Af hverju minnkaði vinnslugeta Hellisheiðavirkjunnar? – Skoðanir sérfræðinga/þingmanna á því

Heimild:  

 

Fyrsti fundur nýrrar umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar var haldinn sameiginlega í gær, og var vinnslugeta Hellisheiðarvirkjunar til umfjöllunar. Var þar orðið við ósk Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna (VG), og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingkonu sem situr í atvinnuveganefnd fyrir VG.

Katrín reifaði hvað helst brennur á þeim stöllum; ekki síst á þeim tíma sem orkunýting, ekki síst jarðvarma, er til umfjöllunar þingnefnda. Það sé áhyggjuefni hvað framleiðslan minnkar hratt í Hellisheiðarvirkjun, sagði Katrín.

Þetta þyrfti að skoða alvarlega í ljósi þess að fleiri jarðvarmavirkjanir eru á teikniborðinu. Knýjandi spurningar vakni, t.d. hvernig á að nota jarðvarma til lengri tíma litið; er reynslan á Hellisheiði til vitnis um að nýtingin sé ekki sjálfbær. Jafnvel, spurði Katrín, hvort jarðvarmi væri alls ekki heppileg orkulind fyrir stórar verksmiðjur.

Staða virkjunarinnar virðist þó vekja fleiri spurningar en fræðasamfélagið, stjórnkerfið og hagsmunaaðilar treysta sér til að svara, að svo komnu máli. Það kom skýrt fram á fundinum og umfjöllunarefnið sprengdi áætlaðan fundartíma þingnefndanna hressilega, og verður honum því fram haldið.

Samandregnar niðurstöður fundarins voru í aðalatriðum aðeins ein, eða að Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar og staðgengill orkumálastjóra, sagði um þá hugmynd að gufulögn verði lögð frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun að framkvæmdin ætti sér ekki fordæmi hér á landi „en þyrfti sennilega að fara í mat á umhverfisáhrifum“.

 

Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar og staðgengill orkumálastjóra

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Markmiðið [í störfum Orkustofnunar] er að auka eftirlit með nýtingunni, þ.e. að ekki sé verið að ganga á sjálfbæra nýtingu auðlindar eins og hún hefur verið skilgreind. Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á því að skilgreiningin á sjálfbærni er mjög í lausu lofti, og ég tala nú ekki um skilgreininguna í skilningi lögfræði. […] Það sem ég vil leggja áherslu á hér, í þessu samhengi, er að öllum var jú ljóst þegar virkjunarleyfi var veitt fyrir Hellisheiðarvirkjun að til þess að tryggja góða umgengni á þjóðareigninni þá voru skilgreind mörk á vatnsborðslækkun inni í hitakerfinu. Það er þá ákveðin mælistika á stöðu kerfisins í heild sinni. Það var sérstaklega tekið fram í leyfinu að ef þessi vatnsborðslækkun yrði mikil gætum við farið fram á endurskoðun virkjanaleyfisins. Orkustofnun getur hvenær sem er gripið inn í og endurskoðað leyfið; gert kröfu um að framleiðslan minnki. Í ljósi skilgreiningar virkjanaleyfisins þá hefur þessum hættumörkum ekki verið náð enn þá. Það er líka heimilt að stækka vinnslusvæðið sem menn vissu ekki fyrir fram, þótt menn grunaði að sú gæti verið raunin [eins og forstjóri OR talar um með gufulögn frá Hverahlíð].

 

Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskra Orkurannsókna

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Ég sendi ykkur skjal um það hvernig jarðhitasvæði virka. Í öllum aðalatriðum, og við verðum að gera okkur grein fyrir því, er að þau eru hulin augum okkar. Við vitum ekki hvað þau gefa af sér. Þess vegna byggir nýtingin á jarðvísindalegum rannsóknum, aðallega framan af, sem verður að fylgja eftir með borunum. Smá saman kemur í ljós hversu mikilli orkuvinnslu svæðið stendur undir. […] Það má halda því fram í ljósi skilgreiningar á sjálfbærni að vinnsla sé alltaf ágeng í byrjun, en svo nær hún einhverju jafnvægi. Það er hins vegar í eðli allra háhitavirkjana að þær rýrna um eitt til tvö prósent í afli á ári, svona almennt séð yfir heiminn. Meira fyrst og minna seinna. […] Því þurfa menn að mæta því með að bora viðbótarholur. Ef þrýstingsfallið er meira en svo að það náist jafnvægi þá er vinnslan ágeng. Það þýðir það aftur að draga þarf úr vinnslu.
Í engum tilfellum held ég að menn geti skaðað eða skemmt jarðhitasvæði, þó að menn fari í ágenga vinnslu um tíma. En spurningin er fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Við hjá ÍSOR höfum lagt áherslu á það í gegnum tíðina að menn virki háhitasvæði rétt, vegna þess hversu óviss orkugetan á tilteknu svæði er. Þau ráð sem við höfum alltaf reynt að gefa er að virkja í hæfilegum skrefum [Ólafur nefnir 40 til 50 MW en háð stærð svæða] og fá reynslu á það hversu vel svæðin standa sig. […] Ég vil leggja áherslu á að þótt menn séu búnir að bora og komnir með vinnslu í gang þá verða menn að huga að áframhaldandi rannsóknum á því sem er að gerast á svæðinu. Menn vita ekki nema takmarkað, jafnvel þótt virkjunin sé komin í gagn.

 

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Við höfum lagt mikla orku í að meta náttúrufar jarðhitasvæða og verndargildi. Í því sambandi höfum við þurft að skoða gögn varðandi orkugetu og vinnslusögu þeirra svæða sem hafa verið virkjuð. Við höfum sett fram á undanförnum árum spurningar er varða orkunýtingu og orkugetu þessara svæða, og ekki síst um áform um virkjanir sem við höfum kallað að séu á veikum grunni.
Varðandi muninn á Henglinum og Reykjanesinu, og það kemur fram í umsögn okkar vegna Rammaáætlunar, þá lögðumst við eindregið gegn því að Reykjanesvirkjun færi í nýtingarflokk, einmitt vegna þess að verndargildið var vanmetið og orkugetan ofmetin, að okkar mati.

 

Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Varðandi Hellisheiði þá finnst mér menn vaða reyk. Það sem Orkuveitan hefur sagt er að þeir, jú, þurfa að bora viðbótarholur til að halda fullu afli en þeir meta það af reynslu sinni af núverandi holum á vinnslusvæðinu að það muni ekki nást aukning á gufu þótt meira verði borað á svæðinu sem þeir eru að nýta. Þeir þurfa að leita nýrra svæða utan Hengilssvæðisins til að vinna viðbótina. Þá er þeirra tillaga að leiða gufu frá Hverahlíð þar sem þeir eiga holur. Ef það ætti að fara bora nýjar holur núna á nýjum blettum þá tekur það tvö, þrjú ár og hver hola kostar 400 til 500 milljónir. Því held ég að þessi lausn þeirra sé sú langskynsamlegasta í núverandi ástandi, en jafnframt þarf að rannsaka svæðið betur.

 

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Ég hef í fjögur ár gagnrýnt þau áform sem menn hafa haft uppi um nýtingu jarðhitasvæðanna. Varðandi sjálfbærnina þá er það okkar mat að skilgreiningar Orkustofnunar á sjálfbærni séu nánast út í hött. Þær eru einfaldlega komnar frá orkugeiranum sjálfum og engir sérfræðingar, nánast, komið að þeim málum. Nema kannski sem ráðgjafar. Þar segir að sjálfbær nýting þýði nýting í 100 til 300 ár og það er ekki í takt við sjálfbærnihugtakið. Þá á nýtingin að vera nánast óendanleg. Það að hægt sé að klára eitthvað, en það sé samt sjálfbært, gengur einfaldlega ekki upp.“
Það hefur mikið verið klifað á því að orkuvinnslan sé sjálfbær og því að við séum með græna orku. Það er mikilvægt að horfa til þess að í eðli sínu er þetta hvorki sjálfbær né græn nýting á háhitasvæðunum, yfirleitt. Annað er, varðandi Hellisheiðarvirkjun og það sem þar er að koma upp, þá er athyglisvert að í umsókn Orkustofnunar um Hverahlíðarvirkjun, vegna mats á umhverfisáhrifum, þá varar Orkustofnun við því að fara í Hverahlíðarvirkjun fyrr en reynsla er komin á áhrif Hellisheiðarvirkjunar á vinnslusvæðið, sem bendir til þess að málið sé sýnu alvarlegra en fram hefur komið.“

 

Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands, og situr í stjórn Landsvirkjunar

Gufulögn úr Hverahlíð líklega í umhverfismat

Mig langar til að koma á framfæri í hverju ólík sjónarmið liggja, annars vegar að vilja virkja í litlum þrepum og þá í stærri þrepum. […] Menn giska á hvað auðlindin er stór. Ef svarið er að hún virðist mjög stór samkvæmt faglegri ágiskun, þá standa stjórnvöld frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort byggja á upp þekkingu til að stuðla að nýtingu auðlindarinnar, og jafnvel leggja fram fé til þess og jafnvel koma einhverju af stað. En þessari ágiskun er gjarnan tekið sem staðreynd. Þetta heyrði ég síðast í gær er var sagt að Hengilssvæðið gæfi þúsund megavött. Þetta er ágiskun og þarna liggur hundurinn grafinn.
Þetta er áhættustýring, ef svo mætti segja. Og ég verð að segja fyrir mitt leyti að eitt skref upp á 240 megavött á Hellisheiði var æði stórt. Það hefði mátt vera miklu minna. […] Fyrst að menn stóðu svona að verki þá kemur ekkert á óvart að það verði harkalegur niðurdráttur. Þetta er allt of lítið vinnslusvæði fyrir svona stóra virkjun.
Ég tel að nýtingin í Hellisheiðarvirkjun ætti að vera 100 megavött. Það hefði verið eðlilegt skref. Það þýðir það að jarðgufuvirkjanir, einar og sér, henta alls ekki fyrir verksmiðjur eins og álver.
Það má laga ýmislegt í lögum. Lögin um umhverfisáhrifin henta alls ekki þegar jarðhitinn er annars vegar. Það hefur haft, tel ég, stundum slæmar afleiðingar.
Það er ekki hægt að tala um sjálfbæra vinnslu. Það er ekki heldur hægt að skilgreina þetta aftur og aftur, eins og mönnum dettur í hug. […] Þetta hugtak er huglægt. Þetta vefst fyrir mönnum en mér finnst stefnan alveg skýr. Viljum við að komandi kynslóðir hafi sömu tækifæri og við?

 

Þetta brann á þingmönnum:

„Komið hefur fram að verið sé að taka of mikið upp úr vinnslusvæðinu á Hellisheiði. Hvað væri eðlilegt að uppsett afl væri þarna?“
„[Vegna ummæla um að Hverahlíð og önnur svæði eigi að styðja vinnslu í Hellisheiðarvirkjun] Eru menn ekki búnir að selja orkuna til nýrra kaupenda? Ég velti fyrir mér samningum sem Orkuveitan hefur gert um sölu á nýrri orku, hvar standa þeir samningar? Eru þeir ekki fallnir um sjálft sig?“
Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu

„Ég spyr hvort borgaryfirvöld í Reykjavík hafi gengið allt of langt í virkjunum á þessu svæði og því komið óorði á virkjun á háhitasvæðum. Raforkuframleiðslan er komin í 303 megavött, og má ég spyrja þá sem það vita […] hvað það var stórt sem fór í umhverfismat; hvað var það mikið sem fór ekki í umhverfismat af þessum 303 megavöttum? Og það sem snýr að Rammaáætlun – hefur ekki tekist, miðað við það sem hér er sagt, að halda jafnvægi á milli vatnsaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana, nema við séum á þeirri skoðun að það sé komið nóg af virkjanlegu afli.“
Kristján Möller, Samfylkingu

„Mig langar að biðja fulltrúa Orkustofnunar að bregðast við fullyrðingum Sigmundar [Einarssonar frá NÍ] um að skilgreiningar Orkustofnunar á sjálfbærni væru út í hött. Mér finnst hún alvarleg þar sem Orkustofnun veitir virkjanaleyfi…“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sjálfstæðisflokki

„Getið þið skilgreint það sem sjálfbærni, og notað það í hugtaki eins og sjálfbær vinnsla, ef það dugar bara í þrjár til níu kynslóðir en ekki fyrir þær sem koma á eftir? Og réttlætt það?“
Jón Þór Ólafsson, Pírötum

[Um 5 kílómetra gufulögn frá Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar til að viðhalda vinnslu] „Þarf slík framkvæmd ekki í umhverfismat, og hefur þetta verið gert áður með þessum hætti?“
Katrín Jakobsdóttir, VG

„Hafa rannsóknir á svæðinu og gögn sem menn hafa handbær verið þau bestu til að fylgjast með svæðinu frá upphafi?“
Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki

„Ég spyr í ljósi þessarar reynslu og nýrrar þekkingar á orkugeiranum hvort Orkustofnun þurfi ekki að skerpa verulega á sínu eftirlitshlutverki gagnvart þessum háhitasvæðum, vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem þarna eru undir í umhverfislegu ljósi og gagnvart orkukaupendum sem þarna eiga í hlut. Líka hvort staðan sem núna er uppi sé tilefni til að endurskoða að binda okkar háhitasvæði einum stórum orkukaupanda; hvaða áhættu við séum að taka.“
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG                

 

Fleira áhugavert: