Sumarhús, rotþró – Lífrænt salerni
Grein/Linkur: Er rotþró besta lausnin við sumarbústað?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Maí 1994
Er rotþró besta lausnin við sumarbústað?
Eitt er víst; svo lengi sem mannkynið er við lýði verður hver og einn að ganga örna sinna, sama hvort um kóng eða kramaraumingja er að ræða. Í þéttbýlinu höldum við að lausnin sé að leggja lengri og lengri frárennslisveitur langt út í sjó með rándýrum hreinsi- og/eða dælistöðvum við strendur.
Þar held ég reyndar að við séum á alrangri braut og reyndi að rökstyðja það í pistli nýlega. Þennan pistil mega menn taka sem enn frekari rökstuðning.
.
Vandamál sumarbústaða-byggða
Vorið er komið og margur hyggur gott til glóðarinnar að dvelja sem mest utan borga, í sumarbústöðum upp til sveita.
Þeir betur efnuðu eiga sinn eigin bústað, verkalýðsfélög og hagsmunasamtök eiga flest bústaði fyrir sína félagsmenn. En það hefur vafist fyrir tæknimönnum að leysa frumþarfirnar; hvað á að gera við það sem frá okkur kemur í föstu og fljótandi formi, hvað á að gera við þvag og saur.
Fátítt mun vera að frárennsliskerfi séu lögð í sumarbústaðabyggðum, þó þéttar séu.
Ég segi fullum fetum; vonandi verður það aldrei gert. Það eru miklu betri lausnir til, lausnir sem eru vinsamlegri umhverfinu, lausnir sem eru í takt við hina eilífu hringrás.
Hvað er lífrænt salerni?
Í flestum tilfellum er reynt að leysa þetta vandamál (sem fyrir suma er einnig feimnismál) með rotþró. Hún hefur margt sér til ágætis ef rétt er að verki staðið, sem bregst of oft. Höfuðmistökin eru að láta allt frárennsli frá bústaðnum renna í rotþróna. Þarna þyrfti að skilja á milli. Í rotþróna færi aðeins frárennsli frá salerni og þess vel gætt að í það fari engin spillandi efni svo sem þvottalögur o.fl.
En ekki meira um rotþróna. Við ætluðum að lýsa lífræna salerninu nánar bæði í máli og myndum.
Lífræna salernið er með safntanki. Hann getur verið það stór að ekki þurfi að tæma hann nema tvisvar á ári. Tankurinn getur einnig verið lítill, en þá þarf að tæma hann oftar. Engin vatnsskolun á sér stað, en pappír má nota. En umfram allt; engin spilliefni svo sem sápu og þvottalög.
Það sem gerist í safntanki lífræna salernisins er nánast hliðstæða þess sem gerist í safnhaugi í garði.
Það eru bakteríur, örverur náttúrunnar, sem sjá um að brjóta efnið niður, breyta því en eyða ekki.
Rétt umhverfi
Það sem þarf er að búa svo um að þessir vinir okkar geti starfað. Góða loftræstingu í gegnum safntankinn, rétt hitastig, sem þarf að vera yfir 10 gráðum, en umbreyting efnisins gerist hraðast við 35-55 gráður. Ef hitinn fer yfir 65 gráður stöðvast umbreytingin. Þá deyja örverurnar.
Víða er sett hitaelement í safntankinn og hann þarf að einangra vel. Mikill meirihluti sumarbústaða er á jarðhitasvæðum og því auðvelt að halda hitastigi innan settra marka, enda sviðið vítt, frá 10 gráðum upp í 65.
Það þarf að koma niðurbroti eða umbreytingu efnisins af stað í byrjun. Ágætt að setja í safntankinn svolítinn „startara“. Blanda af mold, sagi eða hefilspónum er ágæt.
Hvað kemur úr safntankinum?
Þegar niðurbrot efnisins er fullgert er það aðeins 70-90% af því sem er í safntankinn fór. Þess vegna þarf svo sjaldan að tæma stóran safntank, Innihaldið er laust í sér og óttastu ekki lyktina. Þú finnur nánst moldarlykt.
Hvað gerirðu við þennan brúna massa sem líkist og lyktar sem mold?
Sértu að planta trjám eða blómum í kringum bústaðinn hefurðu fengið þann besta áburð sem völ er á. Þú getur notað hann hvar sem er, þó með þeirri undantekningu að margir veigra sér við að nota hann á grænmeti, sem etið er hrátt. Mjög líklegt er þó aðeins um misskilning að ræða, óþarfa ótta.
En stóru spurningunni er ósvarað; á ekki lífræna salernið erindi inn í bæi og borgir, erum við ekki á villigötum með þessar gífurlegu fráveitur og rándýrar hreinsi- eða dælustöðvar?
Einföld þversnið af lífrænum salernum með stórum og litlum safntanki sínar að í báðum tilfellum er loftræstirörið upp úr þaki mjög mikilvægt.
Lífrænt salerni með stórum safntanki. Í tankinum er hitaelement og vifta í loftræstiröri.
Lífrænt salerni getur verið jafn hreinlegt og snyrtilegt og vatnssalerni.