Hafsbotninn í kringum Ísland kortlagður á næstu 10-15 árum
Að tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ríkisstjórnin samþykkt stórátak í kortlagningu hafsbotnsins innan íslensku efnahagslögsögunnar. Kortlagningin mun styrkja stöðu Íslands sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar og getur skapað mikið markaðsgildi fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þá mun kortlagningin verða mikilvæg undirstaða þegar kemur að því að skipuleggja nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.
Ríkisstjórnin mun leggja til við Alþingi, við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017, að tryggt verði fjármagn til verkefnisins í fjárlögum þess árs á grundvelli 10-15 ára verkáætlunar sem tilbúin verður í upphafi nýs árs. Hafrannsóknastofnun mun sjá um úthald skipa, mælingar og frumúrvinnslu þannig að öll gögn verði aðgengileg stofnunum, háskólum og atvinnulífinu í landinu.
Íslenska efnahagslögsagan er um 754.000 km² eða rúmlega sjöfalt stærri en sem nemur flatarmáli landsins. Kortlagning hafsbotnsins er því umfangsmikið verkefni sem sinna þarf sérstaklega, en að óbreyttu mun taka marga áratugi að kortleggja allan hafsbotninn. Slíkt er ekki viðunandi í ljósi þess hve verkefnið er brýnt og skiptir miklu máli fyrir rannsóknir og hagsmuni Íslendinga á fjölmörgum sviðum.
Meðal þess ávinnings sem kortlagning hafsbotnsins mun skila má nefna
- Hafsbotnsrannsóknir innan efnahagslögsögunnar hafa styrkt Íslendinga á alþjóðavettvangi, en þar nægir að nefna greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Grannþjóðir okkar; Írar, Kanadamenn og Norðmenn hafa lagt út í umfangsmikla kortlagningu til að gæta hagsmuna sinna.
- Með kortlagningu fæst betri grunnur fyrir nákvæm siglingakort, en þau eru forsenda öruggra siglinga og nauðsynleg með aukinni skipaumferð við landið og í Norðurhöfum.
- Botnkort eru grundvöllur kortlagningar ólífrænna og lífrænna auðlinda svo sem olíulinda og fyrsta skref við undirbúning nýtingar.
- Botnkort gagnast við ýmsar rannsóknir á hafsbotni, svo sem könnun nýrra fiskislóða, rannsóknir á búsvæðum sjávarlífvera, rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn, á ástandi sjávar og jarðfræði hafsbotnsins.
- Við verndun lífríkis á hafsbotni er nauðsynlegt að fyrir liggi flokkun þar sem botnkort eru grundvallar forsenda. Undanfarin árin hafa kaupendur sjávarafurða gert meiri kröfur um vistkerfisnálgun við stjórnun veiða en hafsbotnsrannsóknir og kortlagning búsvæða gegna þar stóru hlutverki.
- Með fjölgeislamælingum og kortlagningu safnast gögn og upplýsingar sem eru forsenda margvíslegra rannsókna á sviði jarð-, líf- og umhverfisfræða. Má þar nefna rannsóknir á úthafshryggjum, jarðskorpuhreyfingum, jarðhita og loftslagsbreytingum.
Heimild: Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið