Nístingkuldi – Hvað er þá til ráða?

Grein/Linkur: Neyðarástand í nístingskulda

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Desember 1995

Neyðarástand í nístingskulda

Hiti í íbúðarhúsum okkar er svo sjálfsagður að við tökum ekki eftir honum fyrr en hann vantar. Gerist það geta ástæðurnar verið margar, lagnir geta verið gamlar eða viðhaldi ábótavant. Hvetur hann til þess að menn láti yfirfara hitakerfið áður en það bilar þegar verst stendur í vetrarkuldum.

Þegar vetur  er genginn í garð með kulda og umhleypingasömu veðri getur verið gott að sitja á síðkvöldum við ljós og yl sem hjá flestum landsmönnum kemur frá jarðvarma. Hitinn sem streymir frá ofnunum er eitt af þessu sjálfsagða. Meðan hann streymir um hvern krók og kima tekur enginn eftir honum, hann er bara þarna og hefur verið frá því húsið var byggt og flutt var inn.

Við tökum eftir honum ef hann hverfur skyndilega á nístingsköldu vetrarkvöldi, en hvers vegna getur það gerst?

Á flestum hitaveitusvæðum er það mjög sjaldgæft að til vandræða komi vegna bilana eða truflana í dreifikerfinu sem flytur heita vatnið til okkar. Allar veitur eru með gott eftirlit og ef bilanir verða á rörum eða öðrum búnaði eru viðgerðarmenn tilbúnir með tól og tæki og gera við áður en neyðarástand skapast.

Hvað getur gerst?

En hvað getur þá brugðist, kann einhver að spyrja. Getur eitthvað brugðist skyndilega innanhúss?

Í eldri húsum getur vissulega margt brugðist og það er ekki svo vitlaus hugmynd að láta fagmenn meta þá hættu, gera könnun á ástandi lagna og ekki síður úr hvaða efni var lagt. Tökum sem dæmi að þú búir í 25 – 30 ára gömlu húsi á svæði Hitaveitu Reykjavíkur og lagnir séu úr eir; þá ættirðu ekki að bíða lengur, það er kominn tími til að endurnýja lagnakerfin.

En það eru fleiri hlekkir sem geta brugðist en lagnirnar t.d. ýmis stjórntæki.

Þrýstijafnarar og slaufulokar

Þessi tæki eru á nær öllum hitakerfum á fyrrnefndu veitusvæði höfuðborgarsvæðisins. Slaufulokinn hefur það hlutverk að halda þrýstingi á hitakerfinu þó ekkert vatn renni inn á það, hlutverk þrýstijafnarans er að gæta þess að innrennslisþrýstingur sé nógu mikið hærri en útrennslisþrýstingur, annars kæmi enginn hiti inn á kerfið.

En þótt þessi fyrrnefndu nauðsynlegu tæki séu vönduð í upphafi þarf að yfirfara þau með vissu millibili, það er ekki nema eðlilegt. Þau eiga það til að stirðna og svo getur farið að lokum að þau stöðvist algjörlega, það er aðeins spurning í hvaða stöðu þau stirðna, opin, lokuð eða hálflokuð.

Það er ekki verið að mála skrattann á vegginn en því miður veldur þetta mörgum húseigendum óþægindum þessa dagana. Ástæðan er ekki sú að tækin séu ekki ágæt, heldur ótrúlegt sinnuleysi húseigenda varðandi eðlilegt viðhald og eftirlit.

Hvað er þá til ráða?

Það er skynsamlegast í þessu eins og svo mörgu öðru að byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann.

Það er ekki svo langt síðan að þessi tæki komu fyrst á markað eða 20 til 30 ár en það er hins vegar alltof langur tími án nokkurrar umhirðu. Það segir nokkuð um hversu góð þessi tæki eru að mörg hafa unnið áfallalítið allan þennan tíma, en mörg hafa stirðnað með aldrinum og neita að púla lengur.

Það er tiltölulega lítið verk að blása nýju lífi í þrýstijafnara og slaufuloka, það þarf að skipta um pakkningar og smyrja snertifleti. Það sem fer verst með þessa tvíbura er það sama og fer með illa með lagnir, ventla og annað slíkt eða vatnslekar, annaðhvort utanaðkomandi eða úr lögnunum. Hitaveituvatnið er þannig saman sett að það verður skaðvaldur á margan hátt ef það kemst úr búrinu sínu, lögnum og ofnum.

Þessi tæki eiga langa og góða ævi en til að svo geti orðið þurfa þau gott atlæti, nokkuð sem flestir gleyma fyrr en í óefni er komið.

Láttu því yfirfara þrýstijafnara og slaufuloka, það gæti sparað þér óþægindi í nístingskulda síðar í vetur.

Í hitaklefanum þar sem rennslismælir heita vatnsins er finnurðu mjög líklega tvö tæki þessu lík. Ef þú sérð þau ekki í fljótu bragði leitaðu þá þar sem hanga regnfatnaður, garðáhöld, málningarrúllur og gömul fótanuddtæki og annað þvíumlíkt. Það þarf að sýna þessum tækjum aukna virðingu og umhyggju.

Fleira áhugavert: