Vatnslagnir í utanhúseinangrun – Heppilegt?

Heimild: 

.

Ágúst 1995

Farið úr öskunni í eldinn

Auk rör-í-rör kerfisins eru komin á markað mjög snyrtileg þunnveggja stálrör. Þessar lagnir má leggja óhuldar með öllu eða setja yfir þær snyrtilegan gólflista.

Smátt og smátt eru flestir að vakna af vatnsskaðasvefninum. Það á vonandi jafnt við um alla, hönnuði, iðnaðarmenn, húsbyggjendur, húseigendur og allan almenning. Sú gamla lagnavenja að troða snittuðum, samanskrúfuðum lögnum inn í einangrun útveggja eða einhvern annan hluta bygginga er að missa fótfestuna, undanhaldið er hafið því aðrar skynsamlegri og öruggari leiðir eru til.

En það eru fleiri byggingaraðferðir að breytast; löngum hafa annmarkar þess að einangra hús að innan verið ljósir og hægt og sígandi eru fleiri og fleiri farnir að einangra hús að utan, þá myndast heil hlífðarkápa um húsið og engar kuldabrýr myndast þar sem gólfplötur eða milliveggir tengjast útveggjum.

En margt er skrítið í kýrhausnum.

Ef farið er með einangrunina út fyrir útveggi, hvar á þá að troða lögnunum?

Nú vandast málið.

Þeir sem ganga gamlar fjárgötur í hönnun lagnakerfa eru þráir eins og sauðkindin og láta ekki hrekja sig af hefðbundnum leiðum frekar en þeir ferfættu.

Í einu af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er maður að koma sér upp þaki yfir höfuðið og einhver framsýnn hefur bent honum á að einangra húsið að utan og klæða það síðan, gott mál en hvað á þá að gera við lagnirnar?

Lagnahönnuðir dóu ekki ráðalausir, þeir eltu.

Hvort sem menn trúa því eða ekki þá er það staðreynd að á borðinu liggur teikning þar sem sýnt er svart á hvítu að hitalögnina skal leggja í einangrunarlagið utanhúss.

Er eitthvað við það að athuga?

Já, æði margt og það er ekki of djúpt tekið í árinni að segja að hér sé farið „úr öskunni í eldinn“ og rökin gegn þessari fráleitu hönnun eru meðal annars þessi:

1. Það er margsannað að huldar lagnir, hvar sem þær eru, geta skaðast af utanaðkomandi raka án þess að það uppgötvist fyrr en of seint. Eini plúsinn við að lagnirnar eru utaná húsinu er sá að ekki verður eins mikill skaði við hugsanlegan leka og ef lagnirnar væru huldar innanhúss.

2. Leki á rörum, sem eru í einangrun utanhúss, hefur í för með sér mikið rask á einangrun og kápu vegna viðgerðar.

3. Það hefur löngum verið vandaverk að ganga vel frá lögnum í einangrun útveggja þannig að ekki tapist mikill varmi og komið hefur fyrir að frosið hefur í slíkum lögnum.

Varmatap lagna í einangrun utanhúss mun aukast stórlega og einnig frosthætta. Þetta hlýtur öllum að verða ljóst ef grannt er skoðað. Milli rörs með 70 gráðu heitu vatni annars vegar og loftræsts rýmis undir kápu hins vegar, þar sem kann að vera 10 gráðu frost, er að vísu einangrunarlag. Það ætti samt að liggja í augum uppi að hitatap verður mikið og ekki síður verður frosthætta mikil ef vatn er kyrrstætt í pípum, sem oft getur komið fyrir.

Það styttist óðum í það að huldar lagnir, aðrar en rör-í-rör kerfið sem er pexplaströr í kápu, verði alfarið bannaðar. Auk rör-í-rör kerfisins eru komin á markað mjög snyrtileg þunnveggja stálrör. Þessar lagnir má leggja óhuldar með öllu eða setja yfir þær snyrtilega gólflista. Heitt og kalt vatn má á sama hátt leggja úr rörum úr ryðfríu stáli og spá mín er sú að innan fárra ára þekkist vart að skrúfuð járnrör verði notuð til innanhússlagna í íbúðarhúsnæði hérlendis, enda hafa komið fram sterkar vísbendingar að galvaniseruð járnrör í kaldavatnsleiðslum tærist hratt á höfuðborgarsvæðinu og eirrör ætti ekki að nota í heitavatnslagnir þar heldur.

ÞAÐ verður munur þegar hægt verður að gera við huldar lagnir í einangrun utanhúss, eða hvað?

Fleira áhugavert: