Geislahitunarkerfi – Í fjölmörgum húsum

Grein/Linkur:  Er geislahitun risin upp frá dauðum?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

geislahitun

Febrúar 2008

Er geislahitun risin upp frá dauðum?

Það er fullmikið sagt að geislahitun hafi nokkurn tímann dáið drottni sínum því að fjölmörg hús eru með því hitakerfi í dag, hús sem byggð voru á árunum frá 1950 – 1970. Eftir pistilinn um heimsóknina til Giacomini á Ítalíu hafi margir sperrt eyru og hvesst sjónir og spurt í undrun hvort þetta hitakerfi, geislahitun, sé að ganga í endurnýjun lífdaga.

Ef litið er til þróunar á meginlandi Evrópu virðist það vera staðreynd og þar fer þetta ítalska fyrirtæki, Giacomini, í fararbroddi, en Danir hafa einnig fetað sig inn á brautir nýrrar þróunar.

Það virðist samt vefjast nokkuð fyrir, ekki aðeins leikum heldur einnig lærðum, að grípa þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar geislahitun. Ýmsir spyrja hvort það sé ekki á móti náttúrulögmálinu að setja hitagjafann í loftið, flestum finnst það skiljanlegra að hitagjafinn sé ofn á vegg eða hiti í gólfi. Óspart er skírskotað til þess að hiti leitar upp en ekki niður, heitara loft fer upp og heitt vatn er léttara en kalt.

En örstutt varmafræði. Varmi eða hiti berst einkum á þrennan hátt, sem lofthreyfing eins og þegar heitt loft streymir upp frá ofni, með leiðni, ef málmplata er hituð með gasi streymir hitinn eftir plötunni og í þriðja lagi með geislum, þar má nefna brennuna á gamlárskvöld, varminn frá bálinu berst með geislun til viðstaddra, meira að segja á móti vindi.

geislahitun b

.

Einn er þó sá varmagjafi sem eingöngu sendir varmann frá sér með geislun og það er sjálf sólin. Enginn undrast yfir að hitna af geislum sólar, á sama hátt geta geislar frá geislahitun í lofti hitað það sem fyrir þeim verða, hvort sem það eru lifandi verur eða ýmsir dauðir hlutir svo sem húsgögn eða gólf.
En hversvegna að endurvekja geislahitun, hefur þetta hitakerfi upp á einhverja kosti að bjóða umfram önnur hitakerfi sem víða hafa verið notuð undanfarin ár?

Því er til að svara að hönnuðir, byggjendur og þeir sem reka fyrirtæki hafa verið ótrúlega einhæfir í vali á hitakerfum. Vissulega hefur gólfhitinn breytt miklu en stundum er það of seint að koma slíku hitakerfi fyrir í t.d. matvörumarkaði ef bygging er komin það langt þegar slíkri starfsemi hefur verið valinn þar staður. Afleiðingin verður oft hinn mjög svo hvimleiði hitablásari sem þeytir lofti, veldur dragsúgi og þyrlar ryki auk þess að pirra fólk allar stundir með desibelum í eyrun, oft yfir þeim mörkum sem heilbrigt er talið.

En tökum hitablásarana fyrir seinna, þeirra tími er að koma til að fá frekari gagnrýni.

En ekki meira að sinni um upprisna geislahitun, gerum henni frekari skil ef fram kemur vilji lesenda til að fræðast frekar.

Snúum okkur þá að „gömlu“ geislahituninni sem lögð var í fjölmörg hús fyrir hálfri öld eða svo. Þetta eru hús af ýmsum stærðum og gerðum, ekki síst fjölbýlishús. Það er ekki nokkur vafi á að í mörgum húsum er bullandi óánægja með geislahitunina en þá má spyrja, hvers vegna? Því er mjög auðsvarað, það er í nær öllum tilfellum vegna þess að geislahituninni hefur ekki verið haldið við, allt hefur verið látið danka og úreldast. Nú er þetta ekki að öllu leyti rétt lýsing; það er ekki geislakerfið sjálft sem hefur misst mátt sinn eða bilað, það eru stýritækin. Það eru tækin sem eiga að stjórna því hver hitinn er í kerfinu, hvert hitinn á að fara og að hver og einn íbúðareigandi geti valið sér þann hita sem honum hentar.

geislahitun aTökum eitt raunhæft dæmi. Í Reykjavík, í austurbænum vestan Elliðaáa, er 40 íbúða blokk sem nálgast það að verða hálfrar aldar gömul. Þar var lögð geislahitun hönnuð af færum verkfræðingi og lögð af hinum bestu fagmönnum. Geysistór stálketill var keyptur frá Stálsmiðjunni og auk þess vönduð olíukynding. Stýritæki voru góð eftir því sem þá gerðist en svo kom hitaveitan og þá þurfti ýmsu að breyta, þó aðallega að drepa endanlega á olíukyndingunni, ketillinn sat sem fastast. En á síðasta ári var ástandið orðið nánast óbærilegt, enginn gat stillt hitann í sinni íbúð, sumir hlutar hússins hitnuðu of mikið, aðrir hlutar allt of lítið, flestir voru óánægðir.
En þá tók húsfélagið þá ákvörðun að fá fagmenn á staðinn, stjórn geislahitunarinnar endurhönnuð, ný stjórntæki valin, stálketillinn skorinn og fjarlægður ásamt öllum gömlu stýritækjunum. Nýju stýritækin sett upp, hitastilltur loki ásamt hitastilli í hverja íbúð, kerfið stillt og gagnsett. Rafræn stöð frá Danfoss velur framrásarhitann eftir útihitastigi og það kom sér vel í þessu eindæma huldakasti sem búið er að ganga yfir land og þjóð. Að lokum sett upp skýringartafla sem getur leitt hvern þann fagmann, sem að kerfinu kemur, inn í þann raunverileika hvernig geislahitunin virkar.

Þetta sýnir að það er ekki aðeins „nýja„ geislahitunin sem virkar, sú „gamla“ getur það einnig ef hún fær rétta andlitslyftingu.

Fleira áhugavert: