Rétt val á lagnaefni
Október 1998
Að hengja bakara fyrir smið
Það á að láta efnainnihald vatns ákveða lagnaefni á hverjum stað, um það var fjallað á ráðstefnunni „Framtíðarsýn í lagnamálum“, sem fór fram í október 1998.
ÞAÐ var ánægjulegt hve flestir frummælendur á ráðstefnu Samorku „Framtíðarsýn í lagnamálum“ voru málefnalegir og jákvæðir, kannske með einni undantekningu, því miður var síðasta framsagan á ráðstefnunni lítið í samræmi við það sem fyrr hafði komið fram.
Þar var einn ágætur erlendur gestur frummælandi, Kate Nielsen frá Danska tækniháskólanum, en hún er einn færasti sérfræðingur þarlendis í tæringu málma og þá ekki síst tæringu lagna. Nú kemur eðlilega upp spurning hvort danskur sérfræðingur geti eitthvað ráðlagt okkur hér á landi, eru aðstæður og vatn ekki allt annar handleggur þar en hér?
Hafi þessi spurning verið í huga manna á ráðstefnunni eyddi Kate Nielsen henni snarlega, það eru ekki síst áhrif frá henni sem urðu kveikjan að síðasta pistli þar sem bent var á að vatnið á Íslandi væri svo ótrúlega mismunandi frá einum stað til annars, frá einni borholu til annarrar.
Trúarbrögð
Þeir sem á undanförnum árum hafa eindregið lagt til að ný lagnaefni yrðu leyfð í höfuðstað landsins hafa oft verið sakaðir um að fara offari og að afstaða þeirra sé trúarbrögð, oftrú á ný lagnaefni. Þá hefur það einnig verið flokkað undir fordóma, af mönnum sem telja sig eiga mikið undir sér, ef varað er við notkun galvaniseraðra stálröra í kaldavatnslagnir á höfuðborgarsvæðinu.
Kate Nielsen, sá ágæti danski gestur, tók af skarið með hvernig lagnaefni skuli notað á hverjum stað, það á einfaldlega að nota efnainnihald vatnsins til að ákveða það, þess vegna séu rannsóknir á öllu vatni, hvort sem það er notað til drykkjar eða upphitunar hvar sem er á landinu, nauðsynlegur grundvöllur.
Staðreyndir um vatn eru víða til en ekki alls staðar, staðreyndir um heitt og kalt vatn á höfuðborgarsvæðinu eru fyrirliggjandi en rétt er að undirstrika að vatnið er ekki allt af sama stofni, hvorki heitt né kalt.
Sú þekking, sem þegar liggur fyrir um vatnið, segir okkur afdráttarlausar staðreyndir, að mati Kate Nielsen, og raunar voru fleiri fróðir fyrirlesarar á ráðstefnunni sammála um það.
Og hverjar eru þær staðreyndir varðandi kalda vatnið?
Á veitusvæði Vatnsveitu Reykjavíkur kemur ekki til greina að hennar mati, að nota galvaniseruð stálrör eða eirrör í neysluvatnskerfi innanhúss, það má segja að þetta sé afdráttarlaus niðurstaða frá ráðstefnunni „Framtíðarsýn í lagnamálum.“
Hvað er þá til ráða, á hvaða lagnaefni eigum við kost?
Við eigum kost á því að leggja neysluvatnskerfi innanhúss fyrir kalt vatn úr plasti eða ryðfríu stáli. Að segja þetta eru hvorki trúarbrögð vegna nýrra efna eða fordómar gagnvart öðrum. Þetta byggist á bláköldum tæknilegum staðreyndum.
Það er því dapurlegt að vita það að í flestum af þeim glæsilegu byggingum, sem eru að rísa í Reykjavík og Kópavogi, keppist herskari pípulagningamanna við að leggja kaldavatnskerfi úr galvaniseruðum stálrörum og inni á hinum fjölmörgu velbúnu verkfræðistofum sitja hálærðir hönnuðir og hanna kaldavatnskerfi úr galvaniseruðum stálrörum.
Það er líka dapurlegt til þess að vita að vatnsveitustjórinn í Reykjavík skuli láta það frá sér fara í prentuðu máli á margnefndri ráðstefnu að það sé nánast afbrot að gagnrýna notkun á galvaniseruðum stálrörum á veitusvæði hans. Þeir sem það dirfist að gera skuli verða skaðabótaskyldir gagnvart húseigendum, sem hafa glapist til að nota þetta lagnaefni vegna lélegrar og rangrar ráðgjafar. Þetta hefði einhverntíma kallast að hengja bakara fyrir smið.
Hinir óhreinu
Veitingamaður nokkur í miðbæ Reykjavíkur lét þau boð út ganga að öllum þeldökkum mönnum yrði meinaður aðgangur að búllu hans. Ástæðan væri sú að þeldökkur maður hefði abbast upp á konu nokkra, sem að sjálfsögðu var skjannahvít á hörund. Þegar vertinn var spurður að því hvort allir hvítir menn yrðu útilokaðir úr hans ranni ef einn með þann litarhátt væri ókurteis við konu sagði hann þetta ekki svaravert.
Fréttahaukar okkar tíunduðu oft litarhátt og þjóðerni manna sem komust í kast við lögin hérlendis ef þeir voru ekki hvítir, oft var sagt að maðurinn væri þeldökkur eða af asískum uppruna. Eitthvað virðist þetta hafa verið tugtað til, sem betur fer, fréttir eru ekki svo hlutdrægar lengur. En fréttir úr lagnaheimi eru enn jafn hlutdrægar.
Enginn fjölmiðill fékkst til að geta ráðstefnunnar „Framtíðarsýn í lagnamálum“ þótt eftir væri gengið en þegar vatnsskaði varð í fjölbýlishúsi voru sjónvarpsmenn óðara komnir á vettvang til að sýna myndir af vatnsinntaki sem fór í sundur og var úr plasti, ástæðan var vegna rangra vinnubragða, ekki að um plaströr var að ræða.
Fyrir allmörgum árum tengdu myndlistarmenn heitavatnsinntak við húskerfið á Korpúlfsstöðum með plaströri sem á alls ekki að þola meira en 20 gráða hita. Rörið fór auðvitað í sundur og af varð mikið tjón, en þetta hafði mikil áhrif, fjölmiðlar kokgleyptu plaströraskaðann og þetta einstaka atvik seinkaði þróun í lagnamálum svo um munaði, menn í ábyrgðarstöðum sögðu „þarna sjáiði, þetta var plaströr“. Í fréttabréfi Samorku birtist lítil frétt fyrir nokkru undir yfirskriftinni „Plasttengi gefur sig“. Þegar fréttin var lesin kom strax í ljós að einbýlishús í Hveragerði hefði nánast eyðilagst vegna þessarar bilunar, en þeir sem lásu fráttina alla fengu svolítið aðra mynd en fyrirsögnin gaf til kynna. Þar sem heita vatnið í Hveragerði er, eða var þá, sjóðandi og því í formi gufu var notaður millihitari, gufan fór ekki lengra en ínn í hann og hitaði uppp vatnið á miðstöðvarkerfinu. En millihitarinn tærðist og sprakk með þeim afleiðingum að gufan komst óhindruð inn á miðstöðvarkerfið og þar fór plasttengi í sundur enda aldrei búist við því að það þyldi gufu. Það er því ekki út í hött að segja að plaströr eru „hinir þeldökku“ í hópi lagnaefna. Vatnsskaðar eru sjaldnast frétt, en ef það er plaströr sem skemmist, einhverra hluta vegna, er orðin til frétt.
Þá hafa „hinir þeldökku“ brotið af sér.
RÉTT val á lagnaefni kemur okkur öllum við.