Viðhald – Þjóðarmein, slóðaskapur

Grein/Linkur: Uppsafnaður slóðaskapur fyrri eigenda

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Image result for leaking houses

.

Apríl 2004

Uppsafnaður slóðaskapur fyrri eigenda

 Loksins eftir langa og stranga leit tókst ungu hjónunum að fá leigða litla íbúð í kjallara einhversstaðar í eldri hverfum höfuðborgarinnar.

Þau voru alsæl þegar þau settust loksins niður eftir flutning á fátæklegri búslóð, eiginmaðurnn lagði lófa að bústnum maga ungu eiginkonunnar og dæsti.

„Hér mun okkur líða vel.“ Þá var bankað og í dyrunum stóð húseigandinn, enn með umburðarlynda brosið á vörum. Hann rétti fram reikning en stóreygður húsbóndinn ungi stundi.

„Við erum búin að borga hálft ár fyrirfram.“ „Veit ég vel sveinki, en þetta er fyrir síðasta eitt og hálft árið, fyrri leigjendur svikust um að borga og eru hlaupin úr landi.

Nú verður þú að borga, um annað er ekki að ræða.“

Gæti þetta verið sönn saga? Nei, sem betur fer ekki, hverjum dettur slíkt í hug. En þó er hún að gerast nær daglega, aðeins með með öðrum formerkjum.

Ungu hjónin voru ekki að flytja inn sem leigjendur, heldur sem eigendur, þau höfðu keypt íbúðina.

Sá sem stóð í dyrunum var ekki leigusali heldur formaður húsfélagsins.

Hann var að tilkynna að húsfélagið hefði ákveðið kostnaðarsamar framkvæmdir, loksins, loksins, kostnaðinum að sjálfsögðu jafnað niður á eigendur, líka þá sem voru að flytja inn. Þess vegna er sagan sönn, því miður.

Það hefur gerst margsinnis og á illu heilli eftir gerast oft í viðbt.

Fólk kaupir íbúð í eldra húsi og heldur að allt sé í lukkunnar velstandi.

En svo hellast ósköpin yfir. Gluggarnir í blokkinni eru ónýtir, eða skólplögnin í grunninum, kannski þaksperrur fúnar, já og svalirnar morknar, eða þá að þakjárnið má taka í nefið.

Húsfélagið samþykkir að hella sér út í dýrar framkvæmdir, kostnaði jafnað niður.

Á ungu hjónunum, sem voru að flytja inn, skellur kostnaður upp á hálfa aðra milljón.

Hvað hafði hann borgað sem bjó áður í tíu ár í íbúðinni, spyrja þau.

Ekki krónu er svarið, hér hafa ekki verið neinar framkvæmdir síðustu fimmtán árin.

En lögðu íbúðareigendur ekki í framkvæmdasjóð árlega til að mæta væntanlegum framkvæmdum? spyr unga fólkið örvinglað.

Formaður húsfélagsins horfir á þau forviða og segir að auðvitað hafi engum dottið í hug að skattleggja íbúðareigendur þegar ekkert var verið að framkvæma.

Þjóðarmein

Kannast einhver við söguna? Er þjóðin að vakna? Fyrir skömmu var haldinn athyglisverður fundur í Tækniháskólanum í Reykjavík. Fundarefninu hefur að nokkru verið lýst hér að framan. Þessu þjóðarmeini Íslendinga; að láta eigur sínar grotna niður og eyðileggjast án þess að hreyfa legg eða lið. Hér er auðvitað átt við fasteignir, hús, húsið sem hver og einn hefur lagt aleiguna í.

Öðru máli mundi gegna ef þetta væri bíllinn, hann væri smurður, fágaður og pússaður og drifinn í viðgerð ef minnsti grunur væri um bilun.

Geymdur í góðu skjóli hverja nótt í umhleypingasömum veðrum í bílageymslunni sem fylgir blokkinni. En auðvitað er bílageymslan að molna niður eins og blokkin í heild.

En í þessari sömu blokk er aleigan, íbúðin sem búið er í, höfuðstóll fjölskyldunnar.

Það merkilegasta við fundinn í Tækniháskólanum var ekki endilega þau fjögur athyglisverðu erindi sem þar voru haldin um viðhald fasteigna, um fyrirbyggjandi viðhald og um nauðsyn á að strax frá því byggingu lýkur fái hver bygging viðhaldsvörð.

Voru þó erindin hin ágætustu og bentu rækilega á nauðsyn þess sem að framan var talið.

Nei, það athyglisverðasta var sá fjöldi sem kom á fundinn. Tæplega var búist við því fyrirfram að salurinn í Tækniháskólanum mundi fyllast á fundi þar sem umræðuefnið var fyrirbyggjandi viðhald fasteigna, nokkuð sem Íslendingar hafa haft sáralítinn áhuga á til þessa.

Það vaknar jafnvel sá grunur að það sé að verða þjóðarvakning, er fólk að vakna upp við það að það verður að leggja til hliðar litla upphæð árlega frá því að byggingu hússins lýkur til að mæta væntanlegu viðhaldi? Menn borga möglunarlaust það sem það kostar að reka bíl, svona 3/4 úr milljón á ári. En það er hægt að halda við hinni ágætustu blokkaríbúð við í áratugi með því að leggja til hliðar 1/4 úr milljón.

En nú sortnar mönnum fyrir augum og vel það.

En þá koma heldur aldrei nein stórútgjöld, þegar að stærra viðhaldi kemur eru peningar til í sjóði, engin lán, enga vexti að greiða.

En þá verður líka að vakta húsið, það þarf skoðun eins og bíllinn.

Fleira áhugavert: