Rússnesk Olía til Indlands – Tífaldaðist 2022

Grein/Linkur: Innflutningur á rússneskri olíu til Indlands tífaldast

Höfundur: Helgi Steinar Gunnlaugsson, Viðskiptablaðinu

Heimild:

.

.

Maí 2023

Innflutningur á rússneskri olíu til Indlands tífaldast

Á einu ári tífaldaðist innflutningur á rússneskri olíu til Indlands frá 2% og upp í 20%.

Samkvæmt indverska ríkisbankanum Bank of Boroda tífaldaðist innflutningur á rússneskri olíu til Indlands árið 2022. Indverjar hafa þar með sparað rúmlega fimm milljarða bandaríkjadali með því að flytja inn rússneska olíu.

Árið 2021 samsvaraði rússnesk olía aðeins 2% af árlegum innflutningi á hráolíu til Indlands en sú tala hefur nú hækkað upp í 20%.

Rússland hefur undanfarið selt olíu sína á afslætti til Kína og Indlands í kjölfar efnahagsþvingana sem sett var á landið eftir innrás Rússa í Úkraínu. Indverjar hafa sparað rúmlega 89 dali á hvert tonn af hráolíu sem þeir hafa flutt inn.

Indverjar hafa ekki látið undan þrýsting frá hvorki Bandaríkjunum né Evrópu um að hætta innflutning á rússneskri olíu og hafa þarlend stjórnvöld heldur ekki fordæmt innrásina sjálfa. Indverska ríkisstjórnin hefur sagt að landið sé mjög háð olíuinnflutningi og að milljónir Indverja búi við það mikla fátækt að ómögulegt sé fyrir þjóðina að greiða hærra verð fyrir olíu.

Subrahmanyam Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands, segir að fyrir innrásina hafi Evrópa flutt inn sexfalt meiri olíu frá Rússlandi en Indland. „Evrópa hefur tekist að draga úr innflutningi sínum á þægilegan hátt. Ef þetta snérist virkilega um mannréttindi af hverju hættu Evrópubúar ekki að flytja inn rússneska olíu fyrsta daginn?“

Sérfræðingar spá því að Rússar muni halda áfram að selja olíu sína á undirverði þar sem ekki er útlit fyrir að stríðsátök muni hætta á næstunni.

„Við gerum ráð fyrir því að Indland og Kína muni halda áfram að vera einu tvö löndin sem taka á móti rússneskri olíu. Ef staða efnahagsþvingana breytist hins vegar myndu Indverjar að öllum líkindum flytja inn hráolíu í samræði við það sem var fyrir stríð,“ segir Vandana Hari, talsmaður orkugreiningarfyrirtækisins Vanda Insights.

Fleira áhugavert: