Hitastýringar bila – Stúlka skaðbrenndist ..

Heimild:  ruv

 

Ágúst 2015

Mynd með færslu

Íslensk stúlka skaðbrenndist í heitum potti í Noregi. Brunasárin ná yfir tæplega 60% líkamans. Aðallega er það annars stigs bruni en að einhverjum hluta er bruninn þriðja stigs, að sögn móður stúlkunnar, Ingibjargar Sólveigar Eðvarðsdóttur.

„Hún er ótrúlega brött og ótrúlega dugleg, bara 10 ára,“ segir Ingibjörg, móðir stúlkunnar, Emmu Óskar Baldursdóttur. „Það er rosa kraftur í henni og hún er mjög sterk.“

Kunni réttu handtökin
Fjölskyldan var í sumarbústað í eigu fyrirtækisins sem Baldur Ingi Sæmundsson, eiginmaður Ingibjargar og faðir Emmu, vinnur hjá. „Hann var glænýr,“ segir Ingibjörg. „Við höfðum verið í heita pottinum daginn áður og allt var í lagi.“

„Við erum að ganga frá eftir matinn og krakkarnir voru búnir að vera að suða um að fara í pottinn. Emma fer út á undan yngri systur sinni. Svo heyrði ég bara öskur,“ segir Ingibjörg. Hún var snögg út og dreif Emmu beint inn í sturtuklefa til að kæla húð hennar niður.heitur pottur „Um leið og ég kom með hana inn í sturtuna fattaði ég hvað þetta var alvarlegt,“ segir hún. „Húðin var eldrauð og byrjaði strax að bólgna upp og svo að flagna undan vatnsrennslinu.“ Ingibjörg er sjúkraliði og áttaði sig strax á alvarleika málsins og brást alveg rétt við.

„Ég gargaði strax um að hringja á sjúkrabíl.“ Bústaðurinn sem fjölskyldan var í er nálægt smábænum Styn á vesturstönd Noregs. „Við biðum í tæpar 25 mínútur eftir sjúkrabílnum,“ segir Ingibjörg.


„Það hræðilegasta sem ég hef nokkru sinni heyrt“
„Hún grætur og öskrar svo mikið,“ segir hún. „Þetta er það hræðilegasta sem ég hef nokkru sinni heyrt.“ Vinahjón Ingibjargar og Baldurs, Jón Þorvaldarson og Berglind Vala Jónsdóttir, voru líka í bústaðnum. „Það hellist yfir mann einhver kraftur og allir duttu bara í hlutverk,“ segir Ingibjörg. „Berglind tók öll hin börnin í hinn enda bústaðsins og reyndi að dreifa athygli þeirra.“

Baldur, faðir Emmu, þurfti að keyra á móti sjúkrabílnum og opna hlið svo sjúkrabíllinn kæmist upp að bústaðnum. Ingibjörg fór aldrei frá Emmu heldur var allan tíma að kæla niður brunann. Jón hjálpaði og passaði vel upp á að hitastigið á vatninu væri rétt. Hann er fyrrverandi sjúkraflutningamaður og kunni einnig réttu handtökin, að sögn Ingibjargar. „Hann var alltaf að tékka á hitastiginu á vatninu.“ Ingibjörgu fannst þau ekki ná að sprauta vatni á nægilega stóran hluta líkama Emmu. „Þetta var svo stórt svæði,“ segir hún.

Spornuðu við að Emma færi í lost
„Síðan tökum við eftir því að hún er að blána í andlitinu,“ segir Ingibjörg. Þá fóru hún og Jón að reyna að halda hita á þeim hlutum líkamans sem ekki voru brenndir. „Við settum handklæði á axlirnar á henni og húfu á hausinn. Þá fékk hún aftur lit í andlitið og við spornuðum við því að hún færi í lost,“ segir Ingibjörg.

Sjúkrabíllinn flutti Emmu inn í Stryn þaðan sem henni var flogið í þyrlu á næsta sjúkrahús.

Brunasárin ná yfir tæplega 60% af líkama Emmu. Ingibjörg er ekki búin að fá þetta endanlega staðfest en bruninn virðist að mestu vera annars stigs. „En það er einhver hluti líka þriðja stig,“ segir hún.

Í öllu ferlinu hefur þekking Ingibjargar og reynsla sem sjúkraliði komið sér afar vel. „En líka stundum illa þar sem ég veit of mikið,“ segir hún.

Potturinn mögulega 70 gráðu heitur
VatnsbruniEkki er ljóst nákvæmlega hvert hitastigið í pottinum var. Eftir að Emma var farin með sjúkrabílnum kom í ljós að hitamælirinn í pottinum var í botni. „Hann mælir upp í 60 gráður, eiginlega 70, og hann var alveg í toppi,“ segir Ingibjörg. „Hann var byrjaður að bráðna og var fastur.“ Verið er að rannsaka hvers vegna svo heitt vatn var í pottinum sem er rafmagnspottur. Talsvert er búið að fjalla um þetta í einhverjum norsku fjölmiðlanna.

„Þetta er rannsóknarmál sem lögreglan er inni í,“ segir Ingibjörg. „Við vitum ekkert hversu mikinn skaða barnið ber það sem eftir er. Akkúrat núna er hún rosalega glöð ef hún nær að standa í smá stund og taka skref. Hún er hrikalega illa brennd.“

Ekki ljóst hvort nái sér nokkurn tíman að fullu
Ingibjörg segir litlar haldbærar upplýsingar að fá frá lækninum. „Hann gefur engar upplýsingar sem hann er ekki 100% viss um.“ Mögulega má gera ráð fyrir því að húðin geti tekið tvö eða þrjú ár að jafna sig, að sögn Ingibjargar. Það sé samt bara ágiskun og ekki sé heldur víst hvort Emma muni nokkru sinni ná sér algerlega. „Í raun og veru vitum við ekki neitt,“ segir hún.

Tengdaforeldrar Ingibjargar komu strax frá Íslandi til að aðstoða. „Við erum sex manna fjölskylda og það er því að nógu að huga.“

Fjölskyldan býr í Måløy en Emma er á spítala í Björgvin og þar á milli er um sex klukkustunda keyrsla. Þetta gerir fjölskyldunni enn erfiðara fyrir í aðstæðum sem þegar taka mikið á, að sögn Ingibjargar.

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *