Rafeldsneytisverksmiðja Oair – Þarf 840 MW

Grein/Linkur:  Verksmiðja Qair þyrfti allt afl Kárahnjúkavirkjunar og meira til

Höfundur: Sunna Ósk Logadóttir, Heimildin

Heimild:

.

Kyndillinn Mannvirki verksmiðju Qair á Grundartanga yrðu m.a. rafgreinar, tengivirki fyrir rafmagn, gasþjöppur, framleiðslutankar og turnar sem hýsa búnað til hreinsunar, eimingar og blöndunar hráefna. Gös losna við framleiðsluna yrðu brennd í svonefndnum kyndli. Loginn yrði blár og myndi sjást í myrkri. MYND: ÚR UMHVERFISMATSSKÝRSLU

.

Mars 2024

Verksmiðja Qair þyrfti allt afl Kárahnjúkavirkjunar og meira til

Fyr­ir­tæk­ið Qa­ir ætl­ar sér að byggja vindorku­ver og vatns­afls­virkj­an­ir á Ís­landi og nota ork­una til að fram­leiða ra­feldsneyti sem yrði að mestu leyti flutt úr landi. Þar yrði fram­leitt vetni og því svo breytt í „grænt“ ammoní­ak.

Öll níu vindorkuverin sem fyrirtækið Qair áformar að reisa á Íslandi myndu ekki ná að fullnægja orkuþörf rafeldsneytisverksmiðju á Grundartanga sem fyrirtækið er einnig með á prjónunum. Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, myndi ekki duga til að knýja verksmiðjuna. Hver hinna þriggja áfanga þyrfti sambærilegt afl og Búrfellsvirkjun býr yfir. Fullkláruð yrði aflþörf verksmiðjunnar 840 MW og þá mögulega um 6,5-7,5 TWst á ári. Það er um eða yfir þriðjungur af núverandi raforkuframleiðslu á Íslandi.

Skipulagsstofnun hefur auglýst umhverfismatsskýrslu um rafeldsneytisverksmiðju sem fyrirtækið Qair á Íslandi hyggst reisa á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Verksmiðjan yrði byggð í þremur áföngum og í henni framleitt vetni með rafgreiningu sem svo aftur yrði breytt í ammoníak.

Bæði þessi efni er fræðilega séð hægt að nota sem eldsneyti en vetni er hins vegar erfitt að flytja. Því þykir fýsilegt að umbreyta því í ammoníak sem kaupendur geta svo ýmist notað sem eldsneyti eða unnið aftur í vetni. Þannig er hægt að nýta ammoníak sem „vetnisgeymslu“ eða nota það sem orkugjafa, „beint inn á kerfi sem notuð eru nú þegar til að flytja jarðefnaeldsneyti,“ segir í skýrslu Qair.

Aðallega til útflutnings

Ammoníak er framleitt úr vetni og köfnunarefni og er í dag fyrst og fremst notað til framleiðslu á áburði. Þegar ammoníaki er brennt myndast m.a. köfunarefnisoxíð og einnig myndast efni sem geta valdið rykmengun. Þá getur óbrunnið ammoníak einnig valdið mengun. „Margar rannsóknir eru í gangi til þess að draga úr þessari mengun frá vélum sem nota ammoníak beint sem orkugjafa og veðja sumar þjóðir á að ammoníak verði notað beint sem orkugjafa í framtíðinni,“ segir í skýrslu Qair.

Framleiðslan er hugsuð bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Í skýrslunni kemur hins vegar hvergi fram hver kraftur þessara eldsneyta er. Hversu margar sjómílur er hægt að sigla á ákveðnu magni eða kílómetra að fljúga. Enda eru orkuskipti í flugi og siglingum, sem rafeldsneyti sem þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir, mjög skammt á veg komin og í raun enn óvíst hvaða rafeldsneyti verði ofan á þegar fram líða stundir. Til marks um það þá ætlaði Qair einnig að kanna fýsileika bæði metan- og metanólframleiðslu á Grundartanga en hvarf frá því nokkrum mánuðum síðar.

Vilja virkja vatn og vind

Qair á Íslandi var stofnað árið 2018 með það að markmiði að þróa og reka orkuver á Íslandi. Fyrirtækið hefur kynnt áform um níu vindorkuver, sem samtals yrði um 800 MW af afli. Ekkert þeirra hefur orðið að veruleika enda á ríkið enn eftir að staðfesta lagaramma utan um vindorkunýtingu á Íslandi. En Qair ætlar sér ekki aðeins að framleiða orkuna heldur einnig nýta hana og er hin áformaða rafeldsneytisverksmiðja á Grundartanga til marks um það.

Qair er helmingshluthafi í Blæ ehf. sem rekur vetnisstöðvar á Vesturlandsvegi og að Fitjum. Þá á fyrirtækið meirihluta í orkufyrirtækinu Arctic Hydro sem áformar byggingu vatnsaflsvirkjana vítt og breitt um landið.

Á árinu 2023 endurreisti dótturfélag Qair, Háblær ehf., tvær vindmyllur í Þykkvabæ auk þess sem Arctic Hydro gangsetti nýja vatnsaflsvirkjun í Þverá við Vopnafjörð.

Qair á Íslandi er dótturfyrirtæki hins franska Qair International. Qair á og rekur vind-, sólar-, vatnsafls- og sjávarfallavirkjanir víða um lönd.

Stjórnarformaður Qair á Íslandi er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Í umhverfismatsskýrslunni er talað um að framleitt yrði „grænt vetni“ og „grænt ammoníak“ í verksmiðjunni. Er skýringin sögð sú að þegar endurnýjanleg orka er notuð við framleiðsluna og kolefnisspor hennar lágt miðað við hefðbundið jarðefnaeldsneyti er viðskeytið „grænt“ notað. Ástæðan fyrir því að bygging verksmiðjunnar og framleiðslan þykir hentug á Íslandi er endurnýjanlega orkan. Víðast hvar annars staðar er vetni framleitt með jarðefnaeldsneyti.

Niðurstaða Qair er að framkvæmdin myndi í heild hafa talsvert jákvæð umhverfisáhrif til talsvert neikvæð.

Stefnt er að því að fyrsti fasi framleiðslunnar verði gangsettur árið 2028. Annar fasi verði gangsettur árið 2031 og þriðji fasi árið 2034, með fyrirvara um nægilegt framboð af orku á samkeppnishæfu verði, líkt og það er orðað, og að uppbygging raforkuflutningskerfis verði í samræmi við áætlanir sem liggja fyrir.

Fleira áhugavert: