Loftrsæikerfi – Stilla þarf loft-,hita-,rakastig

Heimild:  

.

Júní 1995

Ljúfir tónar í svitabaði

Er það lögmál, að fullkominn, tölvustýrður loftræstibúnaður í nýjum húsum sé svo takmarkaður, að ekki sé hægt að halda því hita- og rakastigi, sem hæfir hverju sinni.

Síðastliðið sunnudagskvöld héldu tveir fremstu fiðlusnillingar okkar tónleika í Hafnarborg í Hafnarfirði og leikmaður á sviði tónlistar getur aðeins þakkað fyrir sig og lýst hrifningu sinni, enda er þetta ekki vettvangur til að fjalla um listir. Laugardaginn fyrir páska var annar eftirminnilegur tónlistarviðburður, þá í hinu glæsilega Gerðarsafni í Kópavogi, fimm snjallir tónlistarmenn fluttu barokktónlist og vissulega var fengur að heyra hið fágæta hjóðfæri, sembal.

Þessir tveir tónlistarviðburðir áttu eitt sameiginlegt, sem ekki var eins jákvætt og sú ljúfa tónlist sem þarna var flutt; á báðum stöðum var svækjuhiti, sem jókst eftir því sem á tónleikana leið og loftið var þungt og mollulegt. Ef tónleikagestum leið ekki vel vegna þessa, hvað þá um hina ágætu listamenn, sem ekki sitja kyrrir í sætum eins og gestirnir, heldur þurfa ekki aðeins að reyna á sig andlega heldur einnig líkamlega.

Þegar málið var rætt við starfsmenn á báðum stöðum var svarið það sama; þetta hús er ekki hannað sem tónleikahús.

Það er einmitt það.

Gerðarsafn er nýtt hús og Hafnarborg er ekki heldur gömul; verður þetta að vera svona? Kjarvalsstaðir eru miklu eldri, þótt ekki sé það tekið gott og gilt að ekki sé hægt að halda þar tónleika án undirspils loftræstikerfisins. Er það eitthvert lögmál að fullkominn tölvustýrður loftræstibúnaður í nýjum húsum sé samt svo takmarkaður að ekki sé hægt að halda því hita- og rakastigi sem hæfir því sem er að gerast í húsinu á hverjum tíma?

Hver á að svara slíkri spurningu?

Hlekkurinn sem brást

Ef til vill er vandamálið það, að það er enginn einn sem svara vill eða getur þeirri spurningu; það eru svo margir aðilar sem leggja hönd á plóginn að oft virðist vanta samræmingu eða réttara sagt að einhver einn aðili taki af skarið og fylgi kerfinu til enda.

Fyrst skal nefna hönnuð kerfisins, þann sem hannar vélbúnað og lagnastokka; í öðru lagi hönnuð stjórnbúnaðar; í þriðja lagi verktaka vélbúnaðar og loftræstilagna; í fjórða lagi verktaka stjórnbúnaðar; í fimmta lagi þann sem tekur við kerfinu og sér um rekstur þess.

Hvar er hlekkurinn sem brást?

En er það ekki fullmikið tekið upp í sig að slá því föstu að einhver hlekkur hafi brugðist?

Nei engan veginn, því það er ekki hægt að sætta sig við að loftræstikerfi í nýrri byggingu, þar sem ekkert hefur verið til sparað, sé ekki þannig úr garði gert að það veiti gestum vellíðan hvað svo sem er að gerast í húsinu. Svo aftur sé vitnað til Gerðarsafns þá er þetta allsendis óviðunandi ástand; á hátíðarsamkomu vegna 40 ára afmælis Kópavogskaupstaðar komu menn andstuttir út, kvartandi um svækju og loftleysi og sama var upp á teningnum sl. laugardag við opnun listasýningar Gríms Marínós Steindórssonar og því er sagt hér; allt er þegar þrennt er, það er ekki hægt að þegja lengur.

Það er nefnilega mjög líklegt að það sé nánast ekkert að, það má mjög líklega fullyrða að í þessum húsum séu hin ágætustu kerfi að hönnun og smíði, en eitthvert lítið atriði í notkun og beitingu kerfisins sé mistökin; samt er ekki verið að fullyrða neitt.

Hlekkurinn, sem bregst, er einmitt oftast þessi; þeir sem eiga að reka kerfin daglega fá ekki næga þjálfun, fá ekki nægar upplýsingar um möguleikana eða gleymdist að láta leiðarvísinn fylgja? Er engin handbók til staðar?

Eitt jákvætt dæmi er Ráðhúsið í Reykjavík, þar voru þeir sem eiga að sjá um tæknibúnað hússins teknir á námskeið og ekki skilið við þá fyrr en þeir höfðu fengið þær upplýsingar munnlegar og skriflegar og þjálfun sem til þurfti til að þeir geti stýrt þessum flókna búnaði. Þó að þær byggingar, sem nefndar voru í upphafi pistils séu miklu minni en Ráðhúsið er líklegt að loftræstibúnaðurinn sé í eðli sínu sá sami.

Er týndi hlekkurinn fundinn? Ef svo er ekki þarf að finna hann, það er sérstaklega nauðsynlegt fyrir alla þá fjölmörgu gesti sem heimsækja þessar menningarstofnanir eða aðrar stofnanir og byggingar því að eitt er fullvíst; svona er ástandið víða hvarvetna á landinu.

Það er ekki síður nauðsynlegt fyrir allt lagnafagið. Það er ekki góð auglýsing fyrir lagnamenn að í hverri viku séu hundruð gesta að ganga út úr þessum húsum, dæsandi sveittir og tautandi; mikið déskotans drasl eru þessar loftræstingar, þetta er aldrei í lagi og því verra sem þær eiga að vera fullkomnari.

Er furða þó sveittir gestir segi annað eins og þetta?

Er ekki kominn tími að lagnamenn taki til í þessum ranni?

Það er skiljanlegt eð ekki sé allt í lagi í gömlum og slitnum loftræstikerfum, en slíkt er ekki hægt að þola í nýjum kerfum.

Fleira áhugavert: