Sólfangarar – Þvagskálar kvenna

Grein/Linkur: Sólarorka og þvagskál fyrir konur

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Maí 1999

Sólarorka og þvagskál fyrir konur

Sólfangarar verða æ algengari á þökum húsa í Evrópu. Með þeim er hægt að hita vatn og framleiða rafmagn.

Hvað er nauðsyn? Hvað eru þarfahlutir? Þetta sækir óneitanlega á hugann þegar gengið er daglangt um sýningarhallir í Frankfurt. Sá sem hefur í fjölda ára eða áratuga snittað og skrúfað saman rör, saknar ekki tilfinnanlega að sjá ekki þ.au rör og tengi á sýningunni, en við skulum enganveginn gera lítið úr þeirri tækni, hún hefur komið að góðu gagni og kemur enn.

En það hefur lengi verið til margskonar annar tengimáti röra, eirrör hafa oftast verið lóðuð saman, stálrör log- eða rafsoðin og með bílaöldinni fóru menn að nota örmjó rör og þá komu til sögunnar þéttihringurinn og róin, sem enn eru mikið notuð við vatnslagnir.

Þrýstitengin, þar er Mannesmann kerfið þekktast, hafa náð mikilli útbreiðslu frá því sú tækni kom fram fyrir þrjátíu árum.

Það er athyglisvert hve mikið framleiðendur röra leggja á sig til að skapa kerfi, sitt eigið kerfi, fjölbreytnin er orðin mikil, jafnvel of mikil.

Reuhau í Þýskalandi þrykkir ekki, þar er plaströrið þanið, stungið upp á nippil og messinghólkur dreginn inn yfir nippilinn, örugg og góð tenging.

Wirsbo er með stórmerka nýjung sem líkist mjög aðferð Rehau, en í stað málmhrings er notaður plasthringur úr sama efni og rörið. Þar er það hringurinn sem er þaninn, en hann leitar aftur til upphafs síns og herðir plaströrið að nipplinum.

Þarfaþing?

Á opinberum stöðum, eins og lagnasýningu, er mikil þörf á salernum, enda vel fyrir þeim séð. Karla megin eru bæði salernisskálar og þvagskálar, en fram að þessu hafa þvagskálar ekki sést á kvennasalernum.

Á þessu kann að verða breyting því hollensk/sænska fyrirtækið Sphinx-Gustavsberg hefur nú sett á markað þvagskálar fyrir konur. Kvennaþvagskálin þykir vel formaður gripur og hefur fengið sérstaka viðurkenningu fyrir útlit, en eftir er að sjá hver þróunin verður, úr því munu konur einar skera.

Það er víðar en á Íslandi sem orkumál eru í brennidepli, en um eitt eru menn sammála; hvergi finnst önnur eins ofurorka sem í sólinni. Það er komin rífandi þróun í að nýta sólina sem orkugjafa, en sú tækni átti lengi vel erfitt uppdráttar.

Sólfangarar verða æ algengari á þökum húsa í Evrópu, nú er talið að heildarflötur sólfangara í Þýskalandi sé 400.000 fm, en stefnt er að því að hann verði 2.400.000 fm árið 2003. Með þeim er hægt að hita vatn og framleiða rafmagn og það hlýtur að vera mikil framtíð í þessari tækni í þróunarlöndum, ekki síst í sólríkum löndum nálægt miðbaug jarðar, en á hún nokkurt erindi til okkar?

Því ekki það, hér er um vistvæna orku að ræða, gæti hún ekki átt vel við í sumarhúsinu, sólskinið er meira hérlendis en við gerum okkur grein fyrir?

Fleira áhugavert: