Lagnaval – Hverjir eru kostirnir

Heimild: 

.

Apríl 1997

Meira fyrir Jón og Gunnu

Sinnulítið höfum við haldið áfram að leggja hitakerfin úr svörtum snittuðum rörum, einangruðum með glerullarhólkum. En ef raki kemst að rörunum utan frá er tæringin fljótvirk.

ÞAÐ ER að sjálfsögðu lang einfaldast, bæði fyrir hönnuðinn og pípulagningamanninn, að allar lagnir í húsið og lagnaleiðir verði „hefðbundnar“ sem þýðir í raun, að þá er valið það lagnaefni sem nánast alltaf hefur verið notað undanfarin ár.

Þannig er auðveldast og fljótlegast að hanna og teikna lagnakerfið, þetta er nákvæmlega sama vinnan og í gær og fyrradag og daginn þar áður. Sama gildir um pípulagningamanninn, hann er þrautþjálfaður í að snitta, skrúfa og einangra, til verksins þarf aðeins sömu vélar og verkfæri og hann hefur notað undanfarin ár, jafnvel áratugi.

En þau Jón og Gunna vildu fá að vita hverjir kostir væru í lagnamálum og létu setja þá niður á blað fyrir sig svo þau, leikmennirnir, gætu sett sig inn í málið og væru betur í stakk búin til að ræða við þá sem tækniþekkinguna höfðu.

Grunnurinn
Í grunninn þarf að setja frárennslislagnir, það var þeim ljóst, en er eitthvað val um lagnaefni?
Já, vissulega og þá nefnum við þau helstu.
Áður fyrr þótti sjálfsagt að nota eingöngu steinrör til að leggja í grunna og sá kostur er vissulega til ennþá, gæði steinröra hafa meira að segja aukist með bættum vélakosti framleiðenda og þéttingar í múffum miklu betri en áður, notkun steinröra er þó frekar fátíð orðin til grunnlagna.

Rör úr steypujárni hafa verið notuð um langan aldur til grunnlagna og vissulega er það álitlegur kostur og síðan er það plastið, þar kemur tvennt til greina. Í fyrsta lagi hið hefðbundna PVC plast sem flestir þekkja af appelsínulitnum og í öðru lagi er það polyeten plaströr sem eru svört eins og landsþekkt kaldavatnsrör, enda um sama efni að ræða. Polyeten hefur lítið verið notað hérlendis til frárennslislagna í grunni en er mjög fýsilegur kostur vegna sinna eiginleika, við þetta plast er hægt að vinna í allt að 40 gráðu frosti án þess að það brotni.

Hitakerfið
Sinnulítið höfum við haldið áfram að leggja hitakerfin úr svörtum snittuðum rörum, einangruðum með glerullarhólkum, troðið þeim inn í veggjaeinangrun og múrað yfir allt saman.

Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt, þessi rör hafa reynst með afbrigðum vel gagnvart innra álagi, það eru til lagnir meira en hálfrar aldar gamlar á svæði Hitaveitu Reykjavíkur og sér ekki á þeim að innanverðu.

En þessar lagnir og lagnaleiðir hafa tvo meinlega galla, ef raki kemst að rörunum utanfrá er voðinn vís og tæringin er fljótvirk. Þá kemur í ljós að það er dýrt spaug að múra inni allar lagnir, það þarf oft mikið að brjóta til að gera við ryðguð rör.

En þau Jón og Gunna eiga fleiri kosti í dag og fyrst skulum við nefna rör-í-rör kerfið, sem byggist á því að plaströr, sem flytur vatnið, er dregið inn í annað plaströr sem steypt er inn í gólf og veggi, þannig er hægt að draga innra plaströrið út og skipta um það er þörf krefur án þess að nokkuð þurfi að brjóta. Nú eru fáanleg plaströr sem þola miklu meiri hita og þrýsting en áður þekktist, miklu meira en þörf er á, þetta er vænlegur kostur hvort sem húsið er steinhús eða timburhús.

Þegar þau Jón og Gunna hafa kynnt sér hvað er fánlegt af heppilegum lögnum úr stáli til að leggja innan á veggi og hvað er í boði af snyrtilegum listum til að hylja þau gera þau sér grein fyrir að þetta er vænn kostur og þau sjá að þessi íslenska „fóbía“ að hvergi megi leggja rör í hús nema ausa yfir það múr er út í hött.

Þau skoða hvaða ofnar eru í boði og velja þá síðan, velja sjálfvirka ofnventla sem stýrast af lofthitanum, þau velja ekki retúrventla.

Þeim lýst ljómandi vel á þá hugmynd að hitakerfið verði blanda af ofnakefi og gólfhita, en þá eru ofnarnir minnkaðir og plaströr steypt í gólfið. Það er einnig hægt að setja plaströr í gólf þó um timburhús sé að ræða og gólfið úr timbri.

Heita vatnið rennur þá fyrst inn í ofninn, í gegnum hann og eftir plaströrunum í gólfinu og það er túrlokinn á ofninum sem stýrir rennslinu eftir lofthitanum í stofunni, herberginu eða hvar sem er, sama hvort hitinn kemur frá ofninum eða gólfinu. Þau Jón og Gunna hafa nefnilega sannfærst um það að gamla bábiljan að gólfhiti sé óþægilegur er tómt bull, hann er þvert á móti þægilegur, enda mátulega mikill, yfirborðshiti gólfsins fer aldrei upp fyrir 28 gráður.

Neysluvatnskerfið
Eitt stærsta vandamálið, sem við er að stríða víða og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, er ryðmyndun í kaldavtanslögnum úr galvaniseruðum rörum. Þess vegna eru þau Jón og Gunna sannfærð um að galsvaniseruð rör komi ekki til greina í neysluvatnslagnir, þau eru að byggja í ónefndu sveitarfélagi á fyrrnefndu svæði, en víða úti á landi eru galvaniseruð rör ágætur kostur. Vegna staðsetningarinnar koma eirrör heldur ekki til greina frekar en í hitakerfið, en þá beina þau sjónum sínum aftur að rör-í-rör kerfinu, það er ekki síður vænlegur kostur til neysluvatnslagna en til hitalagna. Þessar lagnir má einnig leggja sýnilegar og þá er einn kosturinn ryðfrítt stál aða jafnvel plaströr, t.d. úr stífum polypropen rörum sem fáanleg eru með hnjám og téum og soðin saman.

Fleira áhugavert: