Vindorka – Samfélagseign, auðlindagjald

Grein/Linkur:  Vindorka – Hvert stefnir?

Höfundur:  Ari Trausti Guðmundsson

Heimild:

.

.

Desember 2023

Vindorka – Hvert stefnir?

Ari Trausti Guðmundsson

Fyrr­ver­andi þing­mað­ur Vinstri grænna seg­ir að veru­leg­ur hluti lands­manna sé senni­lega fylgj­andi sam­fé­lagseign á stór­um raf­orku­ver­um. Er­lend­ir að­il­ar ásæl­ist vindorku hér­lend­is.

Sennilega er verulegur meirihluti landsmanna fylgjandi samfélagseign raforkuvera með yfir 10 MW afli, óháð umdeildri orkunýtingu og það sama á við um flutningskerfið. Landsvirkjun ráðstafar um 1990 MW af 2.750 MW rafafli landsins og Landsnet rekur flutningskerfið.

Full orkuskipti eru fyrirhuguð 2040 og innan nýtingarflokks 4. áfanga Rammaáætlunar eru stækkanir virkjana, tveir vindorkukostir Landsvirkjunar og vatnsorkukostir. Hvað sem skoðunum á orkukostunum líður hefur verið víðtæk samstaða um að Ramminn sé lögfestur til þess að halda nauðsynlegri heildarsýn og heildarstjórnun á raforkuframleiðslunni. Þar með töldum öllum vindorkuverum yfir 10 MW aflmarki sem kunna að vera reist á næstu árum. Það á ekki fyrst og fremst að vera sveitarfélaga að heimila slíkar framkvæmdir með allt öðrum hætti en aðrar virkjanir, a.m.k. að margra mati.

Galla Rammans er unnt að sníða af eða ná fram sömu markmiðum heildarstjórnunar orkumála með öðrum hætti, náist samstaða um slíkt. Um það er ekki fjölyrt hér.

Fyrir alllöngu tók að bera áætlunum um tugi vindorkuverkefna til Orkustofnunar, allar erlendar að uppruna. Nú þegar hefur t.d. matsáætlun um 150 MW áberandi 30-mylla vindorkuver á Mosfellsheiði náð stigi matsáætlunar umhverfismála.

Sama fyrirtæki, hið norska Zephyr, er með önnur álíka verkefni, t.d. á Brekkukambi við Hvalfjörð og á Fljótsdal eystra. Fyrirtækið segist þróa 10 áætlanir hérlendis, skv. fyrstu hugmyndum með yfir 1.100 MW aflgetu. Í heild ná hugmyndir allra fyrirtækjanna um 3.300 MW viðbótarafli á landi. Ásóknin hefur ekkert með sk. orkupakka EB að gera. Telja má líklegast að fyrirtækin sjái einfaldlega ágóða í að nýta ýmis svæði og víðerni á Íslandi undir sína starfsemi enda verður nýting vinds eðlilega takmörkuð heima fyrir eins og hér á landi, fyrr en síðar. Um er að ræða fjárfestingu evrópskra fyrirtækja innan EES rétt eins og þegar íslensk fyrirtæki koma sér fyrir á meginlandinu. Erlendu orkufyrirtækin minna gjarnan á orkuskipti á Íslandi en hyggja þó væntanlega fyrst og fremst á útflutning rafeldsneytis, og ef til vill starfsemi á borð við kolefnisbindingu.

Auðlindagjald eða ekki fyrir nýtingu vindorku? Um það fjallar tillaga til þingsályktunar frá Orra Páli Jóhannssyni (VG).

Nú er beðið eftir frumvarpi til Alþingis um vindorku á Íslandi og nýjum skrefum stjórnvalda að stefnumarki um full orkuskipti og kolefnishlutleysi 2040, auk niðurstöðu verkefnahóps 5. áfanga rammaáætlunar ásamt afgreiðslu þingsins hvað áfangann varðar. Öll þessi skref eru mikilvæg. Orkumálin ná til stefnu um þjóðaröryggi, matvælaöryggi og sjálfbært hringrásarhagkerfi.

Fleira áhugavert: