Starfssvæði Norðurorku – Ábyrg orkunotkun

Grein/Linkur: Staða hitaveitu á starfssvæði Norðurorku

Höfundur: Norðurorka

Heimild:

.

.

2023

Staða hitaveitu á starfssvæði Norðurorku

Hvaðan kemur heita vatnið á starfssvæði Norðurorku?

Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þeirri einstöku auðlind sem jarðhitavatn er, en um 90% heimila landsins eiga kost á að nýta sér það. Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur verið stærsta vinnslusvæði Norðurorku síðustu tuttugu ár. Þar eru þrjár borholur sem sjá Akureyringum og nærsveitungum fyrir um það bil 75% af heitu vatni. Elsta vinnsluholan var boruð sumarið 2002 og kom þá glögglega í ljós hve öflugt svæðið er. Annarri vinnsluholu var bætt við í ársbyrjun 2005 og var hún fyrst og fremst hugsuð sem varahola. Með vaxandi heitavatnsnotkun á þjónustusvæði Norðurorku fór það hinsvegar svo að báðar holurnar voru í notkun allan ársins hring. Vorið 2018 var því þriðja holan boruð til viðbótar sem varahola ef ske kynni að t.d. bilun í dælubúnaði kæmi upp. Holan stóð fyllilega undir væntingum og vinnslustuðull hennar var með því hæsta sem sést hefur fyrir lághitaholu á Íslandi. Var því spáð að svæðið á Hjalteyri myndi standa undir aukinni heitavatnsnotkun Akureyringa og nærsveitunga næstu tíu árin.

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri fullnýtt – hvað þá?

Undir lok árs 2021 fóru að koma fram vísbendingar um aukið klóríðmagn í jarðhitavatninu á Hjalteyri, sem benda til snefilmagns af sjó. Slíkt innflæði bendir til þess að jarðhitasvæðið á Hjalteyri sé nú orðið fullnýtt. Í ljósi þess liggur fyrir að ráðast þarf í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að mæta aukinni og vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Hafa ber í huga að eftir því sem tímanum fleygir fram og við fullnýtum einstök svæði þá þarf jafnóðum að leita nýrra til að taka við þegar þörf verður á. Því þarf sífellt að leita lengra, leggja í meiri rannsóknir og kosta meiru til svo tryggja megi samfélaginu heitt vatn. Nú hefur Norðurorka hafið undirbúning að virkjun jarðhitasvæðis við Ytri Haga, norðan Hjalteyrar og einnig er verið að kanna nýtingu á glatvarma frá aflþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi. Þessi verkefni taka langan tíma í undirbúning og því má litlu útaf að bregða í rekstri hitaveitunnar þar til þau verða komin í virkni.

Ábyrg orkunotkun mikilvæg

Mikil aukning er í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Mikilvægt er að samhliða aukinni öflun sé unnið frekar með notkunarhliðina, þ.e. að umgengni okkar um jarðhitaauðlindina sé ábyrg og að jarðhitavatni sé ekki sóað eða það nýtt til verkefna sem skipta samfélagið minna máli. Í því samhengi má horfa til þess að jarðhitavatn hefur hingað til verið ódýr orkugjafi og nýting því tekið mið af því. Í náinni framtíð, horft til snjallmæla, eru tækifæri til að byggja upp verðskrár sem stuðla að skynsamlegri nýtingu á þeirri auðlind sem jarðhiti er.

Hvernig sýnum við ábyrga orkunotkun þegar kemur að heitu vatni:

Heiti potturinn

Fátt er betra en að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu vetrardagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur í heita pottinum, þá er sturtan heppilegri kostur.

Snjóbræðslan

Í kuldatíð eru ekki alltaf forsendur fyrir snjóbræðslu vegna mikillar orkuþarfar. Með nákvæmari stýringu á snjóbræðslunni allt árið um kring næst betri árangur auk þess sem hún veldur minna álagi. Þannig lækkar einnig orkureikningurinn. Sama gildir um hita í hitastrengjum í þakrennum, slökkvum á þeim yfir sumartímann.

Opnir gluggar

Förum vel með varmann, athugum með þéttingar á gluggum og hurðum og tryggjum að hitakerfið sé að virka rétt. Ef við þurfum að lofta út er betra að hafa glugga vel opinn í tíu mínútur og loka honum svo í stað þess að hafa gluggann opinn allan daginn.

Athuga stillingar á ofnum

  • Lækka hita á ofnum þegar gluggi er opnaður.
  • Hafa ekki gardínur fyrir ofnum.
  • Hafa í huga að ofn á að vera heitur efst en kaldari neðst.

Hvernig er orkunýtingin á þínu heimili?

Fleira áhugavert: