Vatnstengigrind í hverja íbúð – Líkt og rafmagnstafla

Grein/Linkur: Hugsanaleti eða hvað?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

tengigrindur

.

Mars 2008

Hugsanaleti eða hvað?

Það þarf að skipta um hengilampann yfir borðkróknum. Tæplega getur það talist flókið en þó fá sumir rafvirkja til verksins. En fleiri munu þeir þó vera handlögnu heimilisfeðurnir sem telja sig fullfæra til þess og ekki nokkur vafi á að húsmóðirin gerir þetta stundum með prýði ef heimilisfaðirinn er með fóbíu gagnvart rafmagni. En það er sama hvort það er rafvirkinn, húsmóðirin eða heimilisfaðirinn sem tengir nýja lampann; öll munu þau byrja á því að opna töfluskápinn og slá út viðkomandi öryggi, það er sjálfsögð varúðarráðstöfun. Þetta eru mikil þægindi enda íbúðin á níundu hæð. Það hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni að tengja rafmagnið þannig að það þurfi að fara niður í kjallara til að slá út rafmagni í eldhúsinu svo hægt sá að skipta um eitt lítið loftljós. En daginn eftir þurfti að gera svolítið meira.

Tengikraninn undir klósettkassanum tók skyndilega upp á því að leka, bali var settur undir en það dugði skammt. Hvað á að taka til bragðs, hugsar húsmóðirin ráðagóða, er ekki einhvers staðar einhver kassi eða skápur í íbúðinni þar sem ég get lokað fyrir vatnið eins og þegar rafmagninu í eldhúsinu var slegið út? Þetta gæti allt eins hafa verið ofn sem skyndilega fór að leka, hvar á að loka fyrir vatnið á ofnakerfið? Þá mun íbúðareigandinn komast að því að það er hvergi hægt að loka fyrir ofnakerfið, ekki fyrir kalda vatnið eða heita vatnið inni í íbúðinni, en hvar þá? Það var hvergi hægt að loka fyrir lagnakerfin nema í inntaksklefanum og hvar skyldi hann vera? Eflaust niðri í kjallara og það tekst, það er lokað fyrir kalda vatnið í fjörutíu íbúðum af því að einn lítill krani á níundu hæð er bilaður. En hvers vegna er þetta ekki eins og með ragmagnið, hvers vegna getur ekki hver og einn íbúðareigandi farið inn í skáp og lokað fyir hitakerfið í sinni íbúð og á sama hátt fyrir heita og kalda vatnið og komist þannig hjá því að setja allt í uppnám í allri blokkinni út af einum litlum krana? Vissulega gæti þetta verið þannig og eflaust halda margir að þetta sé bara gamall arfur, þannig sé þetta í gömlu blokkunum, í þeim nýrri sé þetta allt öðru vísi. En því miður er það ekki svo, þetta er síst betra í þeim nýju.

rafmagnstafla

Rafmagnstafla

Það hafa verið byggðar blokkir á undanförnum árum þar sem eru tugir íbúða með á annað hundrað ofnum, sameiginlegt hitakerfi í öllu húsinu. Ef einhverju þarf að breyta í einni íbúð verður að loka fyrir allt kerfið. Ef einn íbúðareigandi vill endurbyggja eldhúsið eða baðið kemur það sama í ljós, það verður að loka fyir heitt og kalt vatn í allri blokkinni meðan vatnslögnum er breytt. Þó að þetta sé miklu minni sambýli, segjum sex til tíu íbúðir, getur þetta samt verið til mikilla óþæginda. Þarf þetta að vera svona, er ekki hægt að hafa þetta eins og með rafmagnið, að loka fyrir í hveri íbúð? Það er svo sannarlega hægt að hafa þetta þannig en það er yfirleitt ekki gert. Enn er verið að byggja sambýlishús með þessu gamla lagi, eitt sameiginlegt hitakerfi í fjölmörgum íbúðum, það kerfi er ekki hægt að stilla nema komast í allar íbúðirnar í einu, það er aðeins hægt að loka fyrir heitt og kalt vatn í inntaksklefum.

Og hver er ástæðan? Ástæðan er sú að þannig var þetta hannað í gær og fyrradag, í fyrra og fyrir tugum ára, þannig er það hannað í dag og verður líklega á morgun. Þarna er tregðulögmálið í gangi eða eigum við að segja hugsanaleti. Það væri vel hægt að hanna lagnakerfi í fjölbýlishús þannig að hægt væri að loka fyrir öll lagnakerfi innan hverrar íbúðar og reyndar má túlka byggingarreglugerðina frá 1998 þannig að þetta sé skylda en því miður er hún ekki nógu afgerandi í orðalagi. Reyndar virðist vera það ljós í myrkrinu að þar sem gólfhitakerfi eru hönnuð og lögð í fjölbýlishús þá sé þetta nánast sjálfgefið; að hægt sé að loka fyrir gólfhitakerfi hverrar íbúðar og stilla gólfhitakerifð sem sjálfstætt kerfi án þess að það hafi áhrif í öðrum íbúðum. Þá þarf að fylgja því eftir að þannig sé það einnig með heitt og kalt neysluvatn, það á einnig að vera hægt að loka fyir þau lagnakerfi í heild á einum stað í hverri íbúð.

Líklega má segja hönnuðum það til afsökunar að þeir séu oft undir hælnum á húsbyggjandanum sem telur oft, án þess að hafa skoðað það nánar, að það hleypi upp kostaði að gera hlutina öðruvísi í dag en gert hefur verið áður. Ef menn settust niður og skoðuðu málið kæmust þeir líklega að þeirri niðurstöðu að svo þarf alls ekki að vera. En það eru einnig til hönnuðir sem hafa tekið upp þá reglu að hanna lagnakerfi þannig að hægt sé að loka fyrir lagnakerfi í hverri íbúð, en þetta ætti að verða regla allra. Og kaupendur nýrra íbúða, þið eigið að vera hnýsnari og kröfuharðari. Spyrjið fleiri spurninga eins og þessarar; er hægt að loka fyir öll lagnakerfi inni í íbúðinni? Það er mikill plús, það gagnstæða mjög neikvætt.

Fleira áhugavert: