Fráveitukerfið, sagan – Krókódílar, skjaldbökuveiðar, viðhald, öryggi

Grein/Linkur: Sumir æla um leið og þeir sjá kúk

Höfundur: Oddur Freyr Þorsteinsson, Fréttablaðinu

Heimild:

.

.

Ágúst 2021

Sumir æla um leið og þeir sjá kúk

Sveinbjörn Sveinbjörnsson er ekki sérlega klígugjarn og segist hættur að finna lyktina af skólpi, en hann hefur sinnt holræsum Reykjavíkur frá árinu 1974. Hann segir að holræsin séu ekkert eins og fólk heldur. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTARGEIRSSON

Sveinbjörn Sveinbjörnsson hefur sinnt viðhaldi á holræsum Reykjavíkurborgar í 47 ár og segir að þar þýði ekki að vera klígjugjarn. Hann segir að holræsin séu ekkert eins og í bíómyndum, en helstu vandamálin tengist loftslagsbreytingum og blautþurrkum.

Sveinbjörn er lærður pípulagningamaður og hefur starfað í holræsum Reykjavíkur frá því hann byrjaði sem sumarstrákur hjá Reykjavíkurborg árið 1974. Í dag starfar hann hjá fyrirtækinu Veitum sem tók yfir umsjón með skólpkerfinu. Sveinbjörn segir að hann hafi séð gríðarlegar framfarir í starfinu, en hlutverk hans er að sjá um kerfið sem liggur milli húsa í borginni og dælustöðvarinnar sem hreinsar skólpið. Hann segir líka að fólk hendi bókstaflega öllu í klósettið, jafnvel þó að ekkert eigi að fara í það nema líkamlegur úrgangur og klósettpappír.

„Fráveitukerfið virkar þannig að þú ert með klósett og vask heima hjá þér sem er tengt við kerfið okkar, sem skiptist í regnvatns- og skólpkerfi. Skólpið fer í gegnum þetta kerfi og út í dælustöð þar sem það er hreinsað og úrgangurinn fer svo upp í Álfsnes í urðun. Síðan er 98% hreinu skólpvatni dælt út í sjó,“ útskýrir Sveinbjörn. „Það sem veldur oftast hökti í kerfinu eru blautþurrkur og annað slíkt. Það er að mínu mati mesta vandamálið í dag. Eftir 30-40 ár, jafnvel fyrr, verður skólp hætt að fara út í sjó, en ástæðan fyrir því að svo er enn er að fólk er umhverfissóðar. Fólk þarf að átta sig á að allt sem við gerum hefur afleiðingar.“

Engir krókódílar

Sveinbjörn segir að holræsin séu ekki neitt eins og í bíómyndunum.

„Það eru engir krókódílar og að minnsta kosti ekkert margar geislavirkar skjaldbökur,“ segir hann í gríni. „Ég verð samt var við maura. Þegar lagnir eru farnar að gefa sig er það möguleiki, en það lagast ef gert er við. En þeir eru oft fyrsti vísirinn að því að það þurfi að skoða lagnirnar.“

Sveinbjörn segir að ekkert við holræsin hafi komið honum sérstaklega á óvart.

Sveinbjörn með afkomendum undrafisksins Undra, sem lifði af ferðalag gegnum skólpkerfið alla leið í hreinsistöðina í Klettagörðum. FRÉTTABLAÐIÐ/ ÓTTAR

.

„Þetta er bara vinna og ef þér líkar ekki vinnan hættirðu strax. Ég vil meina að ástæðan fyrir því að fólk endist hér í áratugi sé að vinnufélagarnir eru svo skemmtilegir. En við fáum stundum menn sem fara að æla um leið og þeir sjá kúk. Það má ekki vera klígjugjarn. En að því sögðu þá er það versta sem ég hef séð græni kúkurinn sem kom úr börnunum mínum þegar þau voru lítil, það er það sem stendur upp úr í minningunni, ekki neitt sem ég hef séð í holræsunum,“ segir hann. „Fólk er líka oft að tala um rottur og svona en þær eru ekki í þessu mikla magni sem fólk heldur. Við erum dugleg að laga kerfið til að koma í veg fyrir að meindýr komist í lagnir.“

Stoppuðu skjaldbökuveiðar

Sveinbjörn segir að fólk sem á ekki erindi í holræsin fari ekki þangað niður en að sú hafi ekki verið raunin þegar geislavirku skjaldbökurnar úr Teenage Mutant Ninja Turtles voru sem vinsælastar.

„Áður voru brunnlok léttari en í dag og þá gátu krakkar opnað þá. Þegar skjaldbökuæðið var sem mest áttum við í vandræðum með krakka sem voru að fara þarna niður. Við þyngdum þá lokin til að koma í veg fyrir að þau kæmust niður,“ segir hann.

Fólk hendir öllu

Sveinbjörn segir að það sé alltof algengt að hlutir sem eiga ekki að fara í klósettið endi þar.

„Eitt dæmi er gullfiskur sem við tókum úr kerfinu, en hann fór með skólpkerfinu alla leið í hreinsistöðina í Klettagörðum,“ segir Sveinbjörn. „Hann var kallaður Undri og lifði hátt í 20 ár í fiskabúri hjá okkur og nú erum við með afkomendur hans í búri hjá okkur. Við höfum líka tekið ýmislegt fleira úr kerfinu og höfum það til sýnis í kössum.

Ýmislegt sem hefur verið veitt upp úr kerfinu er haft til sýnis. Glöggir lesendur taka ef til vill eftir gervitönnunum efst í þessum fituklumpi. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

.

Fólk hendir öllu og missir allt. Við höfum oft náð að redda fólki með því að taka til dæmis síma, hringi eða veski upp úr niðurföllum, en því miður fer það stundum inn í kerfið og sést aldrei aftur,“ segir Sveinbjörn. Hann hefur ekki orðið var við neitt ólöglegt í holræsunum, en segir að það mælist kókaín og fleiri ólögleg vímuefni í sýnum sem eru tekin úr holræsunum.

Fitulyktin finnst niðri í bæ

Sveinbjörn segist ekki finna neitt fyrir lyktinni í ræsunum, líklega af því að hann er vanur.

„En það ógeðfelldasta í ræsunum er fitan,“ segir Sveinbjörn og andvarpar þungt. „Við megum vera miklu harðari í að tryggja að fyrirtæki séu með fitugildrur. Niðri í bæ finnurðu oft lyktina af fitunni í ræsinu fyrir utan góða matsölustaði með djúpsteiktan mat. Hún flýtur alltaf ofan á og ef lögnin er ekki þeim mun betri og beinni getur fitan skapað fyrirstöðu og svo stíflu. Við höfum ekki lent í risastórum fituklumpum eins og sums staðar erlendis en þeir geta engu að síður orðið ansi myndarlegir.

Það sem heldur kerfi borgarinnar gangandi er að í upphafi voru lagðar mjög breiðar lagnir, en elstu lagnirnar sem eru í notkun voru lagðar af nunnum við Landakot um þar síðustu aldamót. Heima hjá mér er til dæmis lögn sem er nógu stór fyrir 100 manna hótel,“ segir Sveinbjörn. „Ef lagnirnar væru ekki svona góðar myndu þær ekki þola þetta magn úrgangs sem fer þarna niður. Sums staðar má til dæmis ekki sturta klósettpappír niður.“

Loftslagsbreytingar til vandræða

„Þegar ég byrjaði vorum við í öllu. Reykjavíkurborg var með fráveitu á sínum snærum og við vorum að leggja nýjar lagnir og gera við það sem var skemmt. Breytingarnar frá því ég var ungur hafa verið gríðarlegar, vinnutíminn hefur skánað mjög mikið og í dag notum við betri efni og ýmislegt annað. Ég get varla lýst framförunum. Fyrir rúmum 20 árum fór skólpið bara út í sjó og ef við förum aðeins lengra aftur í tímann rann skólp niður eftir Lækjargötu. Mér finnst við vera að þróast í rétta átt,“ segir Sveinbjörn kíminn. „Í dag er líka mikið lagt upp úr öryggi, en í gamla daga sköffuðum við hins vegar vinnufötin sjálfir. Menn komu í vinnuna með vinnufötin og þurftu að fást við þrifin sjálfir.

Sveinbjörn segir að það sem valdi oftast hökti í kerfinu séu blautþurrkur og annað slíkt og að ef fólk væri minni umhverfissóðar færi ekkert skólp út í sjó. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

.

Mesta breytingin sem hefur orðið er að í gamla daga komu fjórar árstíðir og það var snjór í borginni frá því í september fram í apríl. Núna festir varla snjó í Reykjavík,“ segir Sveinbjörn. „Þetta er gríðarlega mikil breyting, því ef það rignir yfir vetrartímann og það er frost í jörðu rennur allt vatn ofan á grasi út á götu, sem getur valdið auknu álagi á regnvatns- og fráveitukerfið. Þetta er afleiðing af loftslagsbreytingum sem við erum að upplifa.“

Ekkert Covid þrátt fyrir nálægð

„Í dag er passað vel upp á öll þrif og þær sóttvarnir og þrif sem almenningur hefur þurft að venjast eftir að Covid kom eru ekkert nýtt fyrir okkur. Það fer enginn skólpmengaður heim, við þrífum okkur eftir hvern dag og vinnufötin eru þvegin í vinnunni. Fólkið hér verður líka mjög sjaldan veikt, því það þrífur sig svo mikið,“ segir Sveinbjörn. „Allir sem eru smitaðir af Covid nota samt klósett þannig að við erum í rauninni alltaf í nálægð við þetta, en það hefur enginn starfsmaður smitast af Covid.“

Sumir gera meira en þeir kunna

„Viðhaldsvinnan sem fer fram á holræsum borgarinnar snýst mjög oft um að losa stíflur. Ef hús stíflast er það yfirleitt vegna þess að lagnir eru gamlar og þá þarf að skipta um eða gera við. Við fóðrum rosa mikið og erum með verktakafyrirtæki sem hjálpa við það,“ segir Sveinbjörn. „Það voru samþykkt lög á Alþingi árið 2009 sem segja til um að fólk geti afsalað lögn frá lóðamörkum að stofni til orkuveitunnar og þá er það okkar hlutverk að laga þann hluta, en húseigendur laga lagnir frá lóðamörkum og inn í hús.

Það eru strangar öryggisreglur varðandi búnaðinn sem er notaður þegar fólk fer ofan í brunna til að sinna viðhaldsvinnu. MYND/AÐSEND

.

Það er líka annað sem kemur oft fyrir. Fólk er duglegt að beita „íslensku aðferðinni“ og redda sér sjálft. Íslendingar eru mjög duglegir við að gera hluti sem þeir halda að séu réttir,“ segir Sveinbjörn léttur. „Eitt besta dæmið var þegar pípari þræddi lögn inn í stofninn og stíflaði hann. Fólk gerir stundum meira en það kann og stíflar þannig kerfið.“

Strangar öryggiskröfur í dag

Sveinbjörn segir að það séu strangar öryggisreglur til staðar í dag þegar fólk fer ofan í brunna til að sinna þessari viðhaldsvinnu.

„Maður er í viðeigandi búnaði, með grímu yfir öndunarfærunum, gleraugu og hjálm og allt sem þarf. Ef brunnar eru dýpri en 1,5-2 metrar förum við líka í fallvarnarbelti og tryggjum að það sé hægt að hífa okkur upp ef þörf krefur. Ef hann er dýpri eru svo enn meiri kröfur gerðar,“ segir hann. „Þetta er dæmi um breytingarnar frá því í gamla daga, þá þótti ekkert mál að fara ofan í 3-4 metra djúpan brunn án þess að vera í neinum græjum. Ég man samt ekki eftir að neinn hafi slasast alvarlega. Það þurfti bara að læra að gera þetta rétt.“

En Sveinbjörn segir að það sé orðið frekar sjaldgæft að starfsfólk þurfi að fara ofan í brunna.

„Það er aðallega ef eitthvað fer úrskeiðis, til dæmis ef íslensku aðferðinni er beitt og eitthvað er vitlaust tengt. Þá veiðum við klósettpappír úr regnvatnslögnum til að finna vandann,“ segir hann.

Fleira áhugavert: