OR – Stærsti matvælaframleiðandi landsins

Heimild: 

.

Ágúst 2004

Stærsti matvælaframleiðandi landsins

Jón Arnar Sigurjónsson

Flestir vita að Orkuveita Reykjavíkur framleiðir og dreifir rafmagni og heitu og köldu vatni. Færri gera sér grein fyrir að Orkuveitan telst stærsti matvælaframleiðandi landsins. Ástæðan er sú að kalda vatnið telst til matvæla á Íslandi og fær meira en helmingur landsmanna vatn sitt úr lindum Orkuveitunnar.

Okkur þykir sjálfsagt að fá hreint og kalt vatn til drykkjar þegar skrúfað er frá krananum heima. Við áttum okkur helst á því hve þægilegt slíkt er þegar við erum erlendis og þurfum að kaupa vatn á brúsa og geyma í kæli. Hreint og kalt vatn er í okkar augum sjálfsagður hlutur. En í nútímaþjóðfélagi er það langt frá því að vera sjálfsagt að hafa aðgang að slíku vatni beint úr eldhúskrananum. Okkur myndi sennilega bregða við ef þessi þægindi hyrfu einn daginn. Sem betur fer hefur verið hugsað fyrir því að þessi auðlind, sem hreint vatn er, verði það um ókomin ár. Orkuveita Reykjavíkur hefur einsett sér að viðhalda þessum einstöku gæðum vatnsins. Í því tilliti er m.a. tekið mið af kröfum stjórnvalda, sem felast í lögum og reglugerðum, og kröfum viðskiptavina og neytenda.

Kröfur stjórnvalda og neytenda

Til verndunar vatnsins hafa stjórnvöld sett nokkur lög er varða neysluvatnið. Má þar nefna vatnalög, lög um matvæli og lög um vatnsveitur sveitarfélaga. Einnig hafa verið settar reglugerðir fyrir vatnsveitur sveitarfélaga, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, um varnir gegn mengun vatns og grunnvatns, um neysluvatn og um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn. Vegna stærðar landsins miðað við fólksfjölda er auðveldara að halda grunnvatninu í þeim gæðaflokki sem við erum vön og óskum eftir. Í því skyni þarf að tryggja skýrt verklag og eftirlit í kringum framleiðslu- og dreifikerfi neysluvatnsins. Framkvæma þarf reglulegt eftirlit og öguð vinnubrögð að öllu sem snýr að vatninu.

Til að tryggja góða þjónustu og jákvæða ímynd var neysluvatnshluti Orkuveitunnar (þá Vatnsveita Reykjavíkur) vottaður skv. ÍST EN ISO 9001 gæðastaðlinum árið 1999. Orkuveita Reykjavíkur er eina vatnsveitan á Norðurlöndum með ISO 9001 vottun.

Gæði og öryggi

Til þess að tryggja gæði og öryggi vatnsins er stöðugt eftirlit með öllum ferlum þess, frá því að vatnið kemur sem rigningarvatn þar til það endar í krana viðskiptavinanna. Til þess að ná þessum hámarksgæðum er stöðugt í gangi innra eftirlit þar sem á sér stað greining áhættuþátta og mikilvægra eftirlitsstaða (skammstafað GÁMES eða á ensku HACCP sem stendur fyrir Hazard Analysis Critical Control Points). GÁMES-eftirlitskerfið byggist á gr. 3 og 4 reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Var Orkuveita Reykjavíkur, þá Vatnsveita Reykjavíkur, fyrsta vatnsveitan í heiminum sem fékk viðurkenningu, hinn 7. maí 1997, fyrir innra eftirlit skv. GÁMES-kerfisgreiningu. Reynt er að meta hvern einasta atburð sem hugsanlega gæti komið upp á og valdið leka, efna- eða örverumengun. Á undanförnum þremur árum hafa sýni, sem tekin hafa verið af köldu vatni frá Orkuveitunni, reynst 100% gallalaus en sýni tíu áranna þar á undan reyndust vera 91-99% í lagi.

Vatnasvæði

Vatnasvæðin sem huga þarf að til verndunar vatnsbóla geta verið ansi stór og ef til vill mun stærri en menn gera sér almennt grein fyrir. Gróflega séð teygir vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar sig frá Rauðavatni að Bláfjöllum og langleiðina til Straumsvíkur. Vatnsverndarsvæðum er skipt upp í nokkur svæði eftir mikilvægi og fjarlægð frá brunnum og vatnastraumum neðanjarðar. Þessi svæði kallast fjarsvæði B, fjarsvæði A, grannsvæði og brunnsvæði. Á öllum þessum svæðum gilda ákveðnar reglur s.s. er varða salernis- og þvottaaðstöðu, geymslu og notkun varasamra efna, vinnu- og vegaframkvæmdir, ræktun, áburðargjöf, búfjárhald, meðhöndlun skotvopna og umferð bifreiða og vinnuvéla. Nánasta svæði brunna skal vera afgirt. Má geta þess að inn á brunnsvæði fer ekkert ökutæki eða vinnuvél nema það hafi verið skoðað sérstaklega áður. Nánari upplýsingar um umgengni við vatnsból er að finna í samþykkt nr. 636/1997 (www.eftirlit.is/Uppl_v/Vatnsvernd_samthykkt.htm).

Framtíðin

Vegna fjölgunar íbúa á höfuðborgarsvæðinu, útþenslu byggðar og nándar vatnsverndarsvæðisins við þéttbýlið má búast við meiri áraun á vatnsverndarsvæðin. Fara þarf með mikilli gát í umgengni, skipulagi og framkvæmd á svæðunum til að tryggja hreinleika vatnsins um ókomin ár. Í dag eru vatnsverndarsvæðin ein af auðlindum Íslendinga og má búast við að verðmætin muni frekar aukast þegar fram líða stundir ef okkur tekst að viðhalda vernd svæðanna og ferskleika vatnsins. Til að ókomnar kynslóðir geti einnig notið hágæða neysluvatns skulum við umgangast vatnsverndarsvæðin með nærgætni og varúð.

Fleira áhugavert: