Ísland, samstarf – OECD, OEEC, EFTA , EES, EB, NATO
Grein/Linkur: Skjölin í Flórens
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Ágúst 2008
Skjölin í Flórens
Er Ísland í OECD? Reyndar hálf bjánaleg spurning. Því Ísland er ekki bara í OECD. Heldur var Ísland meira að segja eitt af stofnríkjum þessa alþjóðasamstarfs, sem hófst 1961. Og ekki nóg með það. Ísland var líka einn af stofnaðilum OEEC; undanfara OECD. Sem var sett upp þegar árið 1948, í framhaldi af Marshall-aðstoðinni. Í hnotskurn hefur þessi efnahagssamvinna það takmark, að auka viðskipti milli þjóða á grundvelli lýðræðis.
Ísland er sem sagt eitt af þeim ríkjum, sem einna lengst hafa tekið þátt í alþjóðasamstarfi, sem miðar að því að ýta úr vegi gjaldeyrishindrunum og höftum á vöruviðskipti milli landa. Svolítið hlægilegt þegar haft er í huga, að lengst af var Ísland niðurnjörvað í haftabúskap, gjaldeyrisskömmtun og umlukið tollmúrum.
Þó þetta skánaði eitthvað með inngöngunni í EFTA 1970 breyttist ástandið hér ekki af viti fyrr en með EES-samningnum. Samningnum sem tryggði víðtkækt viðskiptafrelsi Íslendinga við Evrópu. Ég er hræddur um að íslenskir stjórnmálamenn hefðu seint komið sér saman um að taka upp allan þann pakka, ef það hefði allt átt að gerast með frumvarpa-maraþoni Alþingis. Til allrar hamingju var þessi aðild í formi netts samnings, sem var lögfestur, ásamt tilheyrandi bókunum og viðaukum. Þar sem vísað er til hinnar ýmsu löggjafar EB.
Líklega hefði verið eðlilegast að Ísland gerðist fullur aðili að EB í framhaldinu af EES. Rétt eins og t.d. Svíþjóð og Finnland. Á þeim tíma hafði Ísland ennþá mikilvæga strategíska stöðu hernaðarlega og naut ríkrar velvildar flestra þáverandi aðildarríkja sambandsins. Sú staða kann að vera breytt núna og því væntanlega erfiðara að fá hagstæðan aðildarsamning nú.
Það var forvitnilegt, þegar ég hér í Den fékk aðgang að nokkrum pappakassahrúgum í hálfgerðu vöruhúsi austur í bæ. Sem var kallað „skjalageymsla“ utanríkisráðuneytisins. Þetta var líklega 1994. Þarna rakst maður á ýmislegt athyglisvert. Ég var þó fyrst og fremst á höttunum eftir skjölum frá fundum í stjórn OEEC, í tengslum við landhelgisdeilurnar á 6. áratugnum. Og hótanir Breta um viðskiptahindranir á Ísland (löndunarbann á íslensk skip í breskum höfnum).
Það er varla ofsagt að aðildin að OEEC (og að NATO) hafi á þeim tíma bjargað okkur frá því að einangrast frá Evrópu. Það var ýmislegt athyglisvert að finna í skýrslum Pétur heitins Benediktssonar, sem þá var sendiherra og kom fram fyrir Íslands hönd hjá OEEC. Greinilega flinkur samningamaður og diplómat. Mig grunar að Hans G. Andersen, sem þá var ungur maður í utanríkisþjónustunni, hafi lært margt af Pétri. Sem kom sér vel þegar Hans varð aðalsamningamaður Íslendinga á Hafréttarráðstefnunni. En það er önnur saga.
Ritvélarblekið á þessum gömlu skjölum frá tímum OEEC var nokkuð farið að dofna og líklega verða þessir pappírar bráðum ólæsilegir. Ef það er ekki einfaldlega búið að keyra þessum pappakössum á haugana nú.
Þess skal getið að skjalaleitin bar mig einnig til Flórens á Ítalíu. Þar uppí fögrum hæðunum ofan við þessa fallegu borg, hvar heitir Feisole, er staðsett sam-evrópskt skjalasafn, sem hefur að geyma gulnaða pappíra frá þessum fyrstu dögum nútímasamvinnu Evrópuríkja. Myndin hér ofar í færslunnin er einmitt frá Fiesole, og sér þaðan yfir Flórens. Tekin frá hótelinu, sem ég gisti á.
Sérstök ástæða er til að rifja þetta upp núna. Því þessar rannsóknir mínar tengdust skrifum Einar Benediktssonar, þáverandi sendiherra Íslands í Washington og áður í París. Þessi vinna okkar Einars kom síðar út í bók hjá Háskólanum. Einar var einmitt starfsmaður hjá OEEC í París árin 1956-60. Hann hefur nýverið átt athyglisvert come-back í íslenska efnahagsumræðu. Þar sem hann ásamt Jónasi Haralz mælir með aðildarumsókn að EB. Ég held að forkólfar ríkisstjórnarinnar ættu að lesa greinar þeirra vandlega og taka góðum ráðum.
Það var athyglisvert að kynnast Einari Benediktssyni. Þar fékk maður beint í æð ýmsan fróðleik frá því þegar íslensk utanríkissamvinna var að mótast. Það var ekki sjálfgefið að Ísland fengi svo greiðan aðgang að samstarfi þjóðanna á meginlandi Evrópu. Fyrir því þurfti mikið að hafa. Því miður tók samt langan tíma að Ísland nútímavæddist fyrir alvöru. Það gerðist í raun fyrst með aðildinni að EES – þó svo aðildin að OEEC og EFTA-aðildin hafi líka skipt miklu máli.
Ekki get ég skilið við þessa færslu, án þess að nefna þriðja manninn í samstarfinu við Einar Benediktsson. Sá er Sturla Pálsson, nú hagfræðingur í Seðlabankanum. Skemmtilegur náungi – með pínu grófan húmor eins og ég sjálfur. Stulla kynntist ég fyrst í gegnum kærustuna hans, hana Helgu sem var með mér í lagadeild. Nú heyri ég sagt að Stulli sé besti vinur „Aðal“ í Seðlabankanum. Kæmi mér ekki á óvart að satt sé. Get vel ímyndað mér að þeir fái hvorn annan til að brosa í kaffitímunum.