Tvöfaldar skólplagnir – Hvers vegna?

Grein/Linkur: Hvers vegna eru tvöfaldar skólplagnir í götum?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.


.

Október 2001

Hvers vegna eru tvöfaldar skólplagnir í götum?

ÞAÐ er sannarlega fróðlegt að fylgjast með því hvernig okkar ylhýra, ástkæra mál, íslenskan, þróast í huga og munni. Það er fleira en erlend áhrif sem þrengja sér inn í málið, erlend áhrif hafa verið miklu meiri á undanförnum öldum en við gerum okkur grein fyrir og þurfa alls ekki að vera óæskileg að öllu leyti.

Eitt einkenni íslenskrar málþróunar á síðustu árum eða áratugum er tepruskapur. Fleiri og fleiri orð eru að glatast úr málinu vegna tepruskapar, þar má nefna sagnirnar að éta og drepast. Það þykir dónalegt að bjóða manni að éta, að segja að einhver sé dauður er yfirgengilega ruddalegt. Það er merkilegt að báðar þessar sagnir lifa góðu lífi í sænsku og eru notaðar í því máli dags daglega, bæði í ræðu og riti.

Einhvern tímann höfum við bjálfast til að skapa sögnina að borða í staðinn fyrir að éta (eða eta), auðvitað dregið af því að sitja til borðs og viðhafa góða siði. Nú bregður svo við að það er ekki aðeins mannfólkið sem borðar, það gera einnig kýrnar í fjósinu og fiskarnir í sjónum. Fiskar hafa ekki lengur nægilegt æti, samkvæmt nútímamáli fjölmiðlamanna og sérfræðinga skal það verða fæði.

Eitt sinn í árdaga þessara pistla var lítið vísukorn fellt burt við prófarkalestur af því að þar kom fyrir sögnin að kúka, nokkuð sem fjölmiðlamenn og prófarkalesarar verða að sinna jafnt eins og aðrir. Kannski eru þeir að taka upp talsmáta kvinnanna sem stunda beðmál í þeirri merku borg, New York. Þær eru hafnar yfir að ræða slíkt en tilneyddar tala þær um númer eitt og númer tvö, sem á ruddalegri íslensku þýðir hvort það sem frá líkamanum kemur er í fljótandi eða föstu formi.

Þá er best að hella sér út í ruddaskapinn og tala tæpitungulausa íslensku. Hér er rétt að vara viðkvæmar sálir við eins og gert er í slysafréttum og reyndar íþróttafréttum líka, þegar menn vilja ekki heyra úrslitin strax.

Eins er það með gömul íslensk kjarnyrði sem voru sjálfsögð í íslensku alþýðumáli fyrir aðeins hálfri öld. Ef nútímamaðurinn er orðinn svo teprulegur að hann þolir ekki slíkt ætti hann að hætta lestri þessa pistils og snúa sér að einhverju öðru sem nóg er af í fjölmiðlum og þykir sjálfsögð lesning, svo sem fréttir af stríði, hryðjuverkum, limlestingum, sifjaspelli, nauðgunum, ránum og eituráti.

Það sem var

Ætlunin var að ræða svolítið um af hverju það er tvöfalt skólpkerfi í götum í nýrri hverfum í þéttbýli, segjum í þeim hverfum sem eru fjörutíu ára og yngri. Því miður er ekki hægt að ræða um þessi kerfi nema að nota ýmis íslensk orð, sem í eyrum nútímamannsins eru ógeðfelld og ruddaleg, en líklega eru ekki aðrir við lestur nú en þeir sem kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Tökum Reykjavík sem dæmi; í eldri hverfum, næstum öllum hverfum vestan Elliðaáa, er einfalt skólpkerfi í götum. Þau kerfi flytja frá íbúunum saur, þvag, uppþvottavatn, þakvatn, jarðvatn, yfirborðsvatn frá götum, afrennsli frá hitakerfum, já allt það sem frá mannanna byggð þarf að komast burt og vonandi út í hafsauga.

Lögn fyrstu skólpkerfanna var mikil framför, fram að því var skólpi skvett út fyrir dyrnar en hvert hús hafði einnig útikamar þar sem menn „gerðu stykkin sín“ (tilraun til að vera vera ekki ruddalegur).

Á vegum sveitarstjórnar var sú þjónusta að ekið var um á hestakerrum og innihaldi útikamranna safnað saman og flutt út fyrir bæinn. Þessum vögnum var auðvitað af gárungum gefið sitt nafn og kallaðir „súkkulaðivagnar“.

Upp til sveita var kamar yfir hlandfor sjálfsagður hlutur eða næstum því, þó voru til þeir sveitabæir fram eftir síðustu öld þar sem menn „gengu örna sinna“ úti undir vegg (skáldlegt og pent, ekki satt).

Í hlandforina var safnað saur og þvagi frá mönnum og þvagi frá kúnum í fjósinu, mykjunni frá kúnum var safnað í sérstakan haug eða haughús.

Þetta var ekki einungis til þrifnaðar, þarna var verið að safna saman miklum verðmætum, einhverjum magnaðasta áburði á tún sem völ var á og ekkert getur jafnast á við.

Þetta var gert frá upphafi Íslandsbyggðar að einhverju leyti, enda segir að „Njáll hafi ekið skarni á hóla“.

Nú er kominn tími til að snúa sér að efninu; af hverju var tekið upp á því að leggja tvöfalt skólpkerfi í götur?

Í þéttbýli eins og á höfuðborgarsvæðinu sáu menn það fyrir, þegar vel var liðið á síðustu öld, að setja yrði upp dælustöðvar við strendur til að dæla skólpi lengra út til sjávar.

Augljóslega var ekki sama þörf á að dæla burt þakvatni, jarðvatni og yfirborðsvatni, „gráu vatni“, það átti aðeins við það sem kom frá salernum og öðru húshaldi, „svörtu vatni“.

Með því að aðskilja þetta í tvö kerfi er hægt að komast af með miklu minni dælustöðvar, það er lóðið.

Þess vegna verða húseigendur að gæta sín vel við hvaða kerfi er tengt. Ef til dæmis á að setja upp aukasalerni eða bað eða eldhús má ekki tengja slíkt inn á skólpkerfi fyrir „gráa vatnið“ heldur aðeins inn á skólpkerfið fyrir „svarta vatnið“ á þeim svæðum þar sem skólpkerfin eru aðskilin.

Fleira áhugavert: