Varmaskitir – Trúabrögð eða tækni
Grein/Linkur: Af hverju að nota varmaskipti? Af því bara
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 2004
Af hverju að nota varmaskipti? Af því bara
Áður en lengra er haldið er réttara að segja frá því í nokkrum orðum hvað varmaskiptir er, tæplega hægt að ætlast til að hver húseigandi viti hvaða galdratæki það er, við fagmenn höfum átt fullt í fangi með að skilja skolla.
Varmaskiptir er hlunkur að sjá, inni í þessum hlunki eru tvö hólf sem þó hvort fyrir sig er með mörgum rásum og göngum sem vatn getur runnið eftir.
Þetta tæki framkvæmir þann galdur að færa varma frá vökva í 1. hólfi yfir í vökva í 2. hólfi án þess að vökvarnir blandist.
Varmaskiptar fá mismunandi verkefni. Sumir nota þá til að hita upp kalt vatn með hitaveituvatni vegna þess að þeir vilja ekki fá hitaveituvatnið á sín fínu hreinlætistæki. Þeir eru einnig notaðir til að vinna varma úr hitaveituvatni fyrir snjóbræðslukerfi, þá fer aldrei hitaveituvatn inn á snjóbræðslukerfið, á því er alltaf sama vatnið, oftast blandað frostlegi, varmaskiptar eru stundum notaðir fyrir gólfhitakerfi. Vonandi skilja menn eitthvað af þessari tæknilegu steypu.
Margur maðurinn stynur undan þunga þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þegar kemur að því að ganga frá utanhúss, svo sem að leggja snjóbræðslukerfi og helluleggja heimreið, steypa hana eða malbika, er pyngjan oft orðin létt.
Einn þreyttur húseigandi hafði á orði að sér fyndist snjóbræðslukerfið verða miklu dýrara en hann bjóst við. Honum var bent á að snjóbræðslurör hefðu ekki hækkað í verði í áratug, hann svaraði skjótt að það væru ekki þau sem hleyptu upp verðinu, það væri varmaskiptirinn og allur sá stjórnbúnaður sem honum fylgdi.
Þegar hann var spurður hvers vegna hann ætlaði að nota varmaskipti sagði hann að sérfræðingur hefði sagt sér að það yrði hann að gera. Honum var ráðlagt að spyrja hvers vegna, það hlytu að vera sterk rök fyrir 200.000 kr. aukakostnaði.
Að viku liðinni hafði hann náð í sérfræðinginn og spurði hann ákveðið hvers vegna á hans snjóbræðslukerfi ætti að vera varmaskiptir og svarið kom um hæl „af því bara, svoleiðis gerum við alltaf“.
Trúarbrögð eða tækni
Líklega eru það margir sem nú eru að hyggja að snjóbræðslulögnum við sitt hús og það er ekki ólíklegt að margir hafi fengið sömu ráð og fyrrnefndur þreyttur húseigandi, því miður.
Varmaskiptar eru svo sannarlega nauðsynleg tæki við vissar aðstæður, því er ekki að neita. En það á að vera gullvæg regla að nota aldrei varmaskipti nema fyrir því liggi rök, já, mjög sterk rök.
Þau rök eru vissulega til. Ef efnasamsetning hitaveituvatns er þannig að það skaðar lagnir og ofna er ekki hægt að komast hjá því að nota varmaskipti. Ef snjóbræðslurör eru steypt beint inn í tröppur eða steypu er það yfirleitt einnig nauðsyn.
Í flestum tilfellum er hægt að komast hjá því að nota varmaskipti fyrir snjóbræðslukerfi. Grundvallarreglan ætti að vera þessi; ef hætta er á að snjóbræðslukerfið eða umhverfi þess skaðist ef í því frýs ætti tvímælalaust að nota varmaskipti og hafa frostlagarblöndu á kerfinu.
En þá er eðlilegt að spurt sé; verður ekki alltaf skaði á snjóbræðslukerfi og umhverfi þess ef í því frýs? Nei, ekki ef rétt snjóbræðslurör eru valin og rétt frá þeim gengið við lögn. Í fyrsta lagi að velja PEM snjóbræðslurör, í öðru lagi að steypa aldrei snjóbræðslurör beint inn heldur draga þau í barka þegar þau eru sett í steypu, sem hefur reynst mjög vel.
Í flestum tilfellum eru snjóbræðslurörin í sandi undir hellum eða lögð beint á fyllingu undir steypu. Við fyrrnefndan frágang hafa rörin nokkra möguleika til þenslu sem óhjákvæmilega verður ef í rörunum frýs.
Hver er áhættan? Það er sáralítil hætta á að í snjóbræðslukerfi frjósi en mjög skiljanlegt að mörgum finnist það vera áhætta að láta vatn renna beint út í kerfi sem liggur 10 cm undir yfirborði utanhúss.
Það er nær engin hætta á að hitaveitur bregðist, það eru áratugir síðan slíkt hefur gerst. Snjóbræðslukerfi, sem fær sinn grunnhita úr bakrennsli hitakerfis hússins, er mjög öruggt gegn truflunum. Því kaldara sem er því meira vatn kemur frá bakrennslinu. Auk þess er sjálfsagt í flestum tilfellum að setja á kerfið sjálfvirkan loka sem bætir við beinu rennsli frá hitaveitu ef hitinn í kerfinu fellur niður fyrir eitthvert ákveðið mark.
Á aldarfjórðungi hefur sú þróun orðið hérlendis að snjóbræðslukerfi er orðið sjálfsagt við hvert hús. Sem betur fer eru langflest þessara kerfa með beint rennsli frá bakrás án varmaskiptis og það er staðreynd að þau kerfi eru miklu gangöruggari en þau kerfi sem eru með varmaskipti og frostlegi, fyrir nú utan það að hafa kostað miklu minna þegar þau voru lögð.
Enn og aftur; það verða að vera mjög sterk rök fyrir 200.000 kr. aukakostnaði, rökin verða að vera veigameiri en „af því bara“.