Endurnýjun lagna  – Nýjar aðferðir..

Heimild: 

 

Ágúst 1998

Nýjar aðferðir við endurlagnir í hús

Við endurlagnir í hús er undirbúningur og skipulag ekki minna atriði en við lagnir í nýbyggingar. Líklega er það þýðingarmeira, ef eitthvað er.

UM aldamótin síðustu voru hýbýli flestra landsmanna ekki upp á marga fiska, til sjávar og sveita var torf og grjót helstu byggingaefnin. Á þessu voru þó merkilegar undantekningar, enn standa hús byggð í upphafi aldar eða jafnvel fyrir aldamót, sem staðist hafa tímans tönn, en þau eru fá. Frá því fyrir miðja öld er talsvert til af húsum og ef litið er á Reykjavík má helst nefna Þingholtin og fleiri hús innan Hringbrautar. Það er ekki fyrr en með peningaflæði síðari heimsstyrjaldar að bygging íbúðarhúsnæðis hefst í stórum stíl og hefur staðið síðan með misjafnlega miklum krafti.

Það er því mikið til af húsum hérlendis sem eru 40 ára eða eldri, þetta hefur í för með sér að á síðustu árum erum við að vakna upp við þann vonda draum að mikill fjöldi húsa þarf viðhald eða algjöra endurnýjun.

Endurnýjun lagna 

Þegar svona háttar til, að mest allt íbúðahúsnæði hefur verið byggt á síðustu 50 árum, vantar hefðina, hefð viðhalds og endurbóta. Það má því segja að við séum að feta okkur inn á nýjar brautir, viðhald húsa er allt annar handleggur en nýbygging húsa. Því miður erum við ekki enn búin að ná áttum, viðhald húsnæðis vefst talsvert fyrir okkur.

Ef við lítum eingöngu á lagnir og lagnakefi í húsum höfum við þó nokkra djöfla að draga. Versti djöfsinn er sú blindgata sem farið var inn á upp úr 1950, að leggja rör í raufar í botnplötur húsa, þetta er búið að kosta óhemju fé og á eftir að kosta miklu meira. Sú árátta að hvergi megi sjást rör kostar einnig sitt og nú látum við enn einn djöfsann leika lausum hala; við hömumst við að nota galvaniseruð rör til að leggja kalt vatn innanhúss, þó allir viti að það gengur ekki.

En það er komið að því að endurleggja í heilu blokkirnar og þá er spurningin þessi; á að bíða eftir að lagnakerfin gefi sig og lekar komi fram eða eigum við að láta almanakið ráða.

Hvenær var húsið byggt, hvenær voru lagnakerfin tekin í notkun og hvaða efni var notað?

Það er ekki nokkur vafi á að það er hægt að búa til gullvægar reglur eftir almanaksaðferðinni. Hvarvetna í hinum tæknivædda heimi er þetta aðferðafræði sem er álitin gulls í gildi. Þetta gildir á flug- og skipaflota heimsins, að minnsta kosti þar sem menn láta sig viðhald og öryggi nokkru skipta, þetta er notað í iðnaði, orkuverum og hvarvetna þar sem skynsemi er látin ráða.

Forunnir lagnahlutar 

En við eigum talsvert eftir til að komast frá æðibunu aðferðunum í byggingaiðnaði eins og í öðrum atvinnugreinum. Að bjarga inn heyjum undan komandi regni, að rífa upp fiskinn í gæftum var nokkuð sem þótti sjálfsagt, í þessum atvinnugreinum var lítið hægt að skipuleggja, höfuðskepnurnar réðu ferðinni. Þetta smitaði frá sér inn í aðrar atvinnugreinar og til skamms tíma urðu menn víðáttuvitlausir þegar steypa átti hús, það er ekki svo ýkja langt síðan að nýsteyptar tröppur litu út eins og ódáðahraun eða að nýsteyptir veggir voru eins og fylfull meri, um að gera að djöflast sem mest til að koma steypunni í mótin.

En þegar kemur til endurlagna í eldri hús er vissulega kominn tími til að spara vöðvaorkuna svolítið og láta gráu sellurnar starfa því meira. Eitt af því sem hlýtur bráðum að halda innreið sína í okkar lagnahefð er að forvinna á verkstæði lagnahluta í byggingar, þetta hefur víða erlendis verið gert með góðum árangri í fjölda ára.

Við endurlagnir í hús er undirbúningur og skipulag ekki minna atriði en við lagnir í nýbyggingar, líklega þýðingarmeira ef eitthvað er. Þar skiptir það miklu að truflun innanhúss verði sem minnst fyrir íbúa eða þá sem í húsinu starfa. Þetta hefur líka mikla fjárhagslega þýðingu, ef íbúar þurfa ekki að flytja út úr sínu húsi meðan á framkvæmdum stendur getur það sparað talsverðar fjárhæðir.

En hver á að hafa frumkvæði að því að vinnubrögð við undirbúning og framkvæmdir við endurlagnir í eldri hús verði krufin og skipulögð? Það eiga fagmennirnir að gera og það er þegar í undirbúningi hjá pípulagningamönnum.

Menntafélag byggingaiðnaðarins er með námskeið í undirbúningi undir heitinu „Endurlagnir í eldri hús og frárennslislagnir“. Þar verður tekið á því sem að iðnaðarmanninum snýr, en hvað þá um hönnuði, eru þeir reiðubúnir til að vinna að þessu mikilvæga máli?

Lagnafélagið ætlar einnig að halda ráðstefnu um sama efni í október svo það er talsverð vakning í gangi um þetta mikilvæga viðfangsefni.

Fleira áhugavert: