Innmúruð baðkör – Skemmdar lagnir

Heimild:  

.

Júní 1995

„Auk þess legg ég til, að Karþagó verði lögð í eyði“

Sá lífseigi háttur að múra inn baðker á stóran þátt í fórnarkostnaðinum vegna skemmdra lagna.

Það er ef til vill að bera í bakka fullan lækinn að tuða enn gegn innmúruðum baðkerum, en stundum telja menn sig svo vissa í sinni sök eða hafa svo ákveðnar skoðanir (og réttar að eigin áliti) að þeir predika þær hvar og hvenær sem er, eða var það ekki Kató hinn gamli sem lauk hverri ræðu með orðunum „auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í rúst“.

Predikunin hér gengur ekki út á að leggja eitt né neitt í rúst, sem skynsamlegt er. Þvert á móti að leggja lóð á þá vogarskál, sem mælir með skynsamlegum vinnubrögðum og kemur í veg fyrir skaða, óþægindi og fjárútlát síðar meir. Það er ekki hægt að neita því, að sá lífseigi háttur að múra inn baðker og byggja um þau múrvirki er einn af stóru þáttunum í fórnarkostnaði vegna skemmdra lagna.

Hér er aðeins verið að reka áróður fyrir að leggja í rúst heimskuleg vinnubrögð, sem hafa kostað húseigendur stórfé og sár leiðindi á umliðnum árum.

Fyrir mörgum áratugum voru fáanleg baðker með lausum svuntum og göflum, en þróunin hefur orðið svo sérkennileg að þau fást ekki lengur hérlendis; ef einhver vill kaupa slík ker verður hann að sérpanta þau frá útlöndum. Sú rökvilla veður líka uppi að baðker með svuntu, baðker sem ekki á að múra inn, séu dýrari en innmúringarkerin. Þá bera menn saman innkaupsverð tækjanna, en gleyma að reikna heildina; hvað kostar múrverkið á staðnum?

En það er til millivegur milli innmúraðs baðkers og baðkers með lausri svuntu.

Enn frá Frankfurt 

Sú mikla lagnasýning, Frankfurt-sýningin, ætlar að verða lífseig í minningu þeirra sem gengu sig upp að hjám í nokkra daga í mars til að vera vissir um að missa ekki af neinu.

Eitt af því er nýr máti í uppsetningu baðkers, sem kalla má milliveg milli innmúraðs kers og kers með lausri svuntu, máti sem hefur kosti beggja aðferða.

Þó myndir segi efalaust meira en orð verður ekki komist hjá því að lýsa aðferðinni í nokkrum orðum.

Kjarninn er heilsteyptur kassi úr hörðu (þéttu) frauðplasti, kantaður kassi að ytra formi, en innra formið er lagað eftir baðkerinu. Í flestum tilfellum er baðherbergið flísalagt í hólf og gólf áður en baðkerið er sett upp og tengt, frauðplastkassinn stilltur af og gengið frá lögnum. Síðan er baðkerið einfaldlega lagt ofan í kassann, vatnslás og yfirfall tengt og kíttað með völdu kítti meðfram langhlið og gafli, sem falla að vegg.

Þá kemur að því, sem gleðja mun innmúringamenn; ekkert er því til fyrirstöðu að flísaleggja framhlið frauðplastkassans, það er ekki víst að nokkur taki eftir því að hér sé ekki um hefðbundna aðferð að ræða.

Þessi aðferð hefur þann mikla kost að auðvelt er að skipta um baðker ef eitthvað kemur uppá og það er einnig auðvelt er að skipta um vatnslás eða að komast að tengingum.

Fleira áhugavert: