Afnotatími auðlinda – Hversu lengi?

Heimild: 

.

Ágúst 2010

Hversu langur ætti afnotatíminn að vera?

Samkvæmt gildandi lögum geta einkaaðilar fengið leyfi ríkis og/eða sveitarfélaga til að nýta orkuauðlindir í þeirra eigu til allt að 65 ára í senn. Auk þess hafa fyrirtækin möguleika á framlengingu, sem unnt er að semja um þegar helmingur afnotatímans væri liðinn.

Lagaákvæðin um tímabundna afnotaheimild að orkuauðlindum komu í lög árið 2008, fyrir tilstilli meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Skömmu áður hafði þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, talað fyrir hugmyndinni – þ.e.  að leigja nýtingarréttinn – og vísaði til fordæmis Indónesa. Kannski má segja að þarna hafi Össur leitað heldur langt yfir skammt. Því Norðmenn höfðu þá í heila öld verið með fyrirkomulag um tímabundinn afnotarétt einkaaðila af vatnsaflsauðlindum í Noregi.

ossur-blogg-24-oct-2007.png

ossur-blogg-24-oct-2007

Þegar verið var að undirbúa frumvarpið í iðnaðarráðuneytinu um tímabundinn afnotarétt, voru uppi hugmyndir innan ráðuneytisins um að hæfilegur afnotatími væri 40 ár. Og engin framlenging. Þegar málið kom fyrir Alþingi var búið að setja 65 ára afnotarétt inní frumvarpið og í meðförum þingsins bættist svo framlengingarákvæðið við. Þingmenn VG vildu styttri tíma en sumir þingmenn Sjálfstæðisflokks vildu að afnotarétturinn yrði mun lengri og var nefnt allt að 99 ár. Niðurstaðan varð 65 ár + möguleiki á framlengingu.

Nú er rætt um það að stytta afnotatímann. Meðal þeirra sem tala fyrir slíku er Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Katrín var afgerandi í Kastljósviðtali s.l. fimmtudag um að hún álíti 65 ára afnotatíma of langan. Annars staðar hefur verið eftir henni að hæfilegur afnotatími vegna jarðvarmavirkjunar sé 30-35 ár en 40-45 ár þegar um vatnsaflsvirkjun er að ræða. Í vikunni var svo viðtal við Katrínu í Fréttablaðinu þar sem hún talar um ennþá skemmri tíma; 20-30 ár fyrir jarðvarmavirkjanir og 40 ár fyrir vatnsaflsvirkjanir.

katrin-jul_kastljos.png

katrin-jul_kastljos

Katrín virðist því heldur betur hafa skipt um skoðun frá því fyrir tveimur árum síðan, þegar hún sem þáverandi formaður iðnaðarnefndar Alþingis stóð að því að samþykkja 65 ára regluna OG framlengingarákvæði. Orkubloggarinn er á því að þrjóska í stjórnmálum sé ekki af hinu góða og barrasta hið besta mál ef fólk skiptir um skoðun… ef til þess eru góð rök. Kannski verður Katrín brátt áhugasöm um norska fyrirkomulagið um að einkaaðilar geti leigt virkjanir til max 15 ára. Þetta er samt allt dálítið skrítið og sumum þykir eflaust sem þessi hringlandaháttur einkennist ansið mikið af daglega veðurfarinu í stjórnmálunum.

Hafa ber í huga að þetta snýr eingöngu að einkaaðilum og því hafa Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur þarna lítilla hagsmuna að gæta. Og það er augljóslega ekki unnt að stytta afnotatímann einhliða gagnvart einkaaðilum, sem þegar hafa fengið 65 ára afnotarétt. Þess vegna myndi þurfa að semja um þetta við HS Orku, þ.e.a.s. ef stytta á afnotatíma þess fyrirtækis frá þeim 65 árum sem þegar er búið að veita fyrirtækinu. Þar að auki er sú jarðvarmaauðlind ekki í eigu ríkisins heldur Reykjanesbæjar og Grindavíkur, þ.a. ríkið hefur ekkert með þann jarðvarma að gera.

Í reynd er því heldur seint í rassinn gripið gagnvart HS Orku eða Magma Energy – nema þá HS Orka yrði fús til að semja um styttri tíma að ósk sveitarfélaganna, sem eiga auðlindina. Menn geta spáð í það hvort HS Orka myndi nokkru sinni bótalaust afsala sér 30 árum af afnotatíma sínum.  Skeð er skeð og það að stytta umræddan afnotatíma orkuauðlinda í lögunum núna hefur einungis þýðingu gagnvart því ef t.d. HS Orka eða aðrir einkaaðilar óska eftir nýtingarétti á öðrum orkuauðlindum í eigu ríkis- eða sveitarfélaga.

Reyndar ganga óstaðfestar Gróusögur um að HS Orka sé út um allt að leita nýrra virkjunarmöguleika. Svo helst minni á ástandið í Noregi fyrir heilli öld, þegar útlend fyrirtæki voru á fullu að kaupa upp norska fossa og norska Stórþingið kom hjemfall-reglunni á. Magma Energy er sagt vilja komast yfir meiri orkuauðlindir á Íslandi, en í reynd gæti HS Orka að sjálfsögðu  allt eins staðið í slíku ef GGE eða þrotabú Glitnis ætti fyrirtækið. Til að koma í veg fyrir að að slíkt eigi sér stað er eina leiðin að setja í lög ákvæði þess efnis að einkaaðilar geti ekki fengið nein ný virkjanaleyfi. Og fylgja þar fordæmi Norðmanna, sbr. viðbrögð þeirra við því þegar EFTA-dómstóllin sagði hjemfall-regluna andstæða EES-rétti.

Breyting á afnotatímanum hefði sem sagt ekki þýðingu gagnvart núverandi rekstri HS Orku (kæmi fyrst til álita vegna framlengingar þegar umsaminn 65 ára afnotatími þeirra rennur út nokkru eftir miðja 21. öldina þegar flestir núverandi Alþingismanna verða komnir undir græna torfu). Engu að síður verður spennandi að sjá hvort þingmenn sættast á að stytta afnotatíminn – og þá í hvaða tíma. Þar verður hugsanlega einkum litið til nýlegs nefndarálits, sem forsætisráðuneytið fékk í hendur í mars s.l.

nesjavellir-pp.jpg

nesjavelli

Skýrslan sú ber yfirskriftina „Fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins – Skýrsla nefndar forsætisráðherra sem skipuð var samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 58/2008„. Nefndin var undir forsæti Karls Axelssonar, hrl., sem hefur af mörgum þótt vel að sér þegar kemur að eignarétti og öllu sem að honum lýtur. Þetta er mjög áhugaverð skýrsla – þó svo þar sé reyndar að finna nokkrar afar meinlegar villur – og ættu lesendur endilega að gefa sér tíma til að glugga í hana. Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins.

Umrædd nefnd taldi 65 ára afnotarétt óþarflega langan tíma og leggur til að hámarkið verði á bilinu 40-50 ár. Það er sem sagt ekki fullt samræmi milli niðurstöðu nefndarinnar og yfirlýsinga iðnaðarráðherra núna, en hún nefnir allt niður í 20 ára afnotatíma. En það er athyglisvert að nefndin er komin á sömu slóðir eins og iðnaðarráðuneytið var á í upphaflegum drögum frumvarpsins; við erum sem sagt aftur farin að finna þef af 40 ára reglu.

geothermal_hs-orka.jpg

geothermal_hs-orka

Um framlengingu á afnotatíma tók nefndin ekki afgerandi afstöðu. Sagði þó að til greina kæmi að framlengdur tími yrði hafður helmingi styttri en upphaflegur leyfistími, en taldi ekki útilokað að framlengdur leyfistími yrði jafnlangur upphaflegum leyfistíma. Í þeim orðum liggur að framlengingin yrði þá einhverstaðar bilinu 20-50 ár að áliti nefndarinnar. Að vísu er ekki ljóst hvort nefndin hafi gengið út frá því að einungis sé unnt að fá eina framlengingu á afnotaréttinum eða hvort framlengingar geti orðið fleiri .

Nefndin gerir sem fyrr segir ekki ákveðna tillögu, en ýjar þarna að því að passlegur heildarafnotatími sé á bilinu 60-100 ár (að því gefnu að aðeins sé unnt að fá framlengingu einu sinni). Svo getur hver og einn lesandi Orkubloggsins lagt sitt mat á það hvort slíkt sé hæfilegur afnotatíma einkaaðila af orkuauðlind í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Í Noregi gilti í nær heila öld sú almenna regla að afnotin gætu orðið 60 ár – og að þeim tíma loknum skyldi virkjun einkafyrirtækisins sem hafði afnotaleyfið renna gratís til norska ríkisins. Og í dag gildir sú regla í Noregi að einkafyrirtæki geta ekki fengið að kaupa eða byggja fleiri virkjanir (nema þær séu minni en 4.000 hö eða undir 3 MW). En það er allt önnur saga.

Fleira áhugavert: