Baðherbergi – Endurnýjun hreinlætistækja

Heimild: 

 

Febrúar 1998

Endurnýjun á baðherbergi

Ekki er sama hvernig tæki eru valin í baðherbergi þegar þau þarf að endurnýja. Ekki má láta fagurfræðileg sjónarmið ráða öllu heldur verða þau tæknilegu einnig að komast að.

Baðherbergið er sú vistarvera sem flestir leggja mikla áherslu á að sé snyrtileg og aðlaðandi, ekki að undra því þangað eigum við erindi daglega og jafnvel oft á dag. Þar snyrtum við okkur að morgni og fáum okkur hressandi steypibað til að vera betur í stakk búin til að takast á við það sem bíður okkar í daglegu amstri. Fjölmörg hús eru nú komin á „endurnýjunaraldur“ lagnalega séð og þá dugar ekkert hálfkák, allar lagnir verður að endurnýja. En svo eru einnig mörg hús og íbúðir þar sem sá tími er ekki kominn, en hreinlætistækin orðin svolítið lúin og úr takt við tímann.

Þá kemur til greina andlitslyfting á baðherberginu í heild og endurnýjun tækja. Það þýðir að allt innanstokks er fjarlægt, flísalagt að nýju bæði á veggi og gólf. Og auðvitað ný tæki sem bæði uppfylla fagurfræðilegar kröfur og tæknilegar. Það er hins vegar mjög algengt að húseigendur, oftast eru það hjón eða sambýlisfólk, fara út á markaðinn og skoða og skoða, velja síðan eftir fagurfræðilegum rökum en hirða ekkert um þau tæknilegu. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé allt jafn gott sem fáanlegt er, eru hreinlætistæki ekki aðeins hreinlætistæki? Nei, því fer víðs fjarri og eins gott að vera vel á verði. Því miður er það víst ekki við hæfi að nefna nein sérstök nöfn eða merki hér og nú, en það eru nokkrar meginreglur sem hafa má í huga við val á tækjum og gera sér grein fyrir hvað er hægt að gera tæknilega séð. Handlaugin Áður fyrr þótti handlaug á fæti lang flottust, víða sjást þær enn í eldri húsum, þessir blessaðir fætur hafa engan jákvæðan tilgang, en eru skítsafnarar og hafa þau sálrænu áhrif að baðherbergið virðist svolítið minna en það er.

Við endurnýjun er yfirleitt valið að setja upp handlaug í borði og ekki að ástæðulausu. Þess hafa þeir sem raka sig eða snyrta hár sitt oft saknað. Líklega þýðir ekki að tala um að koma niðurfalli í gólfið ef ekki er um allsherjar endurnýjun að ræða, en æskilegt væri það. Blöndunartækið verður líklega „flott“ tæki með einu gripi, ekkert á móti því ef góð tegund er valin. Líklegast er að eldra salernið sé sambyggt, sem þýðir að skálin og kassinn eru sambyggð. Ef kassinn er hengdur á vegginn og frá honum er tengirör niður í skál erum við örugglega í húsi sem þarf algjöra endurnýjun lagna og þangað ætluðum við ekki að sinni. Allir sem séð hafa um að halda baðherbergi hreinu og snyrtilegu (í þeim hópi eru nær eingöngu konur) hafa séð og fundið hvað erfitt er að hreinsa í kringum salernisskálina. Þess vegna er ekki óalgengt að oft hafi sú ósk verið borin fram í hljóði að komið væri vegghengt salerni, salerni sem ekki stæði á gólfi. Nokkrir framleiðendur hafa sett á markað grindur með innbyggðum skolkassa og festingum fyrir vegghengda skál.

Þessum tækjum er oftast auðvelt að koma fyrir og þetta er lausn sem flestir verða ánægðir með. Gólfið er autt, allur þrifnaður miklu auðveldari og tækin augnayndi og tæknilega fullnægjandi. En að sjálfsögðu er ekkert á móti því að endurnýja með salerni standandi á gólfi. Baðkerið Þar sem líkur eru á að ekki hafi tekist að setja niðurfall í gólfið og raunar þó það hafi tekist, er nauðsynlegt að þétta vel með öllum köntum baðkersins, þegar það er tengt. Fyrir nokkrum áratugum voru öll baðker úr steypujárni, níðþung og högguðust ekki þó tvö hundruð punda maður stigi upp í það. Nú er allt breytt, öll baðker úr þunnu plötustáli sem byrjar að svigna þó nett kona leggist í það. En nú höfum við fengið í hendur öll undra þéttiefnin, hvort sem þau heita sílikon, úretan eða eitthvað annað. Þess vegna er sjálfsagt að reyna að sneiða hjá því að brjóta raufar inn í steinveggi fyrir baðkersköntum, jafnvel mögulegt að flísaleggja baðherbergið í hólf og gólf áður en baðkerið og önnur hreinlætistæki eru sett upp og tengd. Vegna þess hve baðkerin úr plötustáli eru létt þarf að festa þau vel og þar kemur festifrauðið í þrýstibrúsunum í góðar þarfir.

Þegar búið er að tengja og lekaprófa er ekki svo vitlaust að fylla baðkerið enn einu sinni og sprauta festifrauði undir allan botninn. Þetta gerir baðkerið stöðugra, það lætur minna undan þegar upp í það er stigið og þetta dempar hljóð. Og fyrir alla muni; ekki fá múrara til að hlaða upp vegg fyrir framan baðkerið úr vikurplötum, búa þar til múrvegg sem gerir ómögulegt að fylgjast með veikasta punktinum, vatnslásnum og frárennslinu undir baðkerinu. Ef ekki er möguleiki að fá eða koma fyrir lausri svuntu fyrir framan baðkerið, sem er tvímælalaust besta lausnin, má búa til létta trégrind og klæða hana með vatnsheldri plötu, flísaleggja hana síðan eins og veggina. Það væri mjög æskilegt að þessa plötu, eða hluta hennar, sé hægt að taka burtu eða opna til eftirlits. Blöndunartækið við baðkerið verður að sjálfsögðu sjálfvirkt blöndunartæki, annað kemur ekki til greina. Slíkt tæki er ekki mikil fjárfesting, til mikilla þæginda og örugg slysavörn.

Fleira áhugavert: