Hvað er vatnið heitt í dag ..75-85°C ?

Heimild: 

 

Nóvember 1997

Vatnshitastig við töppunarstað

Í endurskoðaðri byggingareglugerð segir að vatnshitastig við töppunarstað skuli ekki vera svo hátt, að hætta sé á húðbruna.

Ef einhver velkist í vafa um hvað orðið „töppunarstað ur“ þýðir þá er sjálfsagt að láta fylgja þýðingu yfir á venjulegt íslenskt mál. Þetta þýðir einfaldlega blöndunartækið í baðkerinu, sturtunni, handlauginni, eldhúsvaskinum eða aðrir þeir kranar sem heitt eða kalt vatn rennur úr til þvotta, baða eða matseldar.

En hvað þýðir svona stefnumarkandi ákvæði í hitagráðum talið ef það verður að raunverulegum fyrirmælum í byggingareglugerð? Efalaust má um það deila, eins og allt annað, en það má rökstyðja það að vatn sem er heitara en 60­-65° á C geti valdið húðbruna eða slysi.

Hvað er vatnið heitt í dag?

Nú skulum við halda okkur við hitaveitusvæðin, því utan þeirra er kalt vatn einfaldlega hitað upp og þar er hægt að ráða því hvað heitt það verður. Á höfuðborgarsvæðinu, eða á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur, er vatnið víðast hvar 70­-75° C en á vissum svæðum fer það yfir 80 stig, jafnvel upp í 85 stig. Seltjarnarnesið er undanskilið, þar hafa heimamenn sína eigin hitaveitu og þar er innihald vatnsins þannig að víðast nota menn millihitara, hleypa vatninu ekki beint inn á kerfin.

Það er kristalstært að sá hiti sem er á kranavatninu á veitusvæði HR er það hár að hann getur og hefur valdið húðbruna og slysum, mjög alvarlegum slysum. Þess vegna er það ekki út í hött að setja ákvæði eins og það sem fram kemur í fyrirsögn inn í væntanlega byggingareglugerð.

En það er ekki sama hvernig slíkt ákvæði yrði framkvæmt og satt best að segja er ekki nema von að húseigendur verði órólegir þegar fjölmiðlar eru farnir að setja upp háar tölur um hvað þetta muni kosta þá, einn fjölmiðill segir 100 þús. kr. á hverja fjölskyldu.

Umræðan er að skerpast

En kapp er best með forsjá og það verður að greina sterklega á milli núverandi bygginga með nýjum og gömlum lagnakerfum og þeirra bygginga sem eru að fara í gang og eftir er að setja lagnir í.

Það er hægt að setja ákvæði um það í byggingareglugerð að neysluvatnskerfi fyrir heitt vatn í nýbyggingum skuli vera þannig frágengin frá einhverjum tímapunkti, segjum frá 1. febrúar 1998, að þar verði millihitari þar sem venjulegt kalt vatn verði hitað upp í stað þess að hleypa hitaveituvatninu beint inn í kerfið og láta það þar með renna beint í baðkerið, sturtuna eða eldhúsvaskinn. En hér þarf nokkru við að bæta. Það verður einnig að fylgja að lagnirnar, sem eiga að flytja þetta upphitaða vatn, séu úr því efni að þær skemmist ekki á nokkrum árum og þá koma galvaniseraðar stálpípur ekki til greina, vart kemur annað til greina en ryðfrítt stál eða plast. Þetta verður vissulega kostnaðarauki fyrir húsbyggjendur, en hann verður ekki umflúinn. Við skulum ekki gleyma því að það hafa orðið slys af heita vatninu, meira að segja banaslys, svo hér er um að ræða slysavörn sem ekki verður komist hjá.

Umræða á villigötum

En hvað á að gera við þau hús, sem þegar eru byggð og þar sem fyrir eru lagnakerfi til að flytja heitt kranavatn. Á að skylda alla húseigendur til að setja upp hjá sér millihitara með ærnum kostnaði; 100 þús. kr. á hverja fjölskyldu segir eitt dagblaðanna.

Það má aldrei gera og það er framkvæmd sem koma verður í veg fyrir því hún hefur í för með sér mikinn vanda. Vandinn er sá að lagnakerfin, sem flytja heita vatnið, eru í nær öllum tilfellum galvaniseraðar stálpípur og með því að hleypa inn á þær lagnir upphituðu ferskvatni er verið að hleypa inn í hvert hús skaðvaldi, sem síðar meir mun kosta húseigendur háar fjárhæðir.

Þess vegna verður að skilja sterkt á milli þegar byggðra húsa og þeirra sem eftir er að byggja. Það verður að fara allt aðra leið í eldri byggingum en byggingum framtíðarinnar.

En hvað á þá að gera í eldri byggingum? Er einhver lausn til önnur en að setja upp millihitara og hita upp kalt ferskvatn?

Já, lausnin er til, einföld lausn og tiltölulega ódýr.

Hún er sú að setja sér það mark að á ákveðnum tíma, segjum 1. jan. 2000, verði búið að setja sjálfvirk blöndunartæki í allar sturtur og við öll baðker á hitaveitusvæðum sem eru með heitara vatn en 60 gr C.

Er þetta fullnægjandi öryggi? kann einhver að spyrja og ekki nema eðlilegt. Svarið er já, því slysin verða í baðkerinu og sturtunni. Við handlaugina og eldhúsvaskinn verða slysin ekki, tæpast nema einhver óþægindi ef illa tekst til. Sjálfvirku blöndunartækin eru með litlum „heila“ sem meðal annars hefur þann eiginleika að ef lokað er fyrir kalda vatnið í götunni lokar tækið alfarið fyrir heita vatnið.

Efalaust munu margir benda á tvenns konar meinta annmarka; í fyrsta lagi á þá ókosti sem millirennsli hefur verið og í öðru lagi að okkur verði bannað af Evrópusambandinu að blanda vatni frá tveimur veitukerfum.

Hvað það fyrra varðar þá hafa einstreymislokar sjálfvirku blöndunartækjanna, en þeir eiga að koma í veg fyrir millirennsli, farið batnandi og með skipulögðu eftirliti og viðhaldi er hægt að koma í veg fyrir millirennsli.

Hvers vegna er öllum ljóst að það þarf að smyrja bílinn reglulega; er það nokkuð einkennilegra að lagnabúnaður þurfi skipulegt viðhald?

Um seinna atriðið þetta; það getur tæplega verið að við séum búin að afhenda svo okkar sjálfsforræði að Evrópusambandið geti dæmt á okkur helsi sem á engan veginn við íslenskar aðstæður.

Fleira áhugavert: