Reykskynjarar – Hafið eftirfarandi í huga

Grein/Linkur:  Dagur reykskynjarans

Höfundur: Vörður

Heimild:

.

.

Desember 2021

Alþjóðlegur dagur reykskynjarans er 1. desember. Hvetjum við fólk til að huga að eldvörnum á heimilum sínum. Tveir eða fleiri reykskynjarar eiga að vera á hverju heimili og best er að hafa þá í öllum rýmum. Reykskynjarar eiga að minnsta kosti að vera framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Ganga þarf úr skugga um að reyk­skynj­ar­ar heim­il­is­ins séu í lagi og skipta um raf­hlöður í þeim.

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. En til þess þurfa þeir:

  • Að vera til staðar og á réttum stað.

  • Að vera réttrar gerðar og í lagi.

  • Að hafa góða rafhlöðu.

Til eru tvær megingerðir af reykskynjurum, optískir og jónískir, auk skynjara sem sameinar eiginleika beggja. Jóníski skynjarinn skynjar vel reyk með litlum ögnum, til dæmis opinn eld, en síður upphaf glóðarbruna, til dæmis í sófa, sem optíski skynjarinn nemur hins vegar mjög vel. Því er æskilegt að hafa báðar gerðirnar á heimilinu. Hafið eftirfarandi í huga um reykskynjara:

  • Ekki staðsetja reykskynjara í eða of nálægt eldhúsi.

  • Setjið optískan reykskynjara á ganga eða opin svæði.

  • Setjið optískan reykskynjara nálægt rafmagnstöflu.

  • Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi.

  • Best er að samtengja alla reykskynjara í húsinu.

  • Sé húsið fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir.

  • Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 sentímetra.

  • Skiptið um rafhlöðu í reykskynjaranum árlega t.d. 1. desember.

  • Prófið reykskynjarann mánaðarlega með því að ýta á prófunarhnappinn.

  • Líftími reykskynjara er um það bil tíu ár. Aðgætið framleiðsludag/ár þegar reykskynjari er keyptur.

Eldvarnir eru dauðans alvara

Eldvarnabandalagið hefur gefið út handbók um eldvarnir heimilisins. Í henni er mælt með því að hafa reykskynjara í öllum rýmum, slökkvitæki við helstu flóttaleið og eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi. Þá sé brýnt að allir hafi að minnsta kosti tvær flóttaleiðir úr íbúðinni. Eldvarnabandalagið var stofnað sumarið 2010 sem samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir og er Vörður aðili að bandalaginu.

Fleira áhugavert: