Rangt efnisval – Einangrun á röngum stað
Grein/Linkur: Rangt efnisval
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Maí 1999
Rangt efnisval
Ef menn eru svo framsýnir að einangra að utanverðu, verður að endurskoða lagnaleiðir innanhúss. Þar kemur margt til greina.
Það er ekki endalaust hægt að liggja yfir bæklingum og minnispunktum frá lagnasýningunni í Frankfurt, en þó eru enn nokkur atriði sem vert er að koma á framfæri og gætu, ef rétt er á málum haldið, orðið til gagns hérlendis. Margir hafa spurt hvort ekkert hafi sést af rör í rör kerfum, hvort það sé einhver bóla sem sé sprungin. Öðru nær, en rör í rör kerfið er ekki sú nýjung sem það var í upphafi, þó það sé tiltölulega nýtt hérlendis er það tuttugu ára gamalt á Frankfurtarsýningunni. Þau kerfi eru því tvímælalaust einn af þeim vænlegu kostum sem við eigum hérlendis þegar velja á lagnaefni og lagnakerfi. Það er mikið byggt og þó hvergi meira en í Kópavogi.
Það er því nánast grátlegt að sjá það, að enn eru hönnuðir að fyrirskipa og pípulagningamenn að leggja úr efni sem koma mun húsbyggjendum í koll áður en langt um líður og þar er átt við galvaniseruð rör í kaldavatnsleiðslum. Það er algjör óþarfi því það eru til önnur ágæt lagnaefni, eins og svo rækilega hefur verið bent á áður.
Þó nokkrir framleiðendur sýndu rör og tengi úr polypropen sem eru tengd með múffusuðu, kjörið efni til kaldavatnslagna og jafnvel hitavatnslagna, fer þó eftir hitastigi vatnsins.
Einangrun á röngum stað
Þegar ekið er um nýbyggingarsvæði Kópavogs má sjá hina dauðu hönd máttar vanans í meirihluta þeirra nýju bygginga, sem þar rísa með miklum hraða. Þar er ekki aðeins átt við galvaniseruðu rörin, heldur einnig við það að í meirihluta bygginganna er einangrun útveggja á röngum stað, að innanverðu en ætti tvímælalaust að vera að utanverðu.
Ef menn væru svo framsýnir að einangra að utanverðu verður að endurskoða lagnaleiðir innanhúss. Þar kemur margt til greina þegar ekki er lengur hægt að velja vitlausustu lagnaleiðina, að troða lögnunum inn í einangrunina. Ein leiðin er að leggja utanáliggjandi lagnir úr stáli, álplasti, plasti eða eir þar sem það er hægt vegna efnainnihalds vatnsins.
Sumir vilja hylja rörin með stokkum, aðrir ekki, fyrir þá sem vilja hylja þau sýndi spánskt fyrirtæki mjög netta stokka, úr plasti, þetta var meira en stokkar því að í raun var um stokkakerfi að ræða með heildarlausn, áfellur í hornum og á yfirbeygjur, þetta stokkakerfi er ætlað bæði fyrir vatns- og raflagnir. Ítalskt fyrirtæki sýndi marga netta og formfagra lagnahluti úr plasi svo sem vatslása, botnventla og margskonar tengirör fyrir frárennslislagnir úr bylgjuðum plaströrum.
Múffuaoðin plaströr úr polypropylene eru góður kostur til nota í kaldavatnslagnir á höfuðborgarsvæðinu og raunar miklu víðar, bæði til sjós og lands.
.
.