurningunni var svarað játand: „the Norðurál smelter is capable of long-term operations at its current level of production“.

Í skýrslunni er að finna ýmsar pælingar um tæknilega getu Norðuráls, en hér í þessari færslu verður athyglinni einkum beint að þeim þætti skýrslunnar sem fjallar um raforkuverðið. Enda er það einmitt raforkuverðið – lágt raforkuverð – sem er hvað mikilvægasta röksemd Hatch fyrir jákvæðri niðurstöðu þeirra um rekstrarmöguleika álvers Norðuráls til framtíðar („demonstrates the continued viability of Norðurál with respect to its electricity contract„).

ken_peterson_columbia_ventures_971336.jpg

ken_peterson_columbia_ventures

Það var sem kunnugt er athafnalögfræðingurinn Kenneth Peterson hjá Columbia Ventures, sem reisti álverið á Grundartanga. Sem var reyndar ekki nýtt álver heldur eldra ver frá Þýskalandi, sem hætt hafði starfsemi sökum þess að það þótti ekki lengur hagkvæmt. Og var því einfaldlega selt til Columbia, tekið niður og flutt til Íslands. Það var engin tilviljun að hann Ken Peterson valdi blessaðan Hvalfjörðinn sem stað undir bræðsluna. Eftir ítarlega athugun var niðurstaða Peterson's og Columbia Ventures að Ísland væri einfaldlega besti kosturinn.

Fyrsti áfangi Norðuráls – 60 þúsund tonn – var tilbúinn 1998 og stækkaði svo í 90 þúsund tonn árið 2001. Sú var einmitt stærð bræðslunnar þegar Hatch vann skýrslu sína, en þá þegar hafði Norðurál fengið tilskilin leyfi til að stækka álverið í 180 þúsund tonn og árið 2002 hafði fyrirtækið fengið grænt ljós frá Skipulagsstofnun á 300 þúsund tonna álver! Frá 2004 stækkaði álverið svo í nokkrum áföngum úr 90 þúsund tonna ársframleiðslu og í þau 260 þúsund tonn sem það er í dag.

Það er reyndar dálítið skondið að í umræddum úrskurði Skipulagsstofnunar frá 2002, eru rakin þau sjónarmið að fyrirhuguð stækkun álversins á Grundartanga í 180 þúsund tonn sé Norðuráli ekki nóg til að verða hagkvæm eining. Og að þess vegna væri fyrirtækinu mikilvægt að geta stækkað í 300 þúsund tonn. Í skýrslu Hatch, sem kemur út aðeins ári síðar en úrskurður Skipulagsstofnunar féll, er aftur á móti farið fögrum orðum um hagkvæmni 90 þúsund tonna álversins. Og það sagt í hópi hagkvæmustu álvera heimsins. Þetta væri eflaust tilefni fyrir einhverja að halda því fram að Norðurál hafi matreitt rangar eða villandi upplýsingar fyrir Skipulagsstofnun, en það er önnur saga.

Þegar skýrsla Hatch var unnin (2003) var álverið, sem fyrr segir, ennþá 90 þúsund tonn og framkvæmdir við stækkun ekki hafnar. Áreiðanleikakönnun Hatch var því alfarið miðuð við áframhaldandi starfsemi 90 þúsund tonna álvers og stækkunarmöguleikar einungis hafðir í huga í tengslum við stutta umfjöllun Hatch um framtíðarmöguleika fyrirtækisins.

century_aluminum_logo.gifÞað var svo 2004 að bandaríski álframleiðandinn Century Aluminum keypti álverið af Peterson. Söluvaran þá var álver með 90 þúsund tonna framleiðslugetu, álver með leyfi til að stækka í 300 þúsund tonn og álver með óvenjulega hagstæðan raforkusamning. Þetta hefur því sennilega verið sannkallaður draumadíll hjá Peterson.

hatch_logo_blue.gifAlmennt má segja að tónninn í skýrslu Hatch gagnvart Norðuráli sé mjög jákvæður. Þar er ítrekað hnykkt á því hversu vel Norðuráli hafi tekist að forðast áhættu með hagstæðum langtímasamningum um bæði súrálskaup, kaup á nauðsynlegum tæknibúnaði sem þarf að endurnýja jafnóðum í álverum og síðast en ekki síst með hagstæðum samningum um raforkukaup.

Skv. skýrslu Hatch var samningurinn um raforkusölu milli Landsvirkjunar og Norðuráls undirritaður 7. ágúst 1997 og var hann gerður til rúmlega tveggja áratuga; átti að renna út 31. október 2018. Þessi samningur tryggði raforku til 60 þúsund tonna álvers, en vegna fyrirhugaðrar stækkunar í 90 þúsund tonn var gerður nýr samningur 29. október 1999.

landsvirkjun_rafmagnssala_1966-2003.jpg

landsvirkjun_rafmagnssala_1966-2003

Þetta voru vel að merkja ekki neinir smá samningar – þó svo í dag sé varla minnst á álver nema tala um a.m.k. 300 þúsund tonna framleiðslu. Rafmagnið til Norðuráls 2003, þegar skýrsla Hatch kom út, nam um 20% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Samningurinn um raforkusöluna til Norðuráls var því afar þýðingarmikill fyrir rekstur Landsvirkjunar og mikilvægt að hann skilaði viðeigandi arðsemi, til bæði skemmri og lengri tíma.

hatch_nordural_electricity-cost-2002_report-2003_971330.jpg

hatch_nordural_electricity-cost-2002_report-2003

Myndin hér til hliðar er úr umræddri trúnaðarskýrslu og sýnir raforkuverðið skv. samningi Norðuráls og Landsvirkjunar miðað við það sem gengur og gerist í áliðnaðinum. Þar kemur fram að verðið til Norðuráls snemma árs 2003 var 15 mills pr. kílóvattstund, en á sama tíma hafi meðalverðið í áliðnaðinum verið 20,4 mills.

Skv. upplýsingum sem Orkubloggarinn hefur frá CRU – sem er þekkt ráðgjafafyrirtæki á sviði áliðnaðarins – var meðalverðið 2003 jafnvel nokkuð hærra en segir í skýrslu Hatch eða 21-22 mills. Það er a.m.k. augljóst að verðið á raforku Landsvirkjunar til Norðuráls var einungis um 75% af heimsmeðaltalinu og hugsanlega aðeins um 70%.

aluminum_lme_2005-2010_972514.jpg

aluminum_lme_2005-2010

Verðin sem fram koma á grafi Hatch frá 2003, hér að ofan, eru miðuð við álverð upp á 1.400 USD/tonn. En álverð getur sveiflast mikið; það hækkaði mjög þegar efnahagsuppgangurinn var hvað mestur. Ekki er lengra síðan en í apríl 2008 að Dick Evans, forstjóri Straumsvíkurfyrirtækisins Rio Tinto Alcan, sagði áltonn á 4.000 dollara vera handan við hornið. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar verðið á áli féll eins og steinn og nálgaðist óðfluga þúsund dollarana! Evans sannaði þarna enn og aftur hversu snjallir spámenn þeir eru – heimsins hæstlaunuðustu stjónendur. Geisp. En hver veit; kannski fer verð á áli senn í 4.000 USD/tonn. Það hefur a.m.k. hýrnað aðeins yfir álverði á ný og í dag er áltonnið á um 2.200 USD/tonn.

Miðað við álverð dagsins er líklegt er meðalverðið á raforku til álvera í heiminum sé nú um 32-33 mills. Og verðið til Norðuráls sennilega um 24-25 mills; þ.e.a.s. 25-30% undir heimsmeðaltalinu. Nema þá að raforkan sem Norðurál keypti vegna mikillar stækkunar síðustu árin hafi verið verðlögð hærra. Það vitum við ekki.

Já – álver Norðuráls á Grundartanga hefur stækkað mikið síðan 2003 og framleiðir nú 260 þúsund tonn á ári. Það þurfti að virkja heil ósköp hér um allt SV-land, til að mæta orkuþörfinni vegna þessarar stækkunar. Orkuþörf Norðuráls í dag er m.ö.o. margföld á við það sem var árið 2003.

eyvindakofaver.jpg

eyvindakofaver

Auk orkunnar frá Landsvirkjun fær Norðurál nú raforku frá Nesjavallavirkjun Orkuveitu Reykjavíkur og einnig frá virkjunum HS Orku á Reykjanesi. Líklega muna lesendur Orkubloggsins vel eftir hörðum deilum um Norðlingaölduveitu í tengslum við stækkun Norðuráls, en Landsvirkjun undir stjórn Friðriks Sophussonar vildi skaffa Norðuráli raforku með miðlunarlóni inní Þjórsárver. Rökin voru mikil hagkvæmni Norðlingaölduveitu. Niðurstaðan varð reyndar sú að settur umhverfisráðherra, Jón Kristjánsson, takmarkaði með úrskurði sínum aðgang Landsvirkjunar að Þjórsárverum. Ætti að vera lesendum í fersku minni.

Að mati Orkubloggarans er grunnverðið í samningnum við Norðurál frá 1999 alveg úr takti við þróunina í áliðnaðinum, sbr. síðasta færsla Orkubloggsins (um leyndarmálið mikla). En til að vaða ekki um of víðan völl ætlar bloggarinn að reyna halda sig í dag við skýrslu Hatch. Og bara rétt að minnast á þau tækifæri, sem blöstu við mönnum, eins og áðurnefndum Ken Peterson. Þau fólust m.a. í ofboðslegri eftirspurn eftir áli sem var að myndast austur í Kína. Eftirspurn sem fór að bera á fljótlega upp úr 1990, eins og sést svo vel á grafinu hér fyrir neðan. Það voru örugglega ekki síst þær augljósu vísbendingar, sem ollu því að Ken Peterson sá sér leik á borði að kaupa gamalt álver í Þýskalandi og flytja það til Íslands. Þar sem raforkan fékkst ódýrari en annars staðar, raforkuframboð var 100% öruggt og aðstæður allar álveri mjög hagstæðar.

aluminum-demand-forecast-2002.jpg

aluminum-demand-forecast-2002

Hagstæður samningur Norðuráls árið 1999 bendir aftur á móti til þess, að hjá þeim sem sömdu fyrir hönd Landsvirkjunar um raforkuverðið hafi ennþá ríkt einhver…. dofi. Eftir að hafa misst af dílnum við Atlantsál um byggingu álvers á Keilisnesi á 10. áratugnum. Kannski var komin upp örvænting og litið svo á af hálfu Landsvirkjunar og stjórnvalda að ekkert álfyrirtæki hefði áhuga á Íslandi… nema þá að bjóða „lowest energy prices!!“.

Það veit samt auðvitað enginn hvað gerist í „framtíðinni“; hvorki Ken Peterson, Landsvirkjun, Orkubloggarinn né aðrir. Í reynd snýst þetta allt saman mest um áhættustjórnun. Og hvort áhættunni hafi verið skipt milli samningsaðila með eðlilegum hætti.

Í skýrslu Hatch er skýrt tekið fram að raforkuverðið til Norðuráls sé tengt álverði með beinum hætti, eins og það er á London Metals Exchange. Þetta er sagt tryggja að Norðurál sé samkeppnishæft, jafnvel þó svo álverð myndi taka upp á því að lækka umtalsvert. Þetta orðalag í skýrslu Hatch – ásamt ummælum Hatch um lágt raforkuverð til Norðuráls – merkir í raun að það sé sama hvað gerist á álmörkuðunum; áhættan sé nánast engin fyrir Norðurál. Og það merkir ekkert annað en að áhættan vegna raforkuviðskiptanna sé fyrst og fremst á raforkusalanum. Í huga Orkubloggarans er slíkur samningur vondur.

hatch_nordural_benchmarking-usd1400_report_2003.jpg

hatch_nordural_benchmarking-usd1400_report_2003

Að öllu samanteknu komst Hatch að þeirri niðurstöðu að álver Norðuráls skili fyrirtækinu rekstrarárangri sem marki því sess meðal 25% af hagkvæmustu álverum heimsins (sbr. grafið hér til hliðar). Þetta segir Hatch bæði koma til af góðri stjórnun fyrirtækisins og hagstæðum samningum um súrál og þann tæknibúnað sem þarf að endurnýja reglulega. Og þó ekki síst vegna lágs orkuverðs, enda er raforkukostnaður almennt stærsti útgjaldaliður álvera (er almennt á bilinu 25-40% af rekstrarkostnaði álvera). Einnig er tekið fram í skýrslu Hatch að langtímasamningarnir tryggi það, að álbræðsla Norðuráls á Grundartanga muni áfram verða samkeppnishæft til framtíðar hvað sem líður álverði („demonstrates that the smelter will remain competitive in the future„).

Þessi niðurstaða Hatch er vel að merkja miðuð við áframhaldandi rekstur á 90 þúsund tonna álveri, eins og áður hefur verið nefnt. Við þetta var svo hnýtt að í ljósi þess að horfur á álmörkuðum séu góðar, kunni Norðurál að vilja skoða möguleika á stækkun. Tekið er fram í skýrslunni að fyrirtækið búi vel að slíkum möguleikum; nóg landrými sé til staðar á Grundartanga, hönnun versins geri stækkun einfalda og af viðræðum við Landsvirkjun megi ráða að að ekki muni standa á raforku. Auk þess séu spennuvirkin við álverið nægilega öflug, þ.a. ekki þurfi frekari fjárfestinga þar við af hálfu álversins þrátt fyrir stækkun.

nordural_2005_orkukaup.jpg

nordural_2005_orkukaup

Að öðru leyti er ekki fjallað um stækkunarmöguleika álversins í skýrslunni, enda er hún fyrst og fremst hugsuð sem áreiðanleikakönnun á áframhaldandi rekstri 90 þúsund tonna álvers. En við vitum öll að fljótlega eftir útkomu skýrslunnar var ráðist í stækkun og í dag er álver Norðuráls á Grundartanga nærri þrefalt á við það sem var árið 2003 (er nú 260 þúsund tonn). Það reyndist, sem fyrr segir, auðsótt fyrir Norðurál að fá leyfi Skipulagsstofnunar til að stækka í allt að 300 þúsund tonn, enda virtist stofnunin telja það mikilvæga forsendu þess að Norðurál gæti staðið í þessum bissness. Og nú er áhugi hjá fyrirtækinu á að byggja nýtt og jafnvel ennþá stærra álver við Helguvík, í nágrenni Keflavíkur. Ísland hefur greinilega reynst Norðuráli afar vel.

nordural_electricity.jpg

nordural_electricity.

Það er líka athyglisvert að lesa það sem segir í skýrslunni um fyrirhugaðar breytingar á íslenska raforkumarkaðnum. Þar er m.a. fjallað um áhrif þess að á Íslandi verði brátt skilið á milli framleiðslu og dreifingar á raforku. Höfundar að skýrslu Hatch eru skynsamt fólk og sjá það strax að stofnun  Landsnets muni ekki hafa í för með sér neina áhættu fyrir Norðurál. Það liggi í augum uppi að Landsnetið verði alfarið háð valdi Landsvirkjunar, sem í gegnum sinn eignarhlut muni hafa tögl og haldir á dreifikerfinu rétt eins og var þegar skýrslan var samin. Þá þegar lá fyrir að eignarhluti Landsvirkjunar í Landsneti yrði um 70% og svo er enn þann dag í dag (tæp 65%).

Það væri eflaust tilefni til að fjalla hér líka um það sem Hatch segir um umhverfismálin hjá Norðuráli. En hér verður látið nægja að nefna það, að Hatch sá ástæðu til að taka það sérstaklega fram, að skilmálar í starfsleyfi Norðuráls um mengun og kolefnislosun séu álverinu hagstæðir (favourable).

Loks skal tekið fram að skv. raforkusamningi Landsvirkjunar við Norðurál frá 1999 gildir samningurinn til októberloka 2019. Þ.a. að nú hefur hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar rúm níu ár til að ákveða hver skuli verða verðstrategían gagnvart Norðuráli til framtíðar. Kannski verður þá kominn rafstrengur til Evrópu og álverið þá einfaldlega sett um borð í skip og flutt til… t.d. Katar eða Kólaskagans? Það er a.m.k. varla mikill áhugi hjá nýjum forstjóra Landsvirkjunar að láta álverið fá nýjan samning á svipuðum nótum eins og hinn sérkennilegi samningur frá októberlokum 1999.

Að auki er Norðurál nú líka með raforkusamninga við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, en ráðast þurfti í margar nýjar virkjanir vegna stækkunar Norðuráls úr 90 þúsund í 260 þúsund tonn (enda vandfundinn jafn svakalega orkufrekur iðnaður eins og álbræðslur). Þessir yngri samningar gilda líklega langt fram á 3ja áratug aldarinnar. Við vitum því miður ekki hvert orkuverðið er skv. þeim. En það er hæpið að það sé umtalsvert hærra en skv. upphaflega raforkusamningnum við Landsvirkjun. Sennilega svipað. Vonandi samt eitthvað hærra.

century_aluminum_management_972519.jpg

century_aluminum_management

Í dag er álver Norðuráls á Grundartanga af mörgum sögð einhver hagkvæmasta einingin innan Century Aluminum. Og það sem helst fær Logan Kruger, forstjóra Century Aluminum og félaga hans, til að brosa þessa dagana. Enda er bersýnilegt af skýrslu Hatch, að álverið á Grundartanga þolir sveiflur á álmörkuðum betur en flest önnur álver heimsins. Áhættan þar liggur miklu fremur á þeim sem selja þeim rafmagnið. M.ö.o. á hinu opinbera og þar með á íslenskum almenningi. Það þykir Orkubloggaranum slæmt, enda eru lítil rök fyrir því að raforkuverðið til álvera á Íslandi þurfi að vera svo lágt að Norðurál sé í hópi arðbærustu álvera heimsins, án þess að taka áhættu, og að dýfur í álverði skelli eins og brotsjór á Landsvirkjun.

nordural_expansion_2004_971337.jpg

nordural_expansion_2004

Sjálfum þykir bloggaranum fátt skemmtilegra en að hamast með skóflu úti á túni eða hlaða upp grjóti með snáðanum sínum og stífla bæjarlæki. En það er samt eittvað óeðlilegt við það að raforkuverðið hér til nýlegra álvera er svo miklu lægra en gengur og gerist í veröldinni. Og það er líka óeðlilegt hvernig lækkandi álverð bitnar á fullu á íslensku orkufyrirtækjunum, meðan það beinlínis stórlækkar rekstrarkostnaðinn hjá Norðuráli. Ósanngjörn áhættuskiptingin er skýrt  merki um það, að íslensku orkufyrirtækin og kannski ekki síður íslenskir stjórnmálamenn þurfa að breyta um stefnu og viðhorf gagnvart því hvaða arðsemis- og áhættukröfur eigi að gera í tengslum við nýtingu á orkuauðlindum Íslands.

Fleira áhugavert: