Ofnakerfi – Leki í sex ára gömlu húsi, orsökin?

Grein/Linkur: Hver getur orsökin verið þegar ofnar fara að leka í sex ára gömlu húsi?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

ofn

.

Apríl 2011

Hver getur orsökin verið þegar ofnar fara að leka í sex ára gömlu húsi?

Þetta gerðist í húsi í Þorlákshöfn. Þegar ég kom að málinu var búið að skipta um tvo ofna sem skyndilega fóru að leka. Ekki var óeðlilegt að sumir vildu kenna því um að ofnarnir væru gallaðir, en gat fleira komið til greina?

Lýsing á ofnakerfinu

Ofnar voru panelofnar, innfluttir frá viðurkenndum framleiðanda í Danmörku . Hitakerfið var lokað kerfi með varmaskipti, rörin voru 12 mm plaströr í kápu, hefðbundin rör-í-rör lögð í gólfplötu. Hitagrind var í bílskúr, framrás og bakrás beint frá hitagrind að hverjum ofni.

Gömul sannindi

Ég var talsvert viðloðandi sænska fyrirtækið Esem Plast AB á þeim árum sem plaströrin voru í mikilli þróun um 1970 og pexrör voru að koma á markað. Undanfari þeirra voru svokölluð „Strongrör“ úr gervigúmmí og náðu þau fljótt mikilli útbreiðslu. Eftir tiltölulega stuttan notkunartíma Strongröranna fór að bera á pyttatæringu á panelofnum og það má segja að þetta hafi orðið faraldur, framleiðendum röranna til mikillar skelfingar því fljótlega fóru böndin að berast að þeim sem orsök sem enginn þó skyldi, sama varð upp á teningnum þegar farið var að nota pexrör.

Lausnin fannst

ror-rorÁstæða pyttatæringar í ofnunum var, sérfræðingum til mikillar undrunar, að í þessum ofnakerfum hlóðst upp súrefni. Hvaðan kom það? Þá var gerð sú tímamótuppgötvun að plaströr og önnur rör úr gerviefni voru ekki alveg þétt. Þau héldu vissulega vatni en það sannaðist að lofttegundir gátu smogið um röravegginn, þannig komst súrefnið inn í kerfið, en þetta voru allt lokuð kerfi með sama vatni í hringrás. Afleiðingin pyttatæring í ofnum.

Var þetta ástæðan í Þorlákshöfn?

Ég skoðaði plaströrin sem voru aðgengileg við hitagrindina. Eftir að hafa kannað málið hjá þeim sem byggði húsið fékk ég upplýsingar um innflytjandann og seljanda röranna. Eftir nokkra eftirgangsmuni fékk ég tæknilegar upplýsingar um rörin og þar varð ekki annað séð en að 12 mm pexrör í kápu af þessari gerð væru ekki með súrefniskápu. Ég hafði samband við framleiðandann á Ítalíu og hann staðfesti að öll 12 mm rör sem þeir framleiddu væru ekki með súrefniskápu. Með þessar upplýsingar í höndum gerði ég skýrslu um mina úttekt og fullyrti að sannað væri að rörin væru með þeim galla, án súrefniskápu, að ekki væri annað til ráða en skipta um þau.

Niðurstaða

Innflytjandi röranna gekkst við sinni ábyrgð. Sem betur fer var rör-í-rör lögnin það vel lögð að vandalítið reyndist að draga út 12 mm rörin og önnur pexrör inn í kápurörin sem örugglega voru með súrefniskápu. Að þessu unnu pípulagningamenn sem fengu mikið hrós húseigenda fyrir snyrtilega umgengni. En hefðu þeir fagmenn, sem upphaflega lögðu rör-í-rör kerfið, átt að gera sér ljóst að þeir væru að leggja pexrör án súrefniskápu? Tæplega verða þeir ásakaðir fyrir aðgæsluleysi. Pexrör af þessari stærð, 12 mm, eru aldrei notuð til annars en í ofnakerfi. Hver fagmaður gengur út frá því sem gefnu að öll 12 mm, pexrör séu með súrefniskápu, engum dettur í hug annað en svo sé. En hvað um ofnana, var ekki líklegt að þeir sem ekki voru farnir að leka væru tæpir? Ekki nema eðlilegt að sú spurning kæmi upp. Lausnin var að allir ofnar kerfisins voru prófaðir með 6 bara þrýstingi og þeim sem þoldu það gefið heilbrigðisvottorð. Allir ofnarnir stóðust prófið.   

Fleira áhugavert: