Seyrustaðir – Afvötnuð, kölkuð, nýtt

Grein/Linkur: „Synd að nýta ekki þau næringarefni sem eru í seyrunni“

Höfundur: Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir

Heimild:

.

.

Ágúst 2022

„Synd að nýta ekki þau næringarefni sem eru í seyrunni“

Seyrustaðir voru opnaðir formlega í vikunni á Flúðum. Þar er seyra afvötnuð og kölkuð og nýtt til landgræðslu á Hrunamannaafrétti. Sveitarstjóri Hrunamannahrepps segir góðan árangur af því að nota kalkaða seyru til landgræðslu.

Seyra eru föst efni sem skilin eru frá fráveituvatni. Rotþrær í Uppsveitum Árnessýslu, Ásahreppi og í Flóa hafa verið hreinsaðar og úrgangurinn notaður til landgræðslu síðan 2011. Á starfssvæði nýju móttökustöðvarinnar á Seyrustöðum eru um níu þúsund rotþrær sem eru hreinsaðar á þriggja ára fresti hver. Móttökustöðin gefur rekstrinum annað og betra yfirbragð að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur sveitarstjóra Hrunamannahrepps. Þetta landgræðsluverkefni hafi tekist afskaplega vel. „Það er virkilega gaman að sjá að það er góður árangur af því að nota seyru sem hefur verið kölkuð með þessum hætti þannig að það sést verulega sjáanlegur munur á þeim svæðum þar sem seyrunni hefur verið dreift upp á afrétti og svo miðað við þá þau svæði þar sem það hefur ekki verið gert,“ segir Aldís.

Með því að kalka seyruna er óhætt að dreifa henni á yfirborðið án smithættu. Hún segir það hafa verið mikilvægt að finna annan farveg fyrir úrganginn úr rotþrónum. „Fyrir nokkrum árum hefðu mörgum þótt óhugsandi að dreifa seyru úr rotþróm á örfokaland til þess að græða það upp. En við erum flest öll búin að uppgötva það að hringrásarkerfið virkar þannig að við þurfum að nýta allt sem frá okkur kemur með einum eða öðrum hætti. Það væri mikil synd að nýta ekki þau næringarefni sem eru í seyrunni,“ segir Aldís.

Fleira áhugavert: