Steinrör – Á tímamótum

Heimild:

.

Nóvember 1996

Á tímamótum

Steinrör í frárennslislögnum í grunnum nær 50 ára gamalla húsa eru orðin brotin og morkin. Það þýðir ekki annað en horfast í augu við þann veruleika.

Flestar þjóðir eiga sér langa byggingasögu og langa hefð, fjöldi árhundraðagamalla bygginga prýðir borgir, margir búa í húsum sem eru allt að tvö hundruð ára gömul. Hérlendis er þessu öðruvísi farið, byggingar frá síðustu öld, sem hafa staðist tímans tönn, eru fágæti. Skortur á varanlegu byggingarefni, skortur á verkkunnáttu og skortur á þori og dug gerði það að verkum að með hverri öld urðu hýbýli almennings ömurlegri, minni og lélegri. Þó íslenski torfbærinn sé nú í hávegum hafður sem minjar og reynt að halda við nokkrum þeirra, voru þeir ekki holl né þægileg hýbýli. Í dag er öldin önnur, flestir búa í vönduðum og háreistum húsum sem rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum sér um að lýsa hátt og lágt og heita vatnið úr jörðinni sér um að halda heitum á hverju sem gengur utanhúss.

Byggingaöldin Það er ekki fyrr en á tuttugustu öldinni sem Íslendingar fara almennt að byggja sér hús sem stóðu undir nafni, þá hefst saga bárujárnshúsanna sem mörg hver standa enn og er efalaust merkasta og kannski það eina markverða sem við höfum lagt fram til byggingasögu heimsins. En um miðja öldina þegar hildarleikur seinni heimstyrjaldarinnar skekur veröldina hefst byggingaöldin á Íslandi og steinsteypan, efnið sem allir héldu að væri kraftaverkaefni sem þyldi allt, hóf innreið sína. Þessvegna er ekki út í hött að segja að fyrsta kynslóð bygginga steinsteypualdarinnar sé hálfrar aldar gömul, það er allt og sumt, sannarlega ekki hár aldur. Lagnir komnar á aldur En nú standa eigendur þessara húsa frammi fyrir nýjum hlut; lagnir í húsunum eru komnar á aldur en ekki er sama hvaða lagnir það eru. Eirrör í hitakerfum og lögnum fyrir heitt kranavatn eru flestar u. þ. b. 30 ­ 40 ára gamlar, það var á sjötta áratugnum sem eiröldin gekk yfir.

Á höfuðborgarsvæðinu eru þessi kerfi mörg hver á fallanda fæti þó ekki séu þau eldri. Svört stálrör í hitakerfum, snittuð og skrúfuð, hafa víða staðið sig vel þar sem utanaðkomandi raki hefur ekki náð að tæra þau en spurningarmerki má setja við galvaniseruð stálrör frá þessum tíma og yngri. En það eru fyrst og fremst frárennslislagnir í grunnum, í flestum tilfellum steinrör, sem eru að hrynja. Það þykir líklega fast að orði kveðið að þau séu að hrynja, hér sé verið að mála skrattann á vegginn, en svo er alls ekki. Hús sem eru að nálgast fimmtugsafmælið eða eldri eru flest þessu marki brennd, steinrörin eru brotin og morkin, það þýðir ekki annað en horfast í augu við raunveruleikann. Þetta kemur mörgum í opna skjöldu, það er eðlilegt, þetta er fyrsta kynslóðin sem stendur frammi fyrir þessu. Það er ekki víst að þetta byrji með stíflu í frárennsli, þetta getur byrjað með raka í gólfi og ekki ólíklegt að dýralífið aukist jafnvel á parkettlögðum gólfum.

Niðri í lögnunum er að ganga í garð gósentíð hjá húsamaurum og öðrum smákvikindum, þeir braggast vel og tímgast ört. Ólykt er enn eitt einkennið og stíflur að sjálfsögðu þó ótrúlegt sé hvað grunnurinn tekur stundum lengi við þó rör séu brotin og fallin saman. Hvað er til ráða? Umfram allt: ekki fá mann og loftpressu og byrja að brjóta og bramla, það er að fara inn í öngstræti.

Þrjár meginreglur er rétt að hafa í huga þegar endurnýjuð er frárennslislögn í grunni:

a) Fundin sé besta tæknileg heildarlausn sem ekki aðeins geri brotnar og gamlar frárennslislagnir í grunni óskaðlegar, heldur allar aðrar lagnir í grunni sem skapað geta skaða og útgjöld síðar.

b) Gætt skal ýtrustu hagsýni og ætíð reynt að finna ódýrustu lausnina án þess að slaka á tæknilegum kröfum.

c) Vanda skal hönnun og undirbúning eins og auðið er til að framkvæmdin verði íbúum hússins til eins lítilla óþæginda og nokkur er kostur.

Fleira áhugavert: