Samræmingahönnun – Arkitektar
.
Nóvember 1996
Arkitektinn má ekki einangrast við teikniborðið. Arkitektar hafa meiri skyldur en aðrir hönnuðir. Þeir eiga að gæta þess að verk hinna mörgu hönnuða og iðnaðarmanna rekist ekki á. ÝÐING hönnunar allra hluta, ekki síst í húsbyggingum, hefur alla tíð þótt mikilvæg þó ekki fari hjá því að arkitektum finnist þeir stundum afskiptir, þekking þeirra og starfsmenntun sé ekki nýtt sem skyldi.
En það er ekki síður nauðsynlegt að arkitektar taki sjálfa sig til gagnrýnnar skoðunar og e.t.v. má segja að stundum hafi þeir haft tilhneigingu til að hefja sig upp á hærri pall, upp fyrir aðra sem að hönnun og húsbyggingum vinna.
Nú er það svo að arkitektum eru lagðar meiri skyldur á herðar en öðrum hönnuðum bygginga. Þeir eiga að samræma vinnu allra annarra og gæta þess að verk hinna mörgu hönnuða og iðnaðarmanna rekist ekki á með auknum töfum og kostnaði.
Í hvert hús þarf að leggja hitakerfi, neysluvatnskerfi heit og köld, raflagnir, síma- og fjarskiptalagnir, svo það helsta sé nefnt. Allar fara þessar lagnir í gegnum veggi og plötur hússins og þar við bætist burðarvirkið, sem er að sjálfsögðu eitthvað það mikilvægasta, það á að tryggja styrk hússins fyrir margskonar álagi af veðrum og náttúruhamförum.
En hefur þessi skylda verið uppfyllt, hefur arkitektinn samræmt alla þessa hönnun?
Það hefur verið misbrestur á því, sumir arkitektar fylgjast grannt með samræmingu þegar aðrir sinna þessu lítið eða alls ekki.
En það er fleira sem arkitektar geta tryggt en samræming hönnunar. Þegar þeir eru að skipuleggja grunnplan byggingar, segjum íbúðarhúss, er ýmislegt sem hann þarf að taka meira tillit til en almennt hefur verið gert fram að þessu.
Koma arkitekti lagnir við?
Vissulega, tökum tengiklefann sem dæmi. Þar eru inntök á heitu og köldu vatni, rafmagni og síma og öðrum fjarskiptaleiðslum. Það heyrir til undantekninga ef tengiklefinn er skipulagður sem slíkur.
Oftar en ekki er hann eitthvert afgangsrými undir tröppum eða eitthvert pláss á vegg í bílskúr, engin athugun fer fram á því hvaða rými raunverulega þarf fyrir þessar tengingar, rými sem gerir mögulegt að komast að öllum ventlum og tækjum á auðveldan hátt.
Í öðru lagi eru það votrýmin, það er mjög æskilegt að þau séu sem fæst eða réttara sagt samliggjandi í hverri íbúð.
Í þriðja lagi er það planlausnir í votrýmum, einkum í böðum. Það er ótrúlegt að það skuli sjást enn þann dag í dag að arkitekt ætlist til þess að frárennslis- og vatnsstofnar séu lagðir í raufar á burðarveggjum. Með góðri planlausn er mögulegt að allar lagnir séu í aðgengilegum lagnastokkum og nú eru komin á markað kerfi sem gera það mögulegt að byggja upp falska veggi úr stál- eða álprófílum sem geta myndað sérstæða veggi þar sem leiðslurnar eru í en aðgengilegar, lága veggi, það er ekki alltaf nauðsynlegt að handlaug eða salerni séu upp við einhvern af hinum fjórum veggjum baðherbergisins.