Lagnaárið 1995 – Endurlagnaár, sagan

Grein/Linkur:   Lagnaár er framundan

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

.

Janúar 1995

Lagnaár er framundan

Það er mikið verk að vinna við að endurnýja lagnir í stóran hluta af eldri byggingum á Íslandi. ramót eru nýliðin. Hverju eigum við að búast við á nýbyrjuðu ári? Svörin verða ekki að fullu komin fyrr en það er liðið; reynslan verður að skera úr. En spámenn og völvur eru víða. Það eru margir sem reyna að rýna í kúlu og sjá inn í framtíðina.

Flestir leggja við hlustir þegar spámenn efnahagsmála láta í sér heyra. Líklega vegna þess að þeir spádómar hafa nokkurt gildi. Upplýsingaöldin, með allri sinni tækni, er orðin fær um að sjá efnahagsþróun nokkuð fram í tímann. Það er að segja ef ekkert óvænt, eldgos, hafís eða aðrar plágur, skerast ekki í leikinn.

Um eitt eru allir sammála; það hefur verið efnahagslægð hérlendis og raunar víðar hin síðustu ár. Þessu hefur fylgt atvinnuleysi og minni kaupgeta.

Þessa hefur ekki hvað síst gætt á byggingariðnaði og þar með lagnasviði. Byggingaræði verðbólguáranna lauk og var mál til komið. Ofurtrúin á fjárfestingu steinsteypunnar hefur runnið sitt skeið; markaður íbúðarhúsa jafnt sem atvinnuhúsnæðis er mettaður að mestu. Þó er langt frá því að nýbyggingar hafi stöðvast með öllu; jafnvel er haldið áfram að byggja þó engin sé þörfin.

.

Menn eru að vakna

Já, loksins eru menn að vakna upp við þá staðreynd að byggingar þurfa viðhald. Þetta hefur okkur ekki verið ljóst. Engir hafa þó verið eins blindir og landsfeður hjá ríki og sveitarfélögum. Byggingargleðin hefur ríkt en síðan virðast flestir hafi haldið að byggingar stæðu að eilífu; að kreista út fé til viðhalds og endurbóta hefur verið þrautin þyngri, þangað til allt er komið í óefni.

Þjóðleikhúsið er sláandi dæmi.

Líklega má segja að þetta viðhorf helgist af því hversu skammt er síðan við fórum að reisa byggingar úr varanlegu efni. Byggingar frá því fyrir síðustu aldamót eru fáar og byggingaröldin hefst ekki fyrr en að lokinni seinni heimsstyrjöld nálægt miðju aldar.

En nú er komið að skuldadögum og fyrir lagnamann er öruggt að það er mál að vakna. Það er mikið verk að vinna; að endurleggja í stórum hluta eldri bygginga á Íslandi.

Við höfum farið illa að ráði okkar síðustu samdráttarár. Þau hefðum við átt að nota til að beita mannafla og fjármunum í endurlagnir og viðhald. Það hefði aukið atvinnu og aukin atvinna hefði blásið lífi í efnahag í lægð.

Þarna skorti skipulag og forystu, en það er enn tími til að bæta ráð sitt. Það er nokkuð augljóst að það verður nokkur bið á að hjól byggingariðnaðarins fari að snúast með fullum hraða. Og vonandi fara þau aldrei á meira en skaplegan hraða.

Lagnaárið 1995

Það gæti orðið nokkuð löng upptalning ef nefna ætti alla þá, sem hefðu hag af því að blása nýju lífi í endurnýjun lagna eldri húsa.

Látum nægja að segja að það sé þjóðhagslega hagkvæmt.

En það gerist ekkert af sjálfu sér. Það þarf frumkvæði. Það á að koma sameiginlega frá samtökum lagnamanna, húseigendum, þeim sem versla með lagnaefni og framleiða, lánastofnunum, forystumönnum lands og sveita.

Það sem snýr að lagnamönnum sjálfum er mjög mikilvægt. Þeir sem aldir eru upp faglega á undanförnum þenslu- og uppmælingartíma, þurfa ekki aðeins að tileinka sér nýjan þankagang, þeir þurfa margir að setja aftur á skólabekk til að læra ný vinnubrögð.

Endurlögn í eldra húsnæði er allt annar hlutur en lögn í nýja byggingu. Það þarf að efna til námskeiða fyrir lagnamenn, það þarf að kanna fyrirfram hvaða lagnaefni eru hentugust, hvaða vinnuaðferðir heppilegastar.

Það verður að vinna heimaverkefnið til að tryggja að við verðum ekki hver og einn að „finna upp hjólið“ með tilheyrandi sóun á tíma og fjármunum.

Síðast en ekki síst verður að upplýsa húseigandann um hverra kosta hann á völ; hvernig skuli standa að samningum við verksala, hvar sé upplýsingar að fá, hvaða kostir séu í fjármögnun. Umfram allt að hnýta sem flesta hnúta fyrirfram og undirbúa verkin vel og vandlega.

Það er veikur punktur hjá landanum.

Árið 1995 verði lagnaár en umfram allt; endurlagnaár.

Það mun margt óvænt koma í ljós þegar hulunni er svipt af gömlum lögnum.

Fleira áhugavert: