Hreinlætistæki – Er hægt að lagfæra emileringu?

Heimild:

.

Febrúar 2004

Spurning: Hvernig er best að þrífa gömul baðker og gamla sturtubotna, sem hafa látið á sjá með árunum. Er til dæmis hægt að emilera baðker upp á nýtt?

Svar: Hjá Vatnsvirkjanum fengust þær upplýsingar að enginn taki lengur að sér að emilera gömul baðker upp á nýtt, enda muni það ekki svara kostnaði. Sé um litla skemmd að ræða, t.d. höggvið upp úr glerungnum, er hægt að fá efni til viðgerða á því. Efnið heitir Enamel Fix og er frá Bison. Það er lakkað yfir skemmdina með litlum pensli, líkt og naglalakk. Nauðsynlegt er að hreinsa blettinn vel þannig að hann sé laus við alla fitu áður en lakkað er.

Í síðasta Fasteignablaði var sagt frá hjónum sem náðu góðum árangri við þrif á baðherbergistækjum með ræstikreminu Double Play frá Besta, en það vinnur á uppsöfnuðum óhreinindum, s.s. fitu, gúmmíförum, kísil og sápuskánum. Það má nota á postulín, keramik, ryðfrítt stál, króm, formica, trefjagler og aðra fleti. Leiðbeiningar um notkun eru á íslensku á bakhlið brúsans, en það fæst m.a. í Húsasmiðjunni.

Spurning: Er hægt að mála fúgur á milli flísa, eða lita þær á annan hátt. Ég er með gráar fúgur í hvítum flísum, og hefði viljað hafa þær hvítar eins og flísarnar.

Svar: Guðmundur Hallsteinsson múrarameistari segir að það sé hægt að mála fúgur, en það sé mikið þolinmæðisverk og vandasamt. Hann mælir fremur með því að fúgað sé upp á nýtt. Það er ekki nauðsynlegt að fjarlægja alla fúguna, heldur dugar að fara 3 mm inn í fúguna og fúga síðan upp á nýtt með varanlegu efni. Til eru verkfæri sem má nota í þetta verk, og hægt er að fá þau á leigu hjá verkfæraleigum. Einnig er hægt er að skafa fúguna t.d. með dúkahníf, en það er mjög seinlegt. Guðmundur telur að það sé mun betri og varanlegri lausn að fúga upp á nýtt heldur en að mála fúgurnar.

Fleira áhugavert: