Minjar glatast – Sagan, tækin, tæknin

Grein/Linkur: Innblástur frá Skógum

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Byggðasafnið Skógum

.

Ágúst 1996

Innblástur frá Skógum

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Öllu sem tilheyrir tækni hjá þessari þjóð er ekið á hauga eða í brotajárn, segir Sigurður Grétar Guðmundsson. Enginn hefur minnsta áhuga á að bjarga sögunni frá glötun og vekur hann hér athygli á þeirri nauðsyn að halda til haga ýmsum tækjum sem lagnamenn og aðrir iðnaðarmenn hafa unnið með.

Náttúrfergurðin undir Eyjafjöllum er stórkostleg og ætíð jafnfróðlegt og skemmtilegt að fara fram með fjallshlíðinni. Perlan Skógafoss er enn á sínum stað og þar er kjörinn staður til að áningar, ágætis tjaldstæði og þjónusta Fossbúans góð.

Þórður Tómasson 1921-2022

En enginn stansar að Skógum án þess að heimsækja eitt fremsta byggðasafn landsins þar sem eldhuginn Þórður Tómasson tekur á móti gestum, segir skil á hlutum, grípur í orgelið og leiðir söng. Þarna er gamall íslenskur bær sem er holl uppfræðsla fyrir þá sem ekki hafa búið við slíkar aðstæður, en þeir sem það hafa gert munu vera orðnir harla fáir ofar moldu. En það er búið að reisa hið myndarlegasta safnahús sem hýsir ótrúlega marga fallega og fræðandi gripi. Það er ekki lítið átak sem sýslurnar tvær, kenndar við Rangá og Skaftafell, hafa afrekað, en til bygginga á staðnum hefur verið varið um 70 milljónum króna.

Eftir heimsókn í safnið er ekki óeðlilegt að hugleiða hvað hefði orðið um flesta gripina ef ekkert safn hefði verið og enginn eldhugi til að hafa forystu um söfnun og uppbyggingu. Einhverjir gripir væru eflaust varðveittir í heimahúsum en líklegast er að flestir hefðu lent í glatkistunni, væru endanlega horfnir.

Það hefði orðið mikill skaði.

Hvað um okkar tól og tæki?

Það er fleira sem á skilið að vera haldið til haga, ókomnum kynslóðum til fróðleiks, en búsáhöld, amboð og listilegur útskurður sjálfmenntaðra snillinga í sveitum landsins á líðandi öld og þeirri síðustu.

Hvað gerum við sem erum lagnamenn, iðnaðarmenn og aðrir þeir sem starfa að margskonar tækni?

Það er líklega fljóttalið sem þar hefur verið safnað og haldið til haga. Jósafat Hinriksson er bjargvættur tækja og veiðarfæra fiskiskipastólsins, sjóminjasafn er í Hafnarfirði og er þá ekki upptalið?

Líklega hafa stærstu veitur vatns og rafmagns einhverju bjargað en mest mun það vera í skötulíki og tilviljunum háð.

.

Hringbraut – Smella á mynd til að lesa greinina „Minjar mega ekki glatast“

.

Fyrir um ári var reynt hér í pistlunum að vekja menn af svefni, jafnvel til dáða. Öllu sem tilheyrir tækni hjá þessari þjóð er ekið á hauga eða í brotajárn, enginn hefur minnsta áhuga á að bjarga sögunni frá glötun. Ágætt og sögufrægt húsnæði stóð til boða sem safnahús, hús sem hefur í sér geymda mikla sögu um iðnþróun, Rafhahúsið við Lækinn í Hafnarfirði, við þann sama læk og knúði fyrstu vatnsaflsstöð hérlendis sem framleiddi rafmagn. Í því húsi voru framleidd heimilistæki í áratugi, eldavélar, ísskápar og þvottavélar.

Þetta var kjörinn staður fyrir Tækniminjasafn Íslands.

En það fannst enginn eldhugi á borð við Þórð Tómasson meðal íslenskra tæknimanna, hvorki meðal lagnamanna né annarra.

Hvar eru stór og öflug samtök eins og Samtök iðnaðarins? Er enginn innan veggja hjá Hitaveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja eða Vatnsveitu Reykjavíkur, svo nokkur stórfyrirtæki séu nefnd, sem hefur áhuga á að bjarga menningarverðmætum frá glötun?

Sagan, tækin, tæknin; allt er þetta daglega að glatast. Þetta er til skammar fyrir alla.

Þegar gömul lagnakerfi eru rifin er öllu hent, en þar kunna að leynast hlutir sem hafa sögulegt gildi.

Fleira áhugavert: