Vatnið, gullið okkar – Varmatap, varmaleki

Grein/Linkur: Varminn smýgur víða og getur valdið skaða

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Mars 2004

Varminn smýgur víða og getur valdið skaða

Varminn sem streymir upp úr íslenskri jörð, ýmist sem vatn eða gufa er okkar olía eða okkar gull. Það er þó engan veginn rétt að líkja íslenska jarðvarmanum við olíu. Vissulega ber olían í sér mikla orku sem breyta má í varma, en það hefur í för með sér mengun sem er stórkostlegt að vera laus við.

Þess vegna er réttara að líkja jarðvarmanum við gull þó að hann hafi margfalt meira hagnýtt notagildi á við gullið, sem hefur í rauninni sáralítið gildi nema tilbúið, eða sem ígildi annara verðmæta.

Það er nú einu sinni svo að það sem er gnótt af verður svo sjálfsagt að við tökum ekki eftir því, þannig er með heita vatnið og þannig er með rafmagnið.

Hvaðan það kemur eru margir, einkum af yngri kynslóðinni, búnir að gleyma, einnig hvaða svita og strit forfeðranna þurfti til svo velsæld okkar í birtu og yl yrði að veruleika.

Þess vegna er leikur einn að standa norpandi á Austurvelli og mótmæla virkjunum lesandi ljóð þjóðskáldanna, ylurinn og birtan eru vís á eftir til að ná hrollinum úr kroppnum.

Varminn upp um reykháfinn

Nú til dags glotta menn gjarnan að háttum engilsaxneskra fyrr á öldum, hvernig þeir hituðu upp hallir sem hreysi.

.

Arinninn enski eyddi miklu eldsneyti, hann breytti ókjörum af föstu efni í varma. Gallinn var bara sá að meirihlutinn af varmanum rauk upp um reykháfinn án þess að koma að nokkrum notum, en auðvitað var notalegt að sitja fyrir framan opinn eldinn.

En um leið og hann slokknaði var kuldinn jafnharðan búinn að taka völdin þegar frostið beit úti.

Þannig var einnig kolaofninn, sem var algengur á íslenskum heimilum, hann sóaði varmanum út í loftið. Við elduðum fyrir hrafninn, þeir dönsku fyrir krákurnar. En getur það verið að við séum að sóa varma upp í loftið eins og gert var með íslenskum kolaofnum og enskum örnum fyrr á árum? Tæplega, en það er eins gott að hafa varann á.

Í einu ágætu húsi í Smáíbúðahverfinu var ekki einleikið hve mikið eyddist af heitu vatni til að að hafa eðlilegan hita í húsinu.

Vísir menn lögðu höfuðið í bleyti, ofnar virtust í góðu lagi, nokkrir voru þó endurnýjaðir. Þrýstijafnarinn reyndist ónýtur og bætt var úr því. Hitakerfið var jafnvægisstillt, en það kallast það þegar hæfilegt rennsli er stillt inn á hvern ofn þannig að hann nái að kreista varmann úr vatninu áður en það fer sína leið í frárennslið.

En húsið hélt áfram að eyða of miklu.

Þetta hús, eins og mörg hús í þessu hverfi, er kjallari, hæð og ris.

Eins og fínt þótti á þeim árum eru veglegir stigar á milli hæða án nokkurra hurða, það er sem sagt opið frá kjallargólfi upp í ris.

 Kristinn Jónsson með hitamyndavélina. Ef þessi mynd heppnast má sjá bláa flekkinn þar sem varminn streymir út en mannshöndin verður rauð.

Kristinn Jónsson með hitamyndavélina. Ef þessi mynd heppnast má sjá bláa flekkinn þar sem varminn streymir út en mannshöndin verður rauð.

Þá var brugðið á það ráð að fá vísan mann á vettvang.

Kristinn Jónsson lauk námi í pípulögnum hérlendis en lét það ekki nægja heldur hélt til okkar gömlu óðalsherra, til Dana, hverjir tala það mál sem ungir Íslendingar láta aldrei út af sinni tungu koma, enda aldrei talað í guðs eigin landi, Bandaríkjum N-Ameríku.

En hvað um það, hjá dönskum lauk Kristinn því námi sem þarlendir nefna „VVS-tekniker“ segjum bara að á íslensku sé það rörtæknir.

Hitamyndavél

En heimkominn hafði Kristinn með sér myndavél eina ágæta, sem reyndar tekur ekki góðar mannamyndir, heldur tekur hún myndir af hita, þetta er hitamyndavél.

Veggir þar í Smáíbúðahverfinu reyndust halda hitanum þokkalega, húsið hlaðið úr holsteini og einangrað að innan með korki, sem algengt var um miðja síðustu öld. Síðan var farið í risið og nú var myndað yfir allt loftið undir súð. Vélin sendir myndina á skjá, þar er mannshöndin rauð, klæðningin í loftinu appelsínugul sem þýðir að þar helst hitinn inni.

En hvað gerðist í einu horninu? Myndin varð blá.

Hvað þýddi það? Einfaldlega að þar hafði varminn ekki við hitatapinu, hitinn streyndi út. Og nú fór meira að koma í ljós, varmalekarnir voru fleiri, bláar rendur í kverkum mjög víða.

Ekki er hægt að gera sér grein fyrir því í fljótu bragði hve lekinn er mikill. En eftir bláa litnum á skjánum virtist hann umtalsverður.

Nú verður verkefnið að taka upp klæðningar, einangra og þétta. Að þétta er ekki minna atriði en að einangra gegn varmatapi við svona aðstæður.

Hættan er sú að þar sem varminn flæðir upp í þakið getur hann valdið miklum skaða. Þegar heita loftið kemur upp í kalt rýmið þéttist rakinn sem í því er og þá er voðinn vís.

Sperrur og annar viður tekur í sig rakann sem ásamt súrefni byrjar sinn eyðingarferil, timbrið fúnar.

Með hitamyndavél er hægt á ódýran og einfaldan hátt að komast að svona göllum eins og varmalekum án þess að draga nagla eða spenna fjöl.

Það getur komið í veg fyrir stórskaða á timburvirki og einnig er hægt að koma í veg fyrir varmaleka og spara orku.

Fleira áhugavert: