Vottanir lagnaefna – Stendur til bóta..

Heimild: 

 

Febrúar 1999

Vottanir og merkingar á lagnaefni

Hérlendis eru öll vottunarmál lagnaefna því miður skammt á veg komin, en það eru teikn á lofti um að þetta standi til bóta.

EFTIR að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu erum við háð margskonar tilskipunum sem frá Brussel koma, það hefur sýnt sig að margt að því hefur heldur betur ýtt við okkur. Þannig hefur stjórnsýslan hérlendis breyst til hins betra og það var fyrst 1992 sem, fyrir áhrif að utan, skilið var endanlega á milli hins þríeina valds hérlendis, löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds. Fyrir áhrif annarra alþjóðlegra eða evrópskra samninga hafa íslenskir einstaklingar leitað réttar síns utanlands í mannréttindamálum, stundum með afdrifaríkum árangri. En í Evrópusambandinu eru til heil fjöll af tilskipunum og reglugerðum, það er víst óumflýjanlegur fylgifiskur nútímalífs og finnst mörgum nóg um.

En allar þessar reglugerðir eru líklega settar í góðum tilgangi og til að vernda einstaklinga og samfélög, en ekki eingöngu til þess að sýna valdboð. CE-merking Ein af þeim merkingum á margskonar vöru og búnaði, sem oft er í umræðu, er svokölluð CE-merking sem fæstir skilja líklega hvað þýðir. Tilskipun um slíka merkingu á vörum á Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið í gildi í þó nokkurn tíma, tók líklega gildi 1995, en hefur ekki enn verið kynnt hérlendis að neinu ráði.

ce-logo

ÞETTA er CE-merkið og svona, og ekki öðruvísi, á það að líta út. Það er ekki úr vegi að líta eftir því hvort svona merki er á leiðarvísinum sem fylgir straujárninu eða dælunni sem þú ætlar að kaupa

En hvað er CE-merking? Sjálft merkið á að vera á ákveðinn lögskipaðan hátt,form þess, sjálf stafagerðin, er í mjög föstu formi.

CE-merking þýðir ekki einhver ofurgæði vörunnar heldur einungis að varan sé framleidd undir einhverju gæðakerfi og að hún þoli það álag sem hún er gefin upp fyrir. Ef ekkert fylgir vörunni annað en þessir tveir bókstafir er merkingin einskis virði, henni verða einnig að fylgja tilskildar upplýsingar um til hvers framleiðslan er ætluð, hvert hennar álagssvið sé, takmörk hennar og möguleikar. Þess vegna er það mikill munur að kaupa vöru sem er CE-merkt eða vöru sem hefur ekki þetta merki. Merkt vara þarf ekki eingöngu að vera einn hlutur, svo sem ofn eða krani, þrýstimælir eða dæla. Það er mögulegt að í framtíðinni verði allt hitakerfið í húsinu þínu CE-merkt, en það þýðir að í kerfinu eru eingöngu notuð CE-merkt lagnaefni, efni sem eru vottuð af þar til bærum yfirvöldum og að lögn kerfisins hafi verið unnin eftir viðurkenndu gæðakerfi.

Notum við vottað lagnaefni? Hérlendis eru öll vottunarmál lagnaefna því miður skammt á veg komin þó lög og reglugerðir segi skýlaust að eingöngu skuli nota vottuð lagnaefni, en það eru teikn á lofti um að þetta standi til bóta. En hvers vegna erum við svona aftarlega á merinni, miklu aftar en flestar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu? Þar birtist einn af þjóðarlöstum okkar; að setja lög og reglugerðir, gefa út tilskipanir án þess að tryggja um leið að hægt sé að fylgja þessum sömu lögum og tilskipunum eftir. Það er sjaldnast gengið frá því um leið og lagasetningin tekur gildi að fyrir því sé séð hverjir eigi að sjá um framkvæmdina og þeim hinum sömu tryggt fé til að geta gert það. Því miður er víða í verslunum, sem höndla með lagnaefni, á boðstólum ýmiskonar drasl sem enga vottun eða merkingar hafa, og því miður láta margir kaupendur sig það engu varða. Jafnvel stórbyggjendur, sem byggja og selja íbúðir, hugsa aðeins um það eitt hvað hluturinn kostar, eða réttara sagt, hvað hann kostar lítið.

 

Lagnakerfi er hægt að CE-merkja, en að uppfylltum ströngum skilyrðum og það er ekki nóg að slengja tveimur bókstöfum á það. Ef það yrði CE-merkt þyrftu að vera sýnilegar ítarlegar lýsingar á efni, virkni og vinnu.

Fleira áhugavert: